Góður gangur hjá PCC og bónuskerfi í vinnslu

Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn í samstarfi við stjórnendur PCC á Bakka hafa síðustu mánuði unnið að því að þróa kaupaukakerfi í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Kaupaukakerfinu er ætlað að auka gæði framleiðslunnar, fyrirtækinu og starfsmönnum til góða. Vonir eru bundnar við að kaupaukakerfið og aukin framleiðsla muni færa starfsmönnum þó nokkra launahækkun umfram kjarasamningsbundnar launahækkanir. Fyrir eru launakjör starfsmanna ein þau bestu sem þekkjast á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, það er á almenna vinnumarkaðinum.

Rekstur PCC hefur gengið vel undanfarið og eru slegin framleiðslumet, nánast í hverjum mánuði. Eins og fram kom í fjölmiðlum á síðasta ári stöðvaði fyrirtækið framleiðslu tímabundið haustið 2021 fram á þetta ár vegna ástandsins á mörkuðunum. Framleiðslan er nú í fullum gangi og er PCC eitt mikilvægasta fyrirtækið á Norðurlandi. Í dag starfa hjá fyrirtækinu um 150 manns, flestir þeirra eru í Framsýn stéttarfélagi. Þá starfa fullt af undirverktökum hjá fyrirtækinu og tengdum þjónustufyrirtækjum. Því miður eru dæmi um að menn tali fyrirtækið niður, oft vegna mikillar vanþekkingar. Athygli vakti á dögunum þegar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, hélt því fram að PCC væri nánast í andarslitrunum. Forstjóri PCC svaraði um hæl í fjölmiðlum og sagðir fréttir af andláti fyrirtækisins stórlega ýktar. Í samtali við Fréttablaðið kemur auk þess fram hjá forsvarsmönnum PCC að salan gangi vel og markaðirnir séu góðir. Verksmiðjan sé nú í hámarksafköstum og eigendur verksmiðjunnar séu ánægðir með stöðu mála enda fyrirtækið skilað hagnaði undanfarna mánuði. Veltan sé um tveir milljarðar á mánuði. Verð á hverju tonni af framleiðsluafurð fyrirtækisins hafi rokið úr 1.500 evrum í 7.000 evrur. Verði þetta þróunin geti svo farið svo að milljarða niðurfærslur á hlutabréfum gangi til baka að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Færðu Hreimi ljósritunarvél

Stéttarfélögin þurftu nýlega að endurnýja ljósritunarvél á skrifstofu félaganna á Húsavík. Það var við hæfi að færa Karlakórnum Hreimi gömlu vélina að gjöf enda þarf kórinn á öflugri vél að halda til að ljósrita söngtexta fyrir meðlimi kórsins sem stefnir að líflegu starfi í vetur eftir því sem best er vitað. Það hefur þó ekki fengist staðfest hjá forsvarsmönnum kórsins. Karlakórinn Hreimur var stofnaður í janúar 1975. Kórfélagar, sem í dag eru um 60, láta ekki miklar vegalengdir aftra sér frá því að stunda sitt áhugamál og sækja hollan og uppörvandi félagsskap sem gefur þeim mikla lífsfyllingu. Kórinn hefur lengi haft æfingaraðstöðu í Hafralækjarskóla í Aðaldal.

Fjölmörg mál á dagskrá stjórnar og trúnaðarráðsfundar

Stjórnar og trúnaðarráðsfundur verður haldinn í Framsýn þriðjudaginn 7. desember kl. 17:00 í fundarsal félagsins.Stjórn Framsýnar-ung tekur einnig þátt í fundinum.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Asparfell-viðgerðir

4. Aðalfundur Sjómannadeildar félagsins

5. Málefni Húsasmiðjunnar/BYKÓ

6. Skúffusjóður

7. Launakjör félagsmanna ASÍ/BSRB

8. Samningur við Flugfélagið Erni

9. Orlofsmál 2021

10. Lögfræðingur félagsins

11. Þorrasalir-skipulagsmál

12. Fyrir ofan bakka og neðan

13. Kjarasamningar

14. Lagfæringar á heimasíðu félagsins

15. Ávöxtun á reikningum félagsins

16. Ályktun FÍA

17. Gjafir til björgunarsveita

18. Málefni eldri félagsmanna

19. Önnur mál

Öflugt starf hjá Hjálparsveit skáta í Reykjadal

Björgunarsveitir Landsbjargar eru sjálfboðaliðasamtök sem njóta mikillar virðingar meðal landsmanna og líklega finnst flestum mikilvægt að í hverju samfélagi séu einstaklingar sem bregðast við af þekkingu og færni þegar eitthvað ber út af. Það er heldur ekki ofsögum sagt að undanfarin ár hafi náttúruöflin  minnt rækilega á sig með jarðskjálftum, ofsaveðrum, ofanflóðum  og eldgosi og af þeim sökum hefur mætt mikið á sveitunum.

