Vorið kallar á sterkar sveitarstjórnir

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í Þingeyjarsýslum. Eins og alltaf er mikilvægt að hæft og áhugasamt fólk veljist til þessara mikilvægu starfa í þágu samfélagsins. Því miður hefur verið dapurlegt að fylgjast með því mikla brottfalli sem verið hefur meðal  kjörinna sveitarstjórnarmanna undanfarin misseri, sérstaklega hvað varðar sveitarfélagið Norðurþing. Það sama á við um æðstu stjórnendur sveitarfélaga sem hafa komið og farið. Þar á ég við sveitarstjóraskipti í Langanesbyggð og Skútustaðahreppi, svo ekki sé nú talað um vandræðaganginn sem verið hefur í yfirstjórn Norðurþings á yfirstandandi kjörtímabili sem fer í sögubækurnar.

Ég kalla eftir meiri festu í sveitarstjórnarmálum. Á sínum tíma var tekin almenn ákvörðun um að lagfæra kjör sveitarstjórnarmanna með það að markmiði að bæta þeirra starfsumhverfi. Án efa var full þörf á því, en svo virðist sem það hafi ekki dugað til, sé tekið mið af brotthvarfi kjörinna fulltrúa úr sveitarstjórn Norðurþings. Hafa ber í huga að því fylgir töluverð ábyrgð að gefa kost á sér til slíkra starfa. Vissulega geta legið persónulegar ástæður fyrir brotthvarfi manna úr sveitarstjórn, sem ber að virða, en þetta er langt frá því að teljast eðlilegt.

Tækifæri á hverju horni

Verði rétt haldið á málum eru áhugaverðir tímar framundan í byggða- og atvinnumálum í Þingeyjarsýslum. Hvað það varðar er mikilvægt að sveitarfélög í Þingeyjarsýslum vinni betur saman og myndi mótvægi við önnur landsvæði með það að markmiði að laða til sín fleira fólk og fá fjölbreyttari atvinnustarfsemi inn á svæðið. Verandi formaður í stéttarfélagi hefur mér því miður fundist verulega skorta á þessa samstöðu. Í umboði félagsmanna hef ég barist fyrir því m.a. að viðhalda flugsamgöngum við Húsavík, endurbótum á Húsavíkurflugvelli, opinberri þjónustu, auknum verslunarrekstri og fjölbreyttari atvinnumöguleikum á svæðinu. Hvað það varðar var grátlegt að fylgjast með misvitrum sveitarstjórnarmönnum, með fáeinum undantekningum þó, eyðileggja Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Atvinnuþróunarfélagið sem verið hefur mikilvægur samstarfsvettvangur sveitarstjórna og aðila vinnumarkaðarins í atvinnuuppbyggingu var sameinað inn í SSNE og lagt niður sem sjálfstætt atvinnuþróunarfélag með aðkomu fulltrúa atvinnulífsins. Eitt af forgangsmálum nýrra sveitarstjórna ætti að vera að ganga út úr þessu samstarfi við SSNE og ganga aftur til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um þennan mikilvæga málaflokk. Vonandi sjá nýir sveitarstjórnarmenn ljósið. Ég reikna reyndar ekki með því að þeir hafi pólitískan kjark til þess að gera breytingar til fyrra horfs, íbúum til hagsbóta.

Stoðirnar í atvinnulífinu

Lengi vel voru það landbúnaður og sjávarútvegur sem báru uppi atvinnulífið í Þingeyjarsýslum sem og opinber þjónusta ríkis og sveitarfélaga. Síðar kom öflug ferðaþjónusta til sögunar, PCC hóf iðnaðarstarfsemi á Bakka og nú eru hafnar gríðarlegar framkvæmdir í Kelduhverfi og Öxarfirði er tengist fiskeldi á landi, sem kallar á átak í byggingu íbúðarhúsnæðis á Kópaskeri og Húsavík með aðkomu Norðurþings. Mikil orka hefur verið beisluð á svæðinu á Þeistareykjum og í Kröflu. Mikilvægt er að sú orka verði notuð til að efla atvinnusvæðið okkar enn frekar. Við höfum PCC á Bakka sem þarfnast mikillar orku fyrir sína starfsemi. Nýtt verðandi sveitarfélag sunnan Húsavíkur sem verður til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hlýtur að horfa til þess að nýta orkuna á svæðinu til frekari atvinnusköpunar í sameinuðu sveitarfélagi. Það má ekki gerast að orkan verði flutt með háspennulínum til atvinnuuppbyggingar utan Þingeyjarsýslna, sem flest virðist reyndar benda til verði ekki brugðist við þegar í stað. Ætlum við virkilega að láta þá vistvænu orku sem kraumar undir fótum okkar renna okkur úr greipum? Tækifærin til atvinnusköpunar eru til staðar auðnist okkur að halda rétt á málum. Sem betur fer hefur svæðið verið að styrkjast en þessi barátta er endalaus, enda mikil samkeppni um íbúa og atvinnutækifæri milli landshluta. Á komandi árum verða sveitarfélögin að marka sér skýra byggða- og atvinnustefnu með það að markmiði að mæta kröfum nútímans í sátt og samlyndi við móður jörð. Þá er full ástæða til að skoða kosti þess og galla að sameina sveitarfélög í Þingeyjarsýslum í eitt öflugt sveitarfélag sem hafi burði til að veita íbúum sambærilega þjónustu og best gerist annars staðar. Þingeyingar hafa lengi verið stórhuga, það er góður eiginleiki sem ber að virkja til góðra verka, til uppbyggingar og sóknar. Annað er sóun á góðu hugviti og orku.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Sjávarútvegsmálin tekin til umræðu

Kvótakerfið var til umræðu við Rauða borðið á Samstöðinni í gær. Gunnar Smári Egilsson stjórnaði þættinum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var meðal þeirra sem komu fram í þættinum. Til umræðu voru áhrif kvótans á sjávarbyggðir. Sumar byggðir hafa dregið til sín kvóta en aðrar misst hann frá sér. Hvaða áhrif hefur þetta haft á fólk og samfélag? Er þetta nauðsynleg þróun til að auka skilvirkni, hagkvæmni og þjóðhagslegan ábata eða kannski þveröfugt; þróun sem leiðir til sóunar, óhagkvæmni og minni ábata. Þessum spurningum var m.a. velt upp í þættinum. Auk Aðalsteins tóku Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði, Sveinbjörn Jónsson fyrrverandi sjómaður, Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda og fyrrum þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir og Sigurjón Þórðarson þátt í umræðunum sem fóru vel fram.

Öskudagurinn

Takk fyrir frábæru gestir

Fjöldi barna, unglinga og fullorðinna komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær og sungu mörg falleg lög. Gestirnir fóru ekki tómhendir heim þar sem í boði var að fá smá glaðning gegn því að taka lagið og láta sjá sig. Hér má sjá nokkrar myndir frá Öskudeginum.

Ríkissáttasemjari með námsstefnu á Húsavík

Síðustu daga hefur ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, ættaður frá Bakka við Húsavík staðið fyrir námstefnu í samningagerð á Fosshótel Húsavík. Fullbókað var á námstefnuna en um 50 þátttakendur taka þátt í námsstefnunni.

