Sjávarútvegsmálin tekin til umræðu

Kvótakerfið var til umræðu við Rauða borðið á Samstöðinni í gær. Gunnar Smári Egilsson stjórnaði þættinum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var meðal þeirra sem komu fram í þættinum. Til umræðu voru áhrif kvótans á sjávarbyggðir. Sumar byggðir hafa dregið til sín kvóta en aðrar misst hann frá sér. Hvaða áhrif hefur þetta haft á fólk og samfélag? Er þetta nauðsynleg þróun til að auka skilvirkni, hagkvæmni og þjóðhagslegan ábata eða kannski þveröfugt; þróun sem leiðir til sóunar, óhagkvæmni og minni ábata. Þessum spurningum var m.a. velt upp í þættinum. Auk Aðalsteins tóku Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði, Sveinbjörn Jónsson fyrrverandi sjómaður, Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda og fyrrum þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir og Sigurjón Þórðarson þátt í umræðunum sem fóru vel fram.