Á aðalfundi Framsýnar síðastliðið vor var ákveðið að styðja við starfsemi  björgunarsveitanna á félagssvæðinu með tæplega tveggja milljóna króna fjárframlagi, en á svæðinu eru starfandi sjö öflugar sveitir. Með því vill félagið sýna örlítinn þakklætisvott fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem björgunarsveitirnar vinna í þágu samfélagsins.

 Í gærkvöldi heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir, ásamt Guðnýju Ingibjörgu Grímsdóttur, Hjálparsveit skáta í Reykjadal. Það var Andri Hnikar Jónsson formaður sveitarinnar sem veitti 250.000 kr,-. gjöf Framsýnar viðtöku ásamt nokkrum félögum sveitarinnar. Færði Andri Hnikar fulltrúum Framsýnar bestu þakkir fyrir gjöfina. Sagði hann Hjálparveitina nýlega hafa kostað töluvert til tækjakaupa, auk þess væri unnið að byggingu nýs og stærra húsnæðis og það kæmi sér vel að fá stuðning við svo kostnaðarsöm verkefni.

Það var afar ánægjulegt að koma í Reykjadalinn og hitta félaga HSR sem voru á leið á námskeið í fyrstu hjálp. Það vakti athygli gestanna hversu margir ungliðar voru mættir í hús, en einn þeirra þátta í starfi björgunarsveita sem verður seint full metinn er hversu mikilvægu hlutverki sveitirnar gegna varðandi félagslagslega uppbygging ungmenna víða um land. Kom fram í máli Andra Hnikars að meðlimir í HSR, sérstaklega unga fólkið hafi verið duglegt að sækja sér menntun undanfarið ár hjá Björgunarskóla Landsbjargar.

Meðlimir HSR eru um 60 talsins og er núverandi húsnæði þeirra í Iðnbæ.

Björgunarsveitin Garðar þakkar fyrir sig

Á síðasta aðalfundi Framsýnar var samþykkt að færa björgunarsveitum á félagssvæðinu tæpar tvær milljónir í heildina að gjöf fyrir þeirra framlag til samfélagsins sem er ómetanlegt. Nú þegar hefur björgunarsveitunum Þingey og Pólstjörnunni á Raufarhöfn verið færðar gjafir. Í hádeginu í dag var komið að því að afhenda Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík gjöf kr. 250.000,-. Það voru þeir Birgir Mikaelsson og Júlíus Stefánsson frá Garðari sem tóku á móti gjöfinni. Þeir sögðu hana koma að góðum notum, nú þegar unnið væri að því að koma upp nýrri búningsaðstöðu fyrir konur í björgunarsveitarhúsinu. Konur hefðu í auknum mæli gengið í sveitina sem væri afar gleðilegt. Þá væri alltaf pláss fyrir fleiri konur og karla í sveitinni enda starfið öflugt um þessar mundir. Stór þáttur í starfi björgunarsveita er að safna fjármagni til rekstrar sveitanna. Hvað það varðar kom fram hjá þeim Birgi og Júlíusi að nú væri unnið að því að koma upp tveimur öflugum dósagámum á Húsavík enda dósasöfnun mikilvæg tekjulind fyrir sveitina. Þeir sögðust vonast til að bæjarbúar tækju góðu aðgengi að gámunum vel með því að leggja sveitinni til dósir til starfseminnar sem hér með er komið á framfæri. Biggi og Júlli voru ánægðir með sig þegar þeir yfirgáfu skrifstofuna með gjöfina frá Framsýn í farteskinu.

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar verður haldinn miðvikudaginn 29. desember 2021 kl. 17:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjaramál
  3. Önnur mál

Að venju verður boðið upp á hefðbundnar veitingar á fundinum. Skorað er á sjómenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum um málefni sjómanna.