Markmiðið með námstefnum er að stefna saman öllum sem sæti eiga í samninganefndum og vinna að kjarasamningagerð í landinu. Þátttakendum gefst einstakt tækifæri til að bæta vinnubrögðin við kjarasamningagerðina, læra nýjustu aðferðir, deila reynslu og efla marksækni og fagmennsku við samningaborðið.

Síðdegis í gær var komið að því að gera smá hlé á námsstefnunni eftir strangan dag og heimsækja stéttarfélögin á Húsavík. Forsvarsmenn stéttarfélaganna tóku vel á móti gestunum og fóru yfir starfsemi félaganna auk þess að gefa þeim smá gjöf frá framleiðendum á svæðinu. Tónlistarmaðurinn, Stefán Jakobsson, leit við og tók lagið við mikinn fögnuð gesta sem rómuðu mjög móttökurnar.

Aðalsteinn Leifsson kastaði þessari vísu á nafna sinn og formann Framsýnar:

„Enginn tekur eftir þér,
auðmjúkur nafni minn.
Hógvær, hlýðinn eins og smér,
hófsami drengurinn.“

Formaður Framsýnar og nafni ríkissáttasemjara svaraði fyrir sig og kastaði fram þessari limru með „smá aðstoð“ frá varaformanni Framsýnar:

„Ég byrjaði ungur að karpa, 
við mér eldri og reyndari garpa.
Vildi ólmur og ör bæta almúgans kjör,
taka samningalotu snarpa.

Enn er til nokkurs að hlakka,
við samninga enn um sinn makka.
Til sátta ég mæti, enda hressi og kæti
ég nafna minn litla frá Bakka.“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari frá Bakka vð Húsavík flutti ræðu í gær þar sem hann þakkaði stéttarfélögunum fyrir góðar móttökur auk þess að færa formanni Framsýnar smá gjöf sem vakti töluverða athygli enda stutt í grínið hjá þeim ágæta heiðursmanni.
Að sjálfsögðu er fullt af frábærum tónlistarmönnum í Framsýn, einn af þeim er Stefán Jakobsson sem leit við og tók nokkur lög sem gestirnir kunnu vel að meta.
Þessar, þær gerast ekki betri, hér er verið að undirbúa komu gestana í gær. Ósk, Guðmunda og Guðný eru að leggja lokahönd á veitingarnar. Veiga og Hermína Hreiðars formaður STH voru inn í sal að gera allt klárt.

Ólöf Helga leit við

Ólöf Helga Adolfs­dóttir er stödd á Húsavík á námskeiði á vegum Ríkissáttasemjara. Hún leit við hjá formanni Framsýnar í morgun og áttu þau gott spjall um stöðuna í verkalýðshreyfingunni og væntanlegt þing Starfsgreinasambands Íslands sem haldið verður síðar í þessum mánuði á Akureyri.

Ólöf Helga hefur verið virk í verka­lýðs­bar­átt­unni und­an­farin ár og setið m.a. í stjórn Efl­ingar frá árinu 2019. Frá því í byrjun nóvember sl. hefur  hún gegnt emb­ætti vara­for­manns og starfað ásamt Agni­ezsku Ewu Ziólkowsku að því að halda starf­semi Efl­ingar gang­andi í gegnum frekar róstursama tíma eftir að þáver­andi for­maður félags­ins, Sólveig Anna, sagði sig frá formennsku í  Eflingu. Eins og kunnugt er hefur Sólveig Anna verið endurkjörin sem formaður Eflingar og tekur við á næsta aðalfundi félagsins sem væntanlega verður haldinn í næsta mánuði.

Ólöf Helga hefur  verið virk í verka­lýðs­málum í starfi hennar sem hlaðmaður á Reykja­vík­ur­flug­velli en þar vann hún í fimm ár og gegndi emb­ætti trún­að­ar­manns þar til fyrir nokkru að henni var sagt upp störf­um hjá Icelandair. Efling hefur gert alvarlegar athugasemdir við uppsögnina.

Vetrarfrí hjá Samherja

Formaður Framsýnar kallar eftir umræðu um lokanir skóla í næstu kjaraviðræðum

Starfsfólk vinnsluhúsa Samherja og ÚA á Dalvík og Akureyri fer í tveggja daga vetrarfrí í vikunni, fimmtudag og föstudag.

Starfsmenn fá frí í einn dag á launum og hinn daginn er tekið út orlof. Þetta fyrirkomulag er unnið í góðu samstarfi við starfsmenn, sem hafa val um að taka frí með þessum hætti. Mismunandi er hjá öðrum starfsstöðvum hvernig fyrirkomulagið er útfært.

Á Akureyri og Dalvík verður sem sagt aðeins unnið þrjá daga vikunnar.  Starfsmenn vinnsluhúsanna eru á þriðja hundrað og segir Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja að þessi tilhögun mælist mjög vel fyrir meðal starfsfólksins. Vetrarfríið og fyrirkomulag þess nær til um fimm hundruð starfsmanna Samherja.

100 % þáttaka

„Þetta eru sömu dagar og vetrarfrí er í grunnskólum á svæðinu, þannig að það skapast gjarnan álag á fjölskyldufólk  og margir vilja vera í fríi og njóta tímans með fjölskyldunni í vetrarfríinu.  Við útfærum þetta þannig að fólk tekur einn dag af orlofinu og hinn daginn greiðir vinnuveitandinn. Þetta er gert í góðu samráði við trúnaðarmenn á hverjum vinnustað og er algjörlega valfrjálst. Starfsfólk getur líka unnið þessa daga við verkefni sem við þá skipuleggjum. Undirtektirnar eru hins vegar svo góðar að mér sýnist núna að enginn ætli að mæta til vinnu. Við gerðum þetta líka í fyrra og núna var boðið upp á þetta val með ágætum fyrirvara,“ segir Gestur Geirsson.

Mikilvægt að starfsfólkið hafi val

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju segir þetta fyrirkomulag almennt jákvætt. Í vinnsluhúsum ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík eru flestir starfsmenn í Einingu-Iðju.

„Trúnaðarmenn félagsins á hverjum stað hafa séð um þessi mál og sjálfur er ég jákvæður fyrir þessu. Í mínum huga er  mikilvægt að starfsfólkið hafi val, sem er raunin í þessum tilvikum og þess vegna er þetta samkomulag milli launþega og vinnuveitenda jákvætt. Ég hef heyrt í trúnaðarmönnum sem segja mér að starfsfólkið sé sátt við þetta fyrirkomulag,“ segir Björn Snæbjörnsson.

Allir sáttir

Í fiskþurrkun ÚA á Laugum í Reykjadal fer starfsfólkið sömuleiðis í vetrarfrí í lok vikunnar en þar starfa tæplega tuttugu manns. Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags segir þetta fyrirkomulag skynsamlega leið.