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar

Trúnaðarmenn fari ekki á vakt beint eftir námskeið

Trúnaðarmenn hafa veigamiklu hlutverki að gegna. Þeir eru fulltrúar stéttarfélags á vinnustaðnum og þeim ber að gæta að réttindum samstarfsmanna sinna. Hlutverk trúnaðarmanna getur verið krefjandi og er mikilvægt að trúnaðarmenn séu ávallt vel meðvitaðir um réttindi sín og annarra á vinnustaðnum.

Með það að leiðarljósi er trúnaðarmönnum tryggð þau mikilvægu réttindi að geta sótt málþing, fundi, ráðstefnur og námskeið í allt að fimm vinnudaga á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þannig geta trúnaðarmenn til dæmis sótt fræðslunámskeið á vinnutíma og bætt við sína þekkingu á vinnurétti. Dæmi um slík námskeið er trúnaðarmannanám Félagsmálaskóla Alþýðu sem BSRB og ASÍ starfrækja, en hlutverk hans er meðal annars að skipuleggja og halda námskeið fyrir trúnaðarmenn þar sem þeir fá fræðslu. Þannig verða þeir hæfari trúnaðarmenn og öflugri, fyrir bæði starfsmenn og stéttarfélög.

Þegar trúnaðarmaður sækir slíka fræðslu telst hann vera að sinna sinni vinnuskyldu þann daginn með viðveru á því málþingi, fundi, ráðstefnu eða námskeiði. Trúnaðarmaður hefur þar af leiðandi ekki aðra vinnuskyldu þann daginn nema viðvera hans við fræðsluna hafi verið hluta úr degi. Á þetta álitamál hefur reynt fyrir Félagsdómi, en í málinu hafði trúnaðarmaður verið á trúnaðarmannanámskeiði á dagvinnutíma og mætti þar af leiðandi ekki á kvöldvakt sem var skipulögð sama dag. Trúnaðarmaðurinn taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með setu á námskeiðinu en vinnuveitandi taldi svo ekki vera heldur hefði honum borið að mæta til vinnu að námskeiði loknu enda hefði námskeiðið farið fram utan hans vinnutíma.

Niðurstaða Félagsdóms í málinu er skýr og óumdeild. Krafa vinnuveitanda um að trúnaðarmaður ynni kvöldvaktir strax í kjölfar námskeiðsins hamlaði rétti hans til að sækja trúnaðarmannanámskeið enda fæli það í raun í sér 16 tíma vinnudag sem samræmist hvorki ákvæðum kjarasamninga né laga. Niðurstaða þessi staðfestir það sem stéttarfélögin hafa haldið fram um árabil að viðvera trúnaðarmanns á trúnaðarmannanámskeiði eða sambærilegri fræðslustarfsemi sem fellur undir rétt hans samkvæmt kjarasamningi jafngildi vinnuskyldu hans þann daginn. (Frétt tekin af heimasíðu BSRB)

Bylting í ferskleika hráefnisins á nokkrum árum

ÚA fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu á staðnum, starfsmenn eru hátt í tuttugu. Þar fer fram þurrkun allra hausa og hryggja sem til falla hjá fiskvinnslu ÚA á Akureyri og eru afurðirnar seldar til Nígeríu. Að jafnaði fara tveir fjörutíu feta gámar á viku frá Laugum til Nígeríu. Vinnslustjórinn segir að ferskleiki hráefnisins hafi tekið stórstígum framförum á undanförnum árum.

Á síðasta ári bárust 7.700 tonn til þurrkunar á Laugum, sem er svipað magn og árið á undan. Pétur Hafsteinn Ísleifsson stýrir vinnslunni á Laugum. Hann segir að jarðhitinn á svæðinu geri það að verkum að hagstætt sé að vera með slíka vinnslu á staðnum og hann segir að með árunum hafi byggst upp verðmæt verkkunnátta starfsfólksins.

 40 þúsund tonn af heitu vatni

„Ég hef starfað hérna í ellefu ár en margir eru með mun lengri starfsaldur en ég, sem segir okkur að líklega er þetta góður vinnustaður. Margir spyrja sig hvers vegna slík vinnsla sé langt inni í landi og svarið er að hérna er nóg af heitu vatni en við erum að nota um það bil 40 þúsund tonn af heitu vatni á mánuði og erum því langstærsti notandinn á svæðinu,“ segir Pétur Hafsteinn.