„Vetrarfríin í grunnskólunum setja auðvitað strik í reikninginn hjá mörgum fjölskyldum, þannig að ég fagna því að málin séu leyst í góðri samvinnu, sem mér sýnist vera í þessu tilviki.  Það er nokkuð  misjafnt hvernig fyrirtækin leysa þessi mál, svo sem vetrarfrí í skólum, starfsdaga í leikskólum og svo framvegis. Ég hef verið í góðu sambandi við mitt fólk  vegna þessa og mér sýnist þetta vera skynsamleg tilhögun. Ég er ekki frá því að vetrarfrí og skyldir þættir komi til umræðu við gerð næstu kjarasamninga, aðal málið er að allir séu sáttir,“ segir Aðalsteinn Baldursson.

Starfsfólk Silfurstjörnunnar til Hollands í vetrarfríinu

Anna María Kristinsdóttir starfsmannastjóri Samherja segir að vetrarfríið nái til starfsfólks í öllum deildum, útfærslur séu mismunandi eftir starfsstöðvum.

Hjá Samherja Fiskeldi er erfitt að loka í tvo daga vegna framleiðsluferilsins og því hafa þessi mál verið leyst á annan hátt, til dæmis tók starfsfólkið í Sandgerði  frí síðasta föstudag og svo aftur eftir þrjár vikur. Starfsfólk Silfurstjörnunnar í Öxarfirði ætlar að fara í skemmtiferð til Hollands í mars og tekur þá út vetrarfríið, svo dæmi séu tekin.

Myndir og frétt eru teknar af heimasíðu Samherja.

Framsýn fordæmir stríðsrekstur Rússa í Úkraínu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags samþykkti rétt í þessu að fordæma stríðsrekstur Rússa í Úkraínu. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

“Framsýn stéttarfélag fordæmir harðlega innrás Rússlands inn í annað sjálfstætt og fullvalda ríki með tilheyrandi eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur saklausu fólki sem verður fyrir barðinu á stríðsrekstri Pútíns.

Innrás og ógnartilburðir Rússlands í Úkraínu eiga sér enga réttlætingu og eru auk þess alvarlegt brot á alþjóðalögum. Framsýn krefst þess að Rússar stöðvi þegar í stað hernaðaraðgerðir sem þegar hafa valdið miklum hörmungum.

Hugur Framsýnar er hjá Úkraínsku þjóðinni sem á um sárt að binda um þessar mundir, en ekki síður hjá þeim Úkraínumönnum er lifa  og starfa í öðrum þjóðlöndum, óttast um afdrif ættingja og vina en geta á engan hátt komið þjóð sinni til hjálpar. Framsýn biðlar til íslenskra stjórnvalda að þau greiði götu flóttafólks frá Úkraínu sem neyðist til að flýja land sitt og hingað leitar, um leið og stjórnvöld komi skýrum skilaboðum á framfæri við Rússa að þeir afvopnist þegar í stað og hypji sig heim til Rússlands.”

Þannig samþykkt á fundir stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar stéttarfélags mánudaginn 28. febrúar 2022.

Stjórn STH fundar um stöðu félagsins

Að mati stjórnar Starfsmannafélags Húsavíkur sem fundaði nýlega um starfsemi félagsins mikið gæfuspor þegar félagið gekk frá samkomulagi á sínum tíma við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík um að halda utan um starfsemi félagsins með stjórn þess á hverjum tíma. Í upphafi voru það fimm stéttarfélög sem stóðu að rekstri skrifstofunnar, síðar komu tvö önnur stéttarfélög inn í samstarfið. Öll félögin sjö voru aðilar að ASÍ nema Starfsmannafélag Húsavíkur sem var innan BSRB. Athygli vakti að stéttarfélög innan ASÍ og BSRB hefðu náð að sameinast um sameiginlegt skrifstofuhald. Slík fyrirmynd var ekki til á þessum tíma.

Með tíð og tíma sameinuðust aðildarfélögin innan ASÍ undir merkjum Framsýnar stéttarfélags annars vegar og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hins vegar. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna í dag  eru auk þessara tveggja félaga, Starfsmannafélag Húsavíkur.

Í gegnum tíðina hefur félagsmönnum, svo vitnað sé í kannanir, verið boðið upp á góða þjónustu með hæfu og reynslumiklu starfsfólki. Þá er Skrifstofa stéttarfélaganna opin alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00 eða lengur en flestar aðrar skrifstofur stéttarfélaga/starfsmannafélaga innan ASÍ/BSRB.

Eins og fram kemur hér að framan hefur verið mikil ánægja með samstarfið meðal félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur. Félögin hafa ekki bara sameinast í skrifstofuhaldi heldur jafnframt hvað varðar t.d. orlofsmál, fræðslumál og velferðarmál félagsmanna. Þá halda félögin úti sameiginlegri heimasíðu og Fréttabréfi svo eitthvað sem nefnt. Aðild félagsins að skrifstofunni hefur auk þess veitt félagsmönnum STH aðgengi að ódýrum flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur, hótelum víða um land og orlofsíbúðum á Akureyri, Kópavogi og Reykjavík, auk orlofsíbúðar á  Spáni.

Þá hafa félögin í sameiningu komið að því að styrkja ýmis málefni í samfélaginu félagsmönnum til hagsbóta s.s. með þátttöku í kaupum á tækjum og tólum fyrir Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík og Hjúkrunarheimilið Hvamm. Svo ekki sé talað um aðra styrki til góðgerðamála og íþróttafélaga. Af hverju taldi stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur ástæðu til að funda um stöðu og framtíð félagsins? Undanfarið hefur félagið orðið fyrir þrýstingi frá BSRB og Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu um að  sameinast öðrum starfsmannafélögum, starfsemin hefur jafnvel verið töluð niður. Eftir góðar umræður stjórnar var samþykkt að gera athugasemdir við þessi vinnubrögð og koma þeim á framfæri við rétta aðila. Það er alveg ljóst að Starfsmannafélag Húsavíkur leggur mikið upp úr góðu samstarfi við önnur starfsmannafélög innan BSRB sem og við bandalagið sjálft. Það er hins vegar í höndum félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur á hverjum tíma að ákveða hvaða leið skuli farin varðandi starfsemi og framtíð félagsins. Hvað það varðar, hefur stjórnin ákveðið að taka málið á dagskrá aðalfundar félagsins í vor, það er að ræða framtíð félagsins. Aðalfundurinn er jú æðsta valdið í félaginu. Vilji núverandi stjórnar er að halda í sjálfstæði félagsins enda mikil ánægja meðal félagsmanna með starfsemina.

Tölum fyrir friði og mannúð

„Okkar helst von er einfaldlega þrá manneskjunnar eftir friði, fyrirlitning hennar á stríði, skynsemi hennar.“ – Olof Palme 1984

Í gær laut skynsemin í lægra haldi fyrir stríði þegar Pútín réðist inn í Úkraínu. Eins og alltaf græða fáir á stríði en hörmungarnar sem fylgja falla í skaut almennings sem þráir frið og fyrirlítur stríð. Við sem erum alin upp á tímum kalda stríðsins þekkjum orðfærið of vel, bæði af hálfu Rússa en líka það sem sumir á Vesturlöndum bregða nú fyrir sig. Við þekkjum þetta handrit en þekkjum líka mikilvægi baráttunnar fyrir friði og afvopnun. Sú barátta er alþjóðleg og hefur oft átt sér skjól í hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu.  

Norræna verkalýðshreyfingin, sem ASÍ er hluti af, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem innrásin er fordæmd og hvatt er til samstöðu með almenningi og vinnandi fólki í Úkraínu. Sama hafa bæði Evrópusamtök verkalýðsfélaga (ETUC) og Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) gert. Þess er krafist að alþjóðalög, mannréttindi og lýðræði séu virt og minnt á að verkalýðshreyfingin stendur með almenningi og launafólki í Úkraínu. Minnt er á að Evrópuríki þurfi að vera tilbúin að axla ábyrgð gagnvart öllu því fólki sem nú hrekst á flótta frá heimilum sínum. Enn fremur krefjast bæði ITUC og ETUC þess að viðskiptaþvingunum sé beitt markvisst gegn Pútín og hans meðreiðarsveinum og að komið sé í veg fyrir að almenningur og launafólk verði harkalegast fyrir barðinu á slíkum refsiaðgerðum. Í þessu sambandi má efast um þær aðgerðir sem bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa boðað en þær þykja ekki líklegar til að draga nokkuð máttinn úr stjórnvöldum í Moskvu. 

Heimurinn fer stöðugt minnkandi, samfélagsmiðlar hafa máð út landamæri í samskiptum og fólksflutningar milli landa hafa gert það að verkum að við þekkjum fólk víðar að, vinnum með fólki af ólíkum uppruna og tengjumst því á ýmsan hátt. Þetta á ekki síst við hér á landi þar sem vinnumarkaðurinn okkar er að hluta borinn upp af fólki frá Austur-Evrópu. Fjöldi félaga í okkar samtökum eiga um sárt að binda þessa dagana vegna átakanna, eiga ættingja og vini á stríðssvæðunum og við verðum að sýna stuðning og virðingu gagnvart félögum okkar. Við heyrum líka frá félögum okkar að hér á landi er nokkur fjöldi fólks frá Úkraínu sem hefur sótt um dvalarleyfi eða eru beinlínis í felum.  Ég vil því ítreka þá kröfu að stjórnvöld veiti þessu fólki öryggi strax og fari svo að vinna að fjölskyldusameiningu og móttöku flóttafólks. Stríðið mun hafa afleiðingar víða í Evrópu og Ísland verður ekki undanskilið. Tölum fyrir friði og mannúð og gerum það strax sem í okkar valdi stendur. 

Góða helgi, 

Drífa 

Yfirlýsing Norrænu verkalýðshreyfingarinnar:https://www.asi.is/media/317662/council-of-nordic-trade-unions-statement-on-ukraine.pdf

Yfirlýsing Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC):https://www.etuc.org/en/pressrelease/ukraine-putins-war-must-stop

Yfirlýsing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC):https://www.ituc-csi.org/ukraine-putin-war-must-stop

Bréf Framsýnar til Fjármálaeftirlitsins vekur mikla athygli

Bréf Framsýnar stéttarfélags til Fjármálaeftirlitsins hefur vakið mikla athygli. Þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsins sem virðist gera allt til að útiloka almennra sjóðsfélaga til að taka þátt í stjórnum lífeyrissjóða. Síminn á Skrifstofu stéttarfélaganna logaði í gær eftir að Mbl/Morgunblaðið fjallaði um málið auk þess sem frétt var um málið inn á heimasíðu Framsýnar. Allir sem hafa haft samband hafa þakkað Framsýn fyrir að taka málið upp til umræðu. Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandið fjallaði um málið á reglulegum fundi í gær, þar er tekið undir með Framsýn eftir eftirfarandi ályktun:

„Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands tekur heilshugar undir áhyggjur aðildarfélaga sambandsins sem hafa með bréfum til Fjármálaeftirlitsins gert alvarlegar athugasemdir varðandi mat á hæfi almennra sjóðfélaga til að gegna stjórnarsetu í stjórnum lífeyrissjóða. Svo virðist sem unnið sé að því að útiloka þá frá stjórnarsetu í lífeyrissjóðum. Það er, þrátt fyrir að þeir hafi verið kjörnir til að gegna þessum störfum í þágu sjóðfélaga.

Framkvæmdastjórnin  skorar á ASÍ að hefja þegar í stað viðræður við Fjármálaeftirlitið um aðgengi almennra sjóðfélaga að stjórnun lífeyrissjóða.“

Samþykkt á fundi 23. febrúar 2022.

Til viðbótar má geta þess að forseti ASÍ, Drífa Snædal, hefur þegar haft samband við formann Framsýnar. Mikill vilji er innan sambandsins að taka málið upp við Fjármálaeftirlitið.

Staðan tekin – baráttuhugur

Sólveig Jónsdóttir sigraði glæsilega í formannskjöri Eflingar á dögunum og náði endurkjöri. Allt frá því að hún tók við sem formaður félagsins af Sigurði Bessasyni hefur hún verið í góðu sambandi við forystumenn innan annarra stéttarfélaga sem kallað hafa eftir breytingum á Íslenskri verkalýðsbaráttu. Þar hefur hún átt samleið með formönnum Framsýnar, VR og Verkalýðsfélags Akraness sem eru með henni á meðfylgjandi mynd. Framundan eru þing Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands þar sem gengið verður frá kjöri í helstu embætti á vegum verkalýðshreyfingarinnar  til næstu tveggja ára auk þess sem áherslur hreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins verða mótaðar enda kjarasamningar lausir 1. nóvember nk. Verkalýðshreyfingin stefnir að því að koma baráttuglöð til komandi kjaraviðræðna við SA með kraftmikið fólk í forystusveit verkafólks, vonandi gengur það eftir.

Ætlar Fjármálaeftirlitið að afskrifa stjórnarmenn sjóðsfélaga innan ASÍ í stjórnum lífeyrissjóða

Framsýn stéttarfélag hefur með bréfi til Fjármálaeftirlitsins gert alvarlegar athugasemdir við mat á hæfi stjórnarmanna til að sitja í stjórnum lífeyrirssjóða, í bréfi til eftirlitsins kemur meðal annars fram:

Framsýn stéttarfélag Þingeyinga er aðili að Lsj. Stapa í gegnum kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Félagið telur um þrjú þúsund félagsmenn. Félagssvæðið nær yfir sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp og Tjörneshrepp, en landfræðilega nær félagssvæðið og þjónustusvæði þess yfir 18% af landinu.

Samkvæmt samþykktum Lsj. Stapa gr. 4.1. er kveðið á um:

„Stjórn sjóðsins skal skipuð átta einstaklingum. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af launamönnum og skal val þeirra staðfest af fulltrúum launamanna í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og skal val þeirra staðfest af fulltrúum atvinnurekenda í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir varamenn skulu valdir með sama hætti, tveir frá launamönnum og tveir frá atvinnurekendum.“

Hvað þetta varðar hefur komið í hlut Framsýnar að tilnefna einn sjóðsfélaga í stjórn Lsj. Stapa til tveggja ára í senn. Leitast hefur verið við að fulltrúar stéttarfélaganna sem aðild eiga að sjóðnum komi sem víðast af starfssvæði sjóðsins sem er norður- og austurland og hafi auk þess góða þekkingu á viðfangsefninu. Síðan hefur það verið í höndum fulltrúaráðs Lsj. Stapa að staðfesta kjör fulltrúa sjóðsfélaga í stjórn á hverjum tíma. Hefur þessi regla gefist vel.