Umhverfisvæn framleiðsla

Pétur segir að vinnslugetan sé um 180 til 200 tonn af hausum og hryggjum á viku og unnið alla virka daga vikunnar.

 „Þetta þýðir að blásararnir eru í gangi nánast alla daga ársins. Hryggirnir eru tilbúnir til útflutnings eftir um fjóra sólarhringa en hausarnir eru tilbúnir til pökkunar eftir 12 daga. Tölvukerfið sér um að stýra þurrkferlinu en hráefnið má ekki þorna of hratt né vera of þurrt eða blautt. Nei, þetta telst ekki vera mjög flókin starfsemi, en hún krefst verkþekkingar. Mannauðurinn hérna skiptir miklu máli og svo auðvitað heita vatnið og rafmagnið, þetta er að miklu leyti umhverfisvæn framleiðsla.“

Allt önnur staða

 „Það hefur orðið gríðarleg breyting á ferskleika hráefnisins á nokkrum árum, núna eru togararnir að landa fiski eftir þriggja til fimm sólarhringa túra og kælikerfi skipanna eru auk þess mjög öflug. Þetta gerir okkur kleift að framleiða gæðaafurðir og kaupendurnir eru hæstánægðir. Þetta er mikil breyting miðað við á árum áður er úthald skipa var lengra og biðin í hráefniskælum einnig, við getum í raun og veru talað um byltingu. Þetta þýðir líka að lyktin sem óhjákvæmilega fylgir slíkri starfsemi er ekki lengur teljandi vandamál.“

 Stöðugur útflutningur

„Útflutningur er stöðugur, héðan fara vikulega tveir fjörutíu feta gámar og kaupendurnir eru hæstánægðir með gæðin. Framleiðslan á þessu ári verður ósköp svipuð og á undanförnum árum, enda stöðugleikinn nauðsynlegur, bæði fyrir okkur og kaupendurna í Nígeríu,“ segir Pétur Hafsteinn Ísleifsson verkstjóri fiskþurrkunar ÚA á Laugum í Reykjadal.

(Þessi frétt er tekin af vef Samherja sem er m.a. með starfsemi í Reykjadal þar sem félagsmenn Framsýnar starfa. Myndirnar eru eign Framsýnar)

Félagsmenn Framsýnar beðnir um að svara könnun um stöðu þeirra á vinnumarkaði

Félagsmenn góðir, nú þurfum við á ykkar aðstoð að halda til að geta metið ykkar stöðu á vinnumarkaði. Við viljum biðja ykkur að taka þátt í stuttri skoðanakönnun um stöðu ykkar. Það tekur stuttan tíma og allir sem svara komast í pott og geta unnið 30.000 króna gjafakort.

Könnunin er á vegum Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var stofnuð af ASÍ og BSRB árið 2020. Könnunin er mikilvægur liður í upplýsingaöflun um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi varðandi fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, heilsu og áhrifa heimsfaraldursins. Niðurstöður hennar munu hjálpa okkur við að greina stöðu launafólks á Íslandi.

Það tekur aðeins um 10 mínútur að svara könnuninni. Spurt er um húsnæði, fjárhagsstöðu, líðan, heilsufar, heilbrigðisþjónustu, sumarfrístöku, áhrifa heimsfaraldursins í starfi sem og á einkalíf.

Könnunina finnið þið hér: : https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og mun sjá um úrvinnslu á niðurstöðum.

  • Könnunin verður opin í tvær vikur og hægt er að svara henni í síma, spjaldtölvu eða í tölvu.
  • Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
  • Þrír þátttakendur vinna 30.000 kr. gjafakort fyrir þátttökuna.
  • Könnunin opnar miðvikudaginn 24. nóvember og verður lokað þriðjudaginn 8. desember.

Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Framsýn stéttarfélag

Sorry félagar við Eyjafjörð

Að gefnu tilefni vegna fréttar í Vikublaðinu í gær varðandi samstarf Einingar-Iðju og Félags verslunar- og skrifstofufólks um flutning réttinda félagsmanna þessara tveggja félaga milli félaganna er rétt að taka skýrt fram:

Í fréttinni kemur fram að stéttarfélögin við Eyjafjörð hafi gert með sér samstarfssamning um nýtingu réttinda fari félagsmenn þessara tveggja félaga milli félaganna. Um er að ræða samkomulag til eins árs sem verði þá endurskoðað í ljósi reynslunnar. Ekki sé betur vitað en að þessi tvö stéttarfélög séu fyrst aðildarfélaga innan ASÍ til að gera samning af þessu tagi. Með honum sé stórt skref stigið í að tryggja að réttindi fólks detti ekki niður færi það sig milli félaga. Það er full ástæða til að hrósa stéttarfélögunum við Eyjafjörð fyrir þessa ákvörðun þar sem vinnandi fólk sem færir sig milli félaga tapar oftast sínum réttindum við millifærsluna. Reglur ASÍ taka á þessu að hluta enda færist félagsmenn til innan aðildarfélaga sambandsins. Eftir að viðkomandi aðili hefur greitt til nýja félagsins í mánuð eftir að hann hætti að greiða í fyrra félagið innan ASÍ flytur hann sín grunnréttindi yfir í nýja félagið samkvæmt þeim reglum sem gilda hjá því stéttarfélagi sem gengið er í.

Framsýn stéttarfélag og Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, sem reka saman skrifstofu á Húsavík, gengu frá samkomulagi um flutning réttinda milli félaga fyrir svo mörgum árum að elstu menn er löngu búnir að gleyma því hvaða ár það var. Þó er vitað að það var nokkuð snemma á síðustu öld. Samkomulagið byggir á því að félagsmenn þessara tveggja félaga fá réttindi sín að fullu metin strax við flutning fari þeir milli þessara tveggja stéttarfélaga sem bæði eru innan Alþýðusambands Íslands. Það að önnur stéttarfélög á Norðurlandi ætli sér að feta í fótspor stéttarfélaganna við Skjálfanda er að sjálfsögðu mikið gleðiefni sem ber að fagna. Jafnvel er ástæða til að skjóta upp flugeldum ef það er ekki bannað.

Félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur eru beðnir um að svara könnun um stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Félagsmenn góðir, nú þurfum við á ykkar aðstoð að halda til að geta metið ykkar stöðu á vinnumarkaði. Við viljum biðja ykkur að taka þátt í stuttri skoðanakönnun um stöðu ykkar. Það tekur stuttan tíma og allir sem svara komast í pott og geta unnið 30.000 króna gjafakort.

Könnunin er á vegum Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var stofnuð af ASÍ og BSRB árið 2020. Könnunin er mikilvægur liður í upplýsingaöflun um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi varðandi fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, heilsu og áhrifa heimsfaraldursins. Niðurstöður hennar munu hjálpa okkur við að greina stöðu launafólks á Íslandi.

Það tekur aðeins um 10 mínútur að svara könnuninni. Spurt er um húsnæði, fjárhagsstöðu, líðan, heilsufar, heilbrigðisþjónustu, sumarfrístöku, áhrifa heimsfaraldursins í starfi sem og á einkalíf.

Könnunina finnið þið hér: : https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og mun sjá um úrvinnslu á niðurstöðum.

  • Könnunin verður opin í tvær vikur og hægt er að svara henni í síma, spjaldtölvu eða í tölvu.
  • Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
  • Þrír þátttakendur vinna 30.000 kr. gjafakort fyrir þátttökuna.
  • Könnunin opnar miðvikudaginn 24. nóvember og verður lokað þriðjudaginn 8. desember.

Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Starfsmannafélag Húsavíkur

Fundað með BYKÓ

Framsýn stéttarfélag hefur fengið mikla hvatningu úr samfélaginu um að berjast gegn því að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Það er ekki síst frá verktökum, sveitarstjórnarfólki og íbúum á svæðinu. Hvað það varðar hefur Framsýn fundað með talsmönnum Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins sem eðlilega hafa miklar áhyggjur af lokuninni.

Því miður hefur Húsasmiðjan ekki fallist á að endurskoða fyrri ákvörðun um að loka á gamlársdag. Þeir hafa hins vegar opnað á að vera með söluskrifstofu á Húsavík eftir áramótin.