Nú er svo komið að mjög erfitt er orðið að fá sjóðsfélaga innan stéttarfélaga til að taka þátt í stjórnunarstörfum í Lsj. Stapa þar sem svo virðist vera sem Fjármálaeftirlitið sé sífellt að herða þær hæfniskröfur sem eftirlitið gerir til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, hugsanlega til að útiloka almenna sjóðsfélaga frá því að taka þátt í stjórnunarstörfum í lífeyrissjóðum.

Framsýn grunar að sú umræða sem fór af stað varðandi fjárfestingar lífeyrissjóða í ákveðnum fyrirtækjum s.s. Icelandair sé að koma í veg fyrir þátttöku almennra sjóðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóða. Sjóðsfélaga sem ekki eru skráðir með margar háskólaskráður heldur hafa víðtæka almenna þekkingu á starfsemi lífeyrissjóða. Sjóðsfélaga með sterka réttlætiskennd sem telja að auka eigi siðferði í fjárfestingum/ávöxtun lífeyrissjóða. Sumir innan verkalýðshreyfingarinnar eru á því að um menntahroka sé að ræða hjá Fjármálaeftirlitinu.

Vitað er að forystumenn Eflingar og VR hafa sérstaklega gagnrýnt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða í ákveðnum tilfellum sem ratað hafa í fjölmiðla og skapað m.a. umræðu um sjálfstæði stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða.

Er Fjármálaeftirlitið að bregðast við þessum athugasemdum með því að herða hæfisskilyrði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum?

Er unnið að því að koma fulltrúum stéttarfélaga innan ASÍ út úr stjórnum lífeyrissjóða?

Stundar Fjármálaeftirlitið „geðþóttastjórnsýslu“ með því að boða nánast alla stjórnarmenn sumra lífeyrissjóða í hæfnispróf meðan stjórnarmenn annarra sjóða eru ekki boðaðir í sambærilegt mat?

Hvernig leggur Fjármálaeftirlitið mat á það hvort stjórnarmenn gangist undir munnlegt hæfismat?

Miðað við þróun undanfarinna ára virðist einungis vera horft til háskólamenntunar þegar Fjármálaeftirlitið leggur mat á það hvort stjórnarmenn lífeyrissjóða skuli undirgangast munnlegt hæfismat. Hæfisskilyrði skv. lögum um lífeyrissjóði tiltaka hins vegar aðeins að stjórnarmenn skuli „búa yfir nægri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt“. Þar er hvergi vikið sérstaklega að menntun en framkvæmd eftirlitsins gefur til kynna að áratugareynsla af réttindamálum geti ekki talist sem tilhlýðileg þekking. Framsýn er með til skoðunar að vekja athygli Umboðsmanns Alþingis á framkvæmd eftirlitsins á hæfismati stjórnarmanna þar sem eftirlitið virðist aðeins horfa til þess að „þekking“ fáist með tiltekinni háskólamenntun. Sérstaklega gæti verið áhugavert að skoða hlutfall stjórnarmanna lífeyrissjóða sem boðaðir eru í munnlegt hæfismat eftir menntunarstigi, starfsreynslu og tilnefningaraðila.

Ekki er annað að sjá en að Fjármálaeftirlitið ætli sér að útiloka aðkomu almennra sjóðsfélaga innan stéttarfélaga að stjórnum lífeyrissjóða. Krafan um að sjóðsfélagar sjálfir velji stjórnir lífeyrissjóða á hverjum tíma á þá ekki við lengur. Í ljósi þess hefur Framsýn ákveðið að taka málið upp til umræðu innan hreyfingarinnar auk þess sem félagið hefur skrifað Fjármálaeftirlitinu bréf og kallað eftir upplýsingum frá eftirlitinu sem endurspeglast í þeim spurningum sem getið er um hér að framan.

Sé það mat Fjármálaeftirlitsins að menn þurfi að hafa tiltekna menntun til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs ætti eftirlitið að gefa það út. Það er að stjórnarmenn séu langskólagengnir með sérþekkingu á fjármálum og regluverki lífeyrissjóða. Reyndar er vert að minnast þess að í efnahagshruninu haustið 2008 þegar hópur manna innan fjármálageirans var dæmdur í fangelsi fyrir efnahagsbrot sem eiga sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni, var það ekki vegna skorts á háskólagráðum í fjármálastjórnun.  Framsýn minnist þess ekki að hafa heyrt talað um að verkafólk með litla formlega menntun hafi verið í þeim vafasama flokki, fólk sem hefur m.a. tekið þátt í stjórnum lífeyrissjóða fyrir verkalýðshreyfinguna. Þetta er að mati Framsýnar fólkið sem á heima í stjórnum lífeyrissjóða, fólk sem kann að fara með peninga og er umhugað um mikilvægi lífeyrissjóða fyrir sjóðsfélaga. Það er greinilega ekki mat Fjármálaeftirlitsins, þar gilda prófgráðurnar við mat á hæfni stjórnarmanna.

Miðstjórn ASÍ fer fram á rannsókn á ríkisstuðningi við fyrirtæki

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands krefst þess að fram fari rannsókn á meðferð opinberra fjármuna í tengslum við stuðningsúrræði til fyrirtækja vegna efnahagslegra áhrifa COVID- faraldursins. Framsýn tekur heilshugar undir samþykkt miðstjórnar ASÍ.

Þegar ríkishirslurnar voru opnaðar til að veita fyrirtækjum ríkisstuðning af óþekktri stærð fór Alþýðusambandið strax fram á að reist yrðu skilyrði við slíku. Meðal annars lagði ASÍ  áherslu á að fyrirtækjum yrði gert skylt að nýta eigin bjargir áður en til stuðnings kæmi, að fyrirtæki undirgengjust skilyrði um að greiða ekki út arð næstu tvö árin eftir fyrirgreiðslu eða nýta aðrar leiðir til að taka fé úr fyrirtækjunum og að fyrirtæki eða eigendur þeirra væru ekki skráð í skattaskjól. Að auki krafðist ASÍ þess að laun æðstu stjórnenda fyrirtækja sem fengju aðstoð væru ekki óhófleg samanborið við laun almenns starfsfólks. Sem sagt, aðstoðin yrði neyðaraðstoð en ekki til þess að fyrirtækjaeigendur gætu makað krókinn. Einungis voru sett skilyrði fyrir stuðningi á grundvelli laga um hlutabótaleiðina en aðrir styrkir og stuðningur til fyrirtækja voru að mestu eða öllu leyti án skilyrða. Þetta veldur því að nú eru dæmi um fyrirtæki sem eru beinlínis að greiða út arð fyrir skattfé.  

Ströng skilyrði eru sett við allri aðstoð sem einstaklingar njóta þegar í harðbakkann slær og á það jafnt við um atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, almannatryggingar og önnur velferðarúrræði. En þegar kemur að fyrirtækjum er nálgunin önnur. Þótt enn sjái ekki fyrir endann á kreppunni, berast þegar fréttir af launahækkunum æðstu stjórnenda, bónuskerfum og gríðarlegri arðsemi fjármálafyrirtækja og ýmissa annarra fyrirtækja.  

Á sama tíma og fyrirtæki tóku við ríkisstuðningi sætti launafólk víða kjaraskerðingum, en góðu heilli var staðið vörð um kjarasamningana.  Talsmenn atvinnurekenda fóru engu að síður fram á skerðingar á réttindum launafólks og á launafólki dundi krafan um „að axla ábyrgð“ í erfiðu árferði. Þau sem greiða fyrir bónusana, arð bankanna og ofurlaun er þetta sama vinnandi fólk og er stöðugt sagt að axla ábyrgð á efnahagslífinu. 

Það er eðlileg og réttmæt krafa að þessir þættir verði rannsakaðir, enda hefur óheyrilegum fjármunum verið veitt til stuðnings fyrirtækja. Sum þeirra voru sannarlega í brýnni þörf, en nú er að koma á daginn að önnur voru það ekki. Þá stendur upp á stjórnvöld að skýra hvers vegna skilyrði voru sett gagnvart sumum stuðningsúræðum, en öðrum ekki og hvers vegna háar girðingar eru reistar gagnvart einstaklingum í neyð, en ekki fyrirtækjum.  

Að beita valdi og múlbinda

Þegar blaðamenn eru komnir með stöðu grunaðra hjá lögregluyfirvöldum fyrir það eitt að segja fréttir vakna áleitnar spurningar um stöðu lýðræðisins. Það er erfitt að sjá af þeim upplýsingum sem lögreglan lætur frá sér að þessi för gegn blaðamönnum sem sögðu fréttir af skæruliðadeild Samherja sé til neins annars en að leggja fyrirhöfn og kostnað á blaðamenn, hugsanlega til að vera öðrum víti til varnaðar. Þannig er það hættulegt lýðræðinu og frjálsum fjölmiðlum þegar ríkisvaldið beitir sér með þessum hætti. Blaðamenn sem skrifa gegn stjórnmála- eða peningavaldinu eiga skilið vernd og stuðning frá samfélagi sínu, sú vernd er að hluta til bundin í lög, en hún er ekki nóg ein og sér. Það er því skylda þeirra sem vilja verja lýðræðið að tala gegn þöggun, sérstaklega þegar ríkisvaldið beitir henni.  

Það er þekkt leið til að þagga niður umræður að ráðast persónulega gegn þeim sem setja fram erfiðar spurningar. Með því fælist fólk frá umræðunni og forðast jafnvel að setja sig inn í þau átök sem eiga sér stað. Samfélagsmiðlar hafa verið notaðir sem tæki til slíks – að rægja fólk og ætla þeim allt hið versta – en eru jafnframt vettvangurinn þar sem baráttan gegn ofbeldi á sér stað. Fólk sem hefur sögu að segja eða hefur verið beitt órétti getur komist í samband við annað fólk á sama stað, sagt frá og notið stuðnings.  

Verkalýðshreyfingin hefur ekki farið varhluta af valdabaráttu undanfarið þar sem farið er hart fram gegn einstaklingum, þeir tortryggðir og jafnvel rægðir. Oft hefur verið erfitt að festa hönd á hinn málefnalega ágreining og harkan í umræðunni hefur orðið til þess að fólk veigrar sér við að fara fram á ritvöllinn, fólk sem hefur ýmislegt til málanna að leggja en vill ekki taka þátt í óvæginni umræðu. Við sem förum fyrir fjöldahreyfingu fáum einmitt þessa dagana fjölda áskorana að leggja niður vopn innan hreyfingarinnar, snúa bökum saman og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum. Með því er ekki sagt að við getum ekki tekist á um stefnur og strauma, jafnvel verið harkalega ósammála. En valdbeitinguna eigum við að forðast og halda okkur við málefnin, ekki persónur. Verkalýðshreyfingin þarf nefnilega að lifa okkur öll sem störfum innan hennar í dag. Við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.

(Svo skrifar forseti ASÍ)

Borgarhólsskóli í heimsókn

Nemendur í 10. bekk Borgarhólsskóla komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga, það er tæplega þrjátíu nemendur. Með í för var kennarinn þeirra Nanna Möller. Fulltrúi stéttarfélaganna fór yfir tilgang og markmið stéttarfélaga á vinnumarkaði auk þess að fara yfir innihald kjarasamninga. Nemendurnir meðtóku fræðsluna og spurðu út í hitt og þetta er tengis tilgangi stéttarfélaga og réttindum þeirra á vinnumarkaði.  Það er ánægjulegt til þess að vita að grunn- og framhaldsskólar á svæðinu hafa lagt mikið upp úr því að fá forystumenn stéttarfélaga inn í skólana með fræðslu.

Elva sjálfkjörin formaður DVS innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags var haldinn síðasta fimmtudag, það er 10. febrúar. Fundurinn fór vel fram og var mjög líflegur og skemmtilegur. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru kjaramál til umræðu en mótun kröfugerðar á vegum deildarinnar er hafin. Þá voru gerðar smávægilegar breytingar á starfsreglum deildarinnar. Stjórn deildarinnar var sjálfkjörin. Formaður er kjörinn til tveggja ára, aðrir stjórnarmenn til eins árs.

Elva Héðinsdóttir                         formaður (2022-2024)

Trausti Aðalsteinsson                    varaformaður

Karl Hreiðarsson                          ritari

Anna Brynjarsdóttir                     meðstjórnandi

Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir    meðstjórnandi

Hér má lesa yfirferð formanns, Elvu Héðins sem starfar hjá PWC á Húsavík, sem fór yfir helstu málefni deildarinnar á síðustu tveimur starfsárum en aðalfundinum sem vera átti í fyrra var frestað vegna Covid:

„Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins. Því miður tókst okkur ekki að halda aðalfund deildarinnar vegna ársins 2020 sem tengist Covid. Þess í stað er þessum aðalfundi ætlað að gera upp tvö síðustu ár í starfsemi deildarinnar. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ákvað í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu að fella niður aðalfundinn vegna ársins 2020.  Samkvæmt starfsreglum sjóðsins ber að halda aðalfund deildarinnar fyrir 1. febrúar ár hvert. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnum tveimur árum 2020 til 2021, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma. Áður en lengra er haldið ber að geta þess að umliðið starfsár litaðist verulega af heimsfaraldrinum COVID-19 líkt og árið 2020.

Fjöldi félagsmanna:

Varðandi fjölda félagsmanna þá voru rúmlega 300 einstaklingar sem greiddu til deildarinnar á árinu 2021. Svipaður fjöldi félagsmanna hefur verið að greiða til deildarinnar á umliðnum árum en þeim hefur þó farið fjölgandi.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar um 350.