Í ljósi þess að Húsasmiðjan stefnir að því að loka verslun fyrirtækisins um næstu áramót hafa heimaaðilar, þar á meðal Framsýn, sett sig í samband við aðra aðila sem eru stórir á þessum markaði á Íslandi með það að markmiði að kanna hvort til greina komi að þeir setji upp byggingavöruverslun á Húsavík. Fyrir síðustu helgi var fundað með stjórnendum BYKÓ sem hafa tekið heimamönnum mjög vel enda alvöru fyrirtæki. Þeir eru með málið til skoðunar. Fram hefur komið að þeir eru afar ánægðir með þá miklu hvatningu sem þeir hafa fengið frá heimamönnum um að opna verslun á Húsavík komi til þess að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um áramótin sem flesti bendir til, því miður.

Undirbúningur að hefjast vegna komandi kjaraviðræðna

Starfsgreinasamband Íslands er um þessar mundir að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins þrátt fyrir að kjarasamningar sambandsins og Samtaka atvinnulífsins séu ekki lausir fyrr en 1. nóvember 2022.  Á morgun, miðvikudag, mun hópur á vegum sambandsins setjast yfir bókanir í kjarasamningi SA og SGS er viðkemur ferðaþjónustusamningnum. Formaður Framsýnar mun koma að þessari vinnu fyrir sambandið. Í kjölfarið, væntanlega í byrjun desember, verður síðan fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Það er um bókanirnar og framgang þeirra og hvernig fara skuli með þær en bókanirnar eru hluti af gildandi kjarasamningi aðila.  

Hallar verulega á almennt verkafólk sem starfar eftir kjarasamningi SGS og SA

Það er ekki alltaf auðvelt á átta sig á yfirlýsingum BSRB um mikilvægi þess að launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jafnaður. Þá hefur því verið haldið fram af sambandinu að launakannanir hafi sýnt að launamunur á milli markaða sé orðin um það bil 17%, opinberum starfsmönnum í óhag. Vel má vera að BSRB sé að horfa til tekjuhærri hópana á íslenskum vinnumarkaði. Þessar fullyrðingar eiga ekki við um tekjulægsta fólkið sem er innan aðildarfélaga ASÍ sem er mjög svo fjölmennur hópur. Hvað þá kjarasamninginn sjálfan þar sem réttindi eru almennt miklu betri hjá opinberum starfsmönnum en í kjarasamningum starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum, ekki síst veikindarétturinn.

Tökum dæmi:

Starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum:

Flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands(SGS) raðast í launaflokka 4 til 11 í launatöflu sambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem sjá má á heimasíðu Framsýnar. Hér er að finna starfsfólk m.a. í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, kjötvinnslu, ræstingum og byggingavinnu. Dæmi eru um að bílstjórar raðist í launaflokk 17, hærra fara menn ekki. Í þessum atvinnugreinum er almennt verið að nota þessa launaflokka. Ferðaþjónustan hefur mikið verið til umræðu, þar eru notaðir þrír lægstu flokkarnir, 4-5-6. Væntanlega er þetta fjölmennasta stéttin innan Starfsgreinasambandsins á almenna vinnumarkaðinum.

Grunnlaunin hjá flestum eru á bilinu kr. 331.735 upp í kr. 351.749 á mánuði. (Launaflokkar 4 til 11).

Fjölmennir hópar á almenna vinnumarkaðinum hafa þurft að taka að sér aukavinnu umfram fulla vinnuskyldu til að geta framfleytt sér, hugsanlega er það að villa fyrir launakönnunum BSRB.

Starfsfólk sveitarfélaga sem starfar eftir kjarasamningum SGS og aðildarfélaga BSRB:

Þar er það þannig að flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands starfa eftir launaflokkum 120 til 130. Einhverjir eru fyrir neðan og einhverjir eru fyrir ofan þetta viðmið samkvæmt starfsmati.  

Á hvaða bili eru grunnlaun þessara starfsmanna? Þau eru á bilinu kr. 371.956 upp í kr. 472.634. (Launaflokkar 120-130).

Hluti félagsmanna innan starfsmannafélaga BSRB raðast einnig í þessa flokka, flestir þeirra raðast þó hærra en þessar tölur sýna enda raðast þeirra hærra samkvæmt starfsmati.

Tökum þetta saman, lægstu launin sem heimilt er að greiða samkvæmt launatöflu SGS og BSRB vegna starfsmanna sveitarfélaga eru svipuð þeim sem menn geta mest fengið samkvæmt launatöflu SGS og SA, það er bílstjórar sem raðast í launaflokk 17 enda séu þeir með full réttindi til að vinna sem slíkir.