Kjaramál:

Þann 1. nóvember nk. renna  kjarasamningar verslunar- og skrifstofufólks út. Landssambandið (LÍV) hefur lagt fram áætlun varðandi undirbúning að mótun kröfugerðar. Í skýrslunni  er að finna tillögu LÍV að áætlun við mótun kröfugerðar, sem samþykkt var á formannafundi þann 30. nóvember sl.

Tillaga LÍV að áætlun við mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga:

  • Desember 2021 – apríl 2022: Hvert félag vinnur að mótun á sínum kröfum fyrir næstu kjarasamninga.
  • 24. – 25. mars 2022: Þing LÍV, þar sem rætt verður um kröfur fyrir næstu kjarasamninga.
  • 13. maí 2022: Félög senda LÍV hugmyndir að kröfum inn í kröfugerð og félög sem vilja senda inn umboð LÍV til samningagerðar senda það inn.
  • 24. maí 2022: Formannafundur, þar sem farið verður yfir kröfur aðildarfélaga og tekin ákvörðun um mögulega sameiginlega kröfugerð.
  • 27. maí 2022: Kröfugerð lögð fram gagnvart viðsemjendum og samningaviðræður hefjast.
  • 1. júní 2022: Viðræðuáætlun send til ríkissáttasemjara

Við höfum því verk að vinna við að móta kröfugerð fyrir okkar félagsmenn. Hvað það varðar munum við með auglýsingum/tilkynningum til okkar félagsmanna hvetja þá til að koma sínum skoðunum á framfæri við stjórn deildarinnar. Þá kemur til greina að boða til félagsfundar um  kjaramál verði það talið þorandi vegna Covid. Þegar kröfugerð félagsmanna liggur fyrir verður henni komið á framfæri við LÍV samkvæmt verkáætlun sambandsins.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð starfsárin 2020-2021: Elva Héðinsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem ritari sem fundar reglulega. Þá á formaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Formaður hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins.

Þing LÍV:

32. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var haldið í fjarfundi þann 14. október 2021 frá kl. 09:00-12:00. Þetta var í fyrsta sinn sem LÍV þing fór fram í fjarfundi en stjórn LÍV tók ákvörðun um að þingið yrði haldið með rafrænum hætti vegna Covid-19. Alls voru 84 fulltrúar boðaðir á þingið. Aðeins fastir dagskrárliðir þingsins voru teknir fyrir s.s. skýrsla stjórnar og starfsmenntasjóða, samþykkt ársreikninga LÍV og starfsmenntasjóða 2019 og 2020, ákvörðun um skatt til ASÍ og fleira. Þá var einnig ný stjórn LÍV kjörin. Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður LÍV.  Elva Héðinsdóttir hlaut kosningu í varastjórn sambandsins 2021-2023 og Jónína Hermannsdóttir í kjörnefnd 2021-2023. Elva hefur þegar tekið þátt í störfum LÍV sem stjórnarmaður en hún var boðuð á stjórnarfund í desember.

Fræðslumál:

Fálagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóði, Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Um 60 styrkir hafa verið veittir úr sjóðnum á síðustu tveimur árum sem skiptast þannig milli ára:

Árið 2020 fengu 33 félagsmenn greiddar 2.027.445,- í fræðslustyrki.

Árið 2021 fengu 28 félagsmenn greiddar 1.841.357,- í fræðslustyrki.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árunum 2020-2021, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað það varðar er um þessar mundir unnið að því að uppfæra heimasíðu stéttarfélaganna og nútímavæða hana. Samið var við fyrirtækið Dorado um að koma að þeirri vinnu. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar félagsmönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum þrátt fyrir Covid.“

Önnur umræða á fundinum:

Undir liðnum um kjaramál kom fram að almenn ánægja er Lífskjarasamninginn. Núverandi kjarasamningur rennur út 1. nóvember 2022. Fundarmenn voru á því að Lífskjarasamningurinn hefði almennt komið vel út fyrir félagsmenn, áfram ætti að stefna að krónutöluhækkunum í stað %hækkana. Þá voru önnur atriði nefnd svo sem jöfnun á orlofsrétti milli starfsgreina á vinnumarkaði, stytting vinnuvikunnar, réttindi vegna fráfalls/veikinda maka yrðu aukin og þá væri mikilvægt að tekið yrði á þeim mikla halla í útgjöldum sem væri á íbúum landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðisins hins vegar varðandi það að sækja sér heilbrigðisþjónustu og menntun og reyndar aðra þjónustu. Gríðarlegur kostnaður væri fólgin í því fyrir íbúa landsbyggðarinnar að sækja þessa þjónustu sem væri að mestu í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta væru líka kjaramál. Fleiri mál voru nefnd sem vert væri að skoða betur varðandi kjör og réttindi félagsmanna. Stjórn deildarinnar mun koma þessum skoðunum á framfæri við LÍV sem kemur væntanlega til með að fara með samningsumboð deildarinnar.

Til hamingju Sólveig Anna og B – listinn

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, fyrr­ver­andi formaður Efl­ing­ar, náði kjöri sem formaður Eflingar á ný sem ber að fagna sérstaklega.

Það varð ljóst þegar úr­slit úr stjórn­ar­kjöri Efl­ing­ar voru til­kynnt í gærkvöldi. B-list­inn sem Sól­veig fór fyr­ir hlaut flest at­kvæði.

Sól­veig Anna mun taka við af Agnieszku Ewa Ziół­kowska, sett­um for­manni, á aðal­fundi fé­lags­ins sem væntanlega verður haldinn í apríl samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum.

Þrír list­ar buðu fram í stjórn­ar­kjör­inu; A-listi – Efl­ing­ar­list­inn og var Ólöf Helga Ad­olfs­dótt­ir odd­viti hans, B-listi – Bar­áttulist­inn sem Sól­veig Anna veitti for­ystu og C-listi – sem Guðmund­ur Jónatan Bald­urs­son fór fyr­ir. 

Á kjör­skrá voru 25.841 en 3.900 manns (15,09 pró­sent) greiddu at­kvæði. Þau féllu svona: 

A-listi: 1434 at­kvæði, 36,77 pró­sent,

B-listi: 2042 at­kvæði, 52,49 pró­sent,

C-listi: 331 at­kvæði, 8,49 pró­sent,

88 tóku ekki af­stöðu.

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af Sólveigu Önnu þegar hún var á fundi á vegum Starfsgreinasambands Íslands í Mývatnssveit. Með henni á myndinni er góður frændi hennar, sjálfur Þorlákur P. Jónsson.

Góða fólkið í verkalýðshreyfingunni

Það hefur verið athyglisvert eða heldur sorglegt að fylgjast með formannskjörinu í Eflingu sem nú stendur yfir. Að fylgjast með „Góða fólkinu“ innan verkalýðshreyfingarinnar sem hefur markvisst unnið að  því að koma í veg fyrir að Sólveig Anna nái endurkjöri. Góða fólkið hefur einnig stigið fram og gagnrýnt ákveðna forystumenn innan hreyfingarinnar fyrir það eitt að koma hreint fram með stuðningsyfirlýsingar við Sólveigu Önnu. Góða fólkið hefur jafnframt talað um dómgreindarleysi þessara sömu formanna að skipta sér opinberlega af formannskjöri í öðrum stéttarfélögum. Góða fólkinu líkar ekki hreinskilni og heiðarleiki þar sem það er yfir aðra hafið.