Væntanlega er BSRB ekki að tala um lækka laun félagsmanna til samræmis við starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum þegar BSRB talar um að samræma þurfi launakjörin milli starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum og á opinbera markaðinum? Í það minnsta þurfa menn að kynna sér stöðuna áður en menn tala fyrir samræmingu kjara milli hópa á íslenskum vinnumarkaði.

Ég sem formaður í almennu stéttarfélagi með fjölmenna hópa félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum og á almenna markaðinum mun fara með þessar upplýsingar á fyrsta undirbúningsfund vegna komandi kjaraviðræðna við SA og krefjast þess að launakjör félagsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði jöfnuð við launakjör starfsmanna sveitarfélaga sem starfa eftir kjarasamningum SGS og BSRB.

Það þarf ekki flóknar launakannanir til að sjá það mikla misrétti sem er í launakjörum félagsmanna hjá sveitarfélögum annars vegar og á almenna vinnumarkaðinum hins vegar. Að sjálfsögðu þarf að bæta frekar launakjör félagsmanna BSRB og SGS sem starfa hjá sveitarfélögum en þörfin er greinilega miklu meiri á almenna vinnumarkaðinum samkvæmt fyrirliggjandi launatöflum sem hér eru hafðar til samanburðar þegar þessum athugasemdum er komið á framfæri. Í það minnsta er ekki endalaust hægt að hlusta á áróður þess efnis að opinberir starfsmenn í láglaunastörfum séu ver settir en starfsmenn í láglaunastörfum samkvæmt kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Það er einfaldlega ekki rétt. Það má vel vera að það eigi við um betur setta starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum sem starfa ekki eftir kjarasamningum SA og SGS. Það er að þeir hafi betri kjör en opinberir starfsmenn, þá eiga menn að leggja fram gögn þess efnis í stað þess að alhæfa að það eigi við um alla starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Höldum okkur við staðreyndir, takk fyrir.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Formannaráð BSRB vill aukið fé til almannaþjónustunnar

Auka þarf verulega fjárveitingar til almannaþjónustunnar til að koma íslensku samfélagi út úr heimsfaraldrinum. Fjármagna má aukin útgjöld með því að leggja hækka álögur á þá sem mest eiga í samfélaginu auk þess að auka veiðigjöld verulega, að mati BSRB.

Í ályktun formannaráðs bandalagsins er bent á að starfsfólk almannaþjónustunnar hafi verið undir gríðarlegu álagi undanfarið og undirmönnun sé víða vandamál. Það sé pólitísk ákvörðun að tryggja ekki nægt fjármagn til að standa undir þjónustu við almenning og það dragi úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.

„Frá því heimsfaraldurinn skall á hafa eignir heimilanna aukist um á þriðja hundrað milljarða króna og langmest af þeirri aukningu fór til þeirra allra ríkustu,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins, sem samþykkt var á fundi þess í gær. Þar er kallað eftir því að auðlegðarskattur verði lagður á stóreignafólk og að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður.

Arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna hafa aldrei verið hærri en á síðasta ári þegar eigendurnir tóku um 21,5 milljarða króna í arð. Á sama tíma greiddu fyrirtækin innan við fjórðung af þeirri upphæð í ríkissjóð fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Formannaráð BSRB kallar því eftir því að veiðigjöldin verði aukin verulega og að tekjur af þeirri aukningu verði notaðar til að auka almenna velsæld í landinu.

Ályktun formannaráðs má finna hér.

Ásrún ráðin áfram hjá Vinnumálastofnun

Fyrir rúmlega ári síðan var Ásrún Ásmundsdóttir ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun með starfstöð á Húsavík. Áður hafði Framsýn lagt mikla áherslu á að Vinnumálastofnun kæmi sér upp starfsstöð á Húsavík í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og vaxandi atvinnuleysis á félagssvæði Framsýnar vegna lokunar PCC og samdráttar í atvinnulífinu, ekki síst í ferðaþjónustu. Ráðning Ásrúnar var til eins árs sem síðan var framlengd fram að næstu áramótum. Vinnumálastofnun hefur nú ákveðið að bjóða henni áframhaldandi ráðningu. Ásrún verður áfram með aðstöðu á Skrifstofu stéttarfélaganna þá daga sem hún verður á Húsavík við störf, það er frá áramótum sem ráðgjafi hjá stofnuninni.  Við það breytist hennar starf og opnunartími skrifstofunnar á Húsavík. Framvegis verður opið á Húsavík frá kl. 09:00-13:00 á mánudögum og á föstudögum frá kl. 09:00-12:00. Aðra daga verður hún við störf á skrifstofu Vinnumálastofnunnar á Akureyri. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að fastráða Ásrúnu.