Góða fólkið vinnur verk sín í hljóði svo vitnað sé í þeirra eigin skrif, það er ekki dómgreindarbrestur. Það lækar hins vegar og „commentar“ út og suður og tekur þannig undir níðgreinar á  samfélagsmiðlum um framboð Sólveigar Önnu.

Góða fólkið hefur verulega miklar áhyggjur af starfsmannahaldinu hjá Eflingu, en skautar fram hjá stöðunni hjá Alþýðusambandi Íslands sem mætti skora hærra í starfsánægju starfsmanna samkvæmt könnunum. Góða fólkið er ekki að eyða tíma í að velta fyrir sér starfsmannaveltunni á skrifstofu ASÍ. Góða fólkið lokar augunum fyrir því öllu saman til að halda völdum innan hreyfingarinnar. Það sá heldur ekkert athugunarvert við það að setja milljónatugi af skatttekjum ASÍ í misheppnaða auglýsingaherferð fyrir síðustu alþingiskosningar. Það er í stað þess að skila skatttekjunum aftur til aðildarfélaga sambandsins eða gefa þá til góðgerðarmála, sem stæði hreyfingunni heldur nær. Góða fólkið er kannski ekki alveg með tilgang stéttarfélaga á hreinu enda tímafrekt að koma sér áfram í hreyfingunni.

Góða fólkið sem var í aftursætinu við gerð Lífskjarasamningana hefur séð ástæðu til að tala þá niður af mikilli vankunnáttu, en þeir eru með merkilegustu kjarasamningum sem gerðir hafa verið frá Þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.  Reyndar ber að fyrirgefa Góða fólkinu það, þar sem þau voru ekki í bílstjórasætinu við gerð síðustu kjarasamninga. Þau stéttarfélög sem klufu sig út og leiddu kjaraviðræðurnar eiga heiður skilið, sem og starfsfólk þeirra stéttarfélaga og Alþýðusambands Íslands. Góða fólkinu og okkur hinum ber að sýna öllum starfsmönnum verkalýðshreyfingarinnar fulla virðingu fyrir þeirra mikilvægu störf í þágu félagsmanna. Annað er einfaldlega ekki í boði.

Góða fólkið er þrátt fyrir allt mannlegt, enda með kvíðahnút í maganum vegna formannskjörsins í Eflingu, það er ófriður í lofti og mönnum er ekki svefnsamt. Góða fólkið afneitar breytingum þar sem það vill viðhalda gömlum viðhorfum og óttast því endurkomu Sólveigar Önnu sem boðað hefur umfangsmiklar breytingar á verkalýðsbaráttu á Íslandi. Það hriktir í stoðunum.  Góða fólkið veit að nái Sólveig Anna ekki kjöri sem formaður Eflingar eru frekar rólegir tímar framundan í íslenski verkalýðsbaráttu, sem þóknast þeim ágætlega, sem og Samtökum atvinnulífsins. Vonandi tekst Góða fólkinu sem vinnur verk sín í hljóði ekki að valda íslenskri verkalýðsbaráttu frekara tjóni með því að koma í veg fyrir að Sólveig Anna nái kjöri sem formaður Eflingar enda sé það vilji félagsmanna Eflingar sem eru full færir til að velja sér formann og forystusveit. Þeirri niðurstöðu ber að unna. Góða fólkið sem byrgir glugga og deyfir ljós til að halda leynifundi í skúmaskotum með útvöldum aðilum s.s. um Salek og formannskjör í Eflingu. Góða fólkið sem innst inni veit að það er löngu tímabært að kalla eftir breytingum innan hreyfingarinnar. Góða fólkið afgreiðir þá sem nýta sér dagsljósið til að kalla eftir róttækari verkalýðsbaráttu, með þeim orðum að þau séu athyglissjúk. Góða fólkið velur að vinna verk sín í hljóði, að húka í skugganum, þar sem baktjaldamakkið þrífst með miklum ágætum, enda eru þau á því að stærstu sigrarnir vinnist ekki með steyttum hnefum, svo vitnað sé í þeirra eigin ummæli.

Vonandi kemur sá tími að Góða fólkið áttar sig á mikilvægi samstöðunnar þar sem heildarhagsmunnir verkafólks verði hafðir að leiðarljósi, ekki persónulegir hagsmunnir einstakra forystumanna innan hreyfingarinnar. Sá tími er löngu liðinn sem betur fer.

Á skíðum með Framsýn

Það var fallegt veður á skíðasvæði Húsvíkinga um helgina og fjölmargir á skíðum. Skíðasvæði Húsavíkur er nú uppá Reykjaheiði við Reyðarárhnjúk. Lyftan sem var áður í Skálamel var flutt og opnuð formlega þann 28.desember 2019. Félagsmenn Framsýnar og Þingiðnar geta notað sinn heilsueflingarstyrk hjá stéttarfélögunum til að greiða niður árskortið í lyftuna sem kostar kr. 10.000. Skila þarf inn löglegri nótu svo réttur til endurgreiðslu skapist. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. 

Viðræður ganga vel um bónus og hæfniálag hjá starfsmönnum PCC

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu fyrir helgina með fulltrúum PCC um bónuskerfi sem verið hefur verið í þróun og hæfniálag. Fundurinn fór fram í fundarsal stéttarfélaganna og í gegnum zoom þar sem einn úr samninganefnd PCC var erlendis. Núverandi bónuskerfi hefur verið að gefa starfsmönnum um 8% launahækkun. Áætlað er að nýja bónuskerfið sem er í þróun geti gefið starfsmönnum um 15 til 30% launahækkun. Gangi það eftir er um verulega hækkun að ræða fyrir starfsmenn. Til viðbótar má geta þess að grunnlaun starfsmanna byggja á tveimur þáttum, starfsaldri og hæfni. Hvað hæfnina varðar var ætlunin að þróun í starfi gæti gefið starfsmönnum allt að 5% launahækkun. Markmið kerfisins er að hvetja starfsfólk og stjórnendur til að setja þjálfun og starfsþróun í öndvegi og vinna gegn stöðnun og einhæfni. Í viðræðum aðila síðustu daga hefur komið fram að PCC sé tilbúið að endurskoða hækkanir vegna hæfniálagsins, það er að hækkunin fyrir hæfniálag 1 og 2 geti gefið allt að 15% launahækkun. Rétt er að taka fram að þessar breytingar eru á viðræðustigi en aðilar stefna að því að klára þessa vinnu fyrir vikulok. Þá verður frekar hægt að gera grein fyrir niðurstöðunni en viðræðurnar lofa góðu fyrir starfsmenn PCC.

Rekstur PCC á Bakka hefur gengið vel undanfarið, starfsmenn eru farnir að finna vel fyrir því enda fer afkoma fyrirtækisins og launakjör starfsmanna saman samkvæmt nýju bónuskerfi sem verið hefur í þróun undanfarið. Reiknað er með að PCC og stéttarfélögin skrifi undir nýtt bónuskerfi í vikunni.