Almenn lögfræðþjónusta í boði fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum; Framsýn, Þingiðn og STH eru með samkomulag við PACTA lögmenn um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál.

Samkomulag stéttarfélaganna við PACTA lögmenn byggir á því að félagsmenn geta leitað til þeirra með þjónustu. Ekki þarf að greiða fyrir fyrsta tímann sem er gjaldfrjáls. Komi til þess að lögmenn PACTA þurfi að vinna frekar í málum fyrir félagsmenn fá þeir 15% afslátt frá fullu gjaldi.

Til fróðleiks má geta þess að PACTA býður upp á alla almenna lögfræðiþjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.

Félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu er bent á að hafa samband við Hallgrím Jónsson, hallgrimur@pacta.is eða við Ásgeir Örn Blöndal lögmann asgeirorn@pacta.is.

Heimasíða PACTA, lögmanna er pacta.is og símanúmerið er 4407900.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum 

Aðalsteinn Árni áfram í stjórn Fiskifélagsins

Aðalfundur Fiskifélags Íslands fór fram í vikunni en hann var haldinn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 16. nóvember. Eftir fundinn stóð Fiskifélagið fyrir málþingi með yfirskriftina. „Fiskur og Covid.“Báðir fundirnir fóru vel fram. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var kjörinn í stjórn sem annar af tveimur fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands en nokkur samtök sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi tilnefna í níu manna stjórn félagsins.  Aðalseinn Árni var auk þess fundarstjóri á aðalfundinum. Þá var Kristján Þórarinsson kjörin formaður Fiskifélagsins en hann var fulltrúi á fundinum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, SFS.

Til fróðleiks má geta þess að Fiskifélagið eru elstu samtök í sjávarútvegi landsmanna og má rekja stofnun félagsins til þess að á síðari hluta 19. aldar jókst áhugi manna mjög á eflingu sjávarútvegs í landinu. Markmið Fiskifélags Íslands hefur frá upphafi verið að efla hag og hvers konar framfarir í íslenskum sjávarútvegi og veita hinu opinbera umbeðna þjónustu. Starfsemin er aðallega tvíþætt, félagsmálastörf og þjónusta við hið opinbera, útveg og fiskvinnslu.

Undirbúningur hafinn vegna komandi kjaraviðræðna

Starfsgreinasamband Íslands hefur þegar ákveðið að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Hvað það varðar hafa verið skipaðir tveir starfshópar innan sambandsins til að yfirfara bókanir/yfirlýsingar í kjarasamningum og gildi þeirra. Um er að ræða bókanir sem varða tvo kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, það er á almenna vinnumarkaðinum annars vegar og í ferðaþjónustunni hins vegar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar leiðir þann hóp sem á að fara yfir Ferðaþjónustusamninginn og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða fer fyrir þeim hópi sem á að yfirfara Almenna samninginn. Starfshóparnir munu hefja vinnu á næstu dögum. Í kjölfarið er síðan ráðgert að funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í desember um bókanirnar og hvernig þeim verður fylgt eftir.

Gréta Stefánsdóttir og Flosi Eiríksson frá Starfsgreinasambandi Íslands og formennirnir Finnbogi og Aðalsteinn Árni hittust á teams fundi í morgun til að undirbúa vinnu sem er framundan og tengist kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Það er að yfirfara bókanir og yfirlýsingar þeim tengdum.

Dagatöl í boði

Félagsmönnum sem og öðrum áhugasömum stendur til boða að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá gefins dagatöl vegna ársins 2022. Að þessu sinni eru myndirnar sem prýða dagatölin eftir áhugaljósmyndarana Gauk Hjartarson og Hafþór Hreiðarsson. Minnisbækurnar eru ekki komnar í hús en þær eru væntanlegar um næstu mánaðamót.