Þetta er upplýsingasíða fyrir orlofsíbúðir stéttarfélaganna að Þorrasölum 1-3 í Salahverfi í Kópavogi. Hér fyrir neðan má finna eftirfarandi upplýsingar:
Almenn lýsing á íbúðunum og búnaði þeirra,
Myndir frá Þorrasölum 1-3,
Myndband frá Þorrasölum 1-3,
Húsreglur og gagnlegar upplýsingar,
Upplýsingar um staðsetningu íbúðanna,
Upplýsingar um umsjónarmann íbúðanna,
Minnisatriði fyrir dvöl í orlofsíbúð,
Viðurlög við brotum á húsreglum.
Almennt um orlofsíbúðirnar
Félagsmönnum stendur til boða að leigja íbúðirnar á 28.000 kr. (vikan) eða 6.000 kr. (á hvern leigðan sólarhring).
Íbúðirnar eru með tvö svefnherbergi (rúm fyrir 4 + 2 aukadýnur + ferðabarnarúm). Í íbúðunum eru eldhús með öllu því helsta, þ.e. eldavélum, örbylgjuofnum og ískápum með frysti. Þá er leirtau í hverri íbúð fyrir a.m.k. sex manns. Baðherbergin eru með baðkari og sturtu í baðkarinu. Þvottavél er svo í öllum íbúðum og þurrkari er í íbúð nr. 201. Íbúðirnar eru nr. 102, 202, 204, 302 (um 80 m2 að stærð) og svo nr. 201 sem er örlítið rýmri íbúð eða um 100 m2 að stærð og getur hentað stærri fjölskyldum betur.
Myndir frá Þorrasölum 1-3
Til vinstri má sjá framhlið hússins þar sem gengið er inn í íbúðir, þar er hægt að leggja bíl í kjallara (með inngöngu á 1. hæð/jarðhæð) eða á efri hæð bílaplans (með inngöngu á 2. hæð). Til hægri er svo mynd af bakhlið húsnæðisins þar sem er útgengt á svalir íbúðanna. Í íbúð 102 á jarðhæð er svo lokuð af með viðarverönd.
Hér má sjá útsýnið yfir golfvöll Kópavogs og Garðarbæjar af svölum einnar íbúðarinnar.
Hér fyrir neðan má svo sjá myndir úr íbúðum nr. 102, 202 og 302.
Hér má svo sjá myndir úr stofu og eldhúsi íbúðar nr. 201.
Vinstra megin má sjá hvernig íbúðirnar eru merktar stéttarfélögunum. Til hægri er svo mynd af snyrtingu úr einni íbúðinni.
Myndband frá Þorrasölum 1-3
Hérna má sjá myndband sem tekið var upp í Þorrasölum 1-3:
Húsreglur og gagnlegar upplýsingar
Komu og brottfarartími: Leigutaka er heimilt að fara inn í íbúðina kl. 16:00 á komudegi. Brottfarartími er kl. 14:00.
Íbúðin: Íbúðin er leigð með húsgögnum, svefnstæðum fyrir 4, 2 aukadýnum, barnarúmi(ferða), eldhús-áhöldum og borðbúnaði fyrir sex manns, sjónvarpi, útvarpi og öðrum lausamunum sem ekki eru hér upptaldir en eru á munaskrá. Í íbúðinni er netsamband. Verði skemmdir á íbúðinni eða munum sem henni tilheyra, skal leigutaki tilkynna það umsjónarmanni. Leigutaki ber fulla ábyrgð á tjóni sem verður af hans völdum eða annarra sem í íbúðinni dvelja á leigutímanum. Leigutaki skal skila íbúðinni, áhöldum og munum hreinum þegar hann yfirgefur íbúðina. Öll gólf skal þrífa vel í lok dvalar. Tæma skal ísskáp og þrífa vel, en ekki slökkva á honum. Gæta skal þess að gluggar og útihurðir séu tryggilega lokaðar þegar íbúðin er yfirgefin. Óhreinar tuskur skal setja í plastpoka, loka vel að og setja í þvottaherbergið. Sorpi skal henda í sorprennur sem eru á bílaplaninu.
Óheimilt að framselja leigusamning: Leigutaka er stranglega bannað að framselja leigusamning sinn til annars aðila. Eigi slíkt sér stað er heimilt að víkja fólki úr íbúðinni fyrirvaralaust. Leigugjald verður ekki endurgreitt í slíkum tilfellum. Lyklum af íbúðum skal skila strax að lokinni dvöl til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.
Leiga á líni og þrif á íbúð: Leigutaki getur fengið leigt lín til afnota í íbúðinni. Umsjónarmaður sér um að afhenda leigjendum línið. Greiða þarf 2.000 kr. fyrir hvern einstakling sem velur að leigja lín og handklæði fyrir sig. Ganga þarf frá greiðslunni um leið og gengið er frá leigusamningi um leigu á viðkomandi íbúð. Við brottför er línið skilið eftir í íbúðinni. Leigutaki getur jafnframt fengið keypt þrif á íbúðinni óski hann eftir því. Ganga þarf frá þeirri beiðni um leið og gengið er frá leigusamningi fyrir íbúðina.
Umgengni um íbúðirnar: Stéttarfélögin leggja mikið upp úr góðri umgengni um íbúðirnar og því eru leigutaki og gestir beðnir um að fylgja reglum og þrífa mjög vel eftir sig við brottför og koma rusli í ruslarennur á bílaplani. Skilja skal borðklúta, viskustykki og gólfklúta eftir í íbúðinni við brottför. Telji umsjónarmaður að ekki hafið verið þrifið samkvæmt reglum verður íbúðin þrifin á kostnað leigutaka.
Hávaði ekki leyfður: Íbúðin er í fjölbýli. Það er mikilvægt að leigjendur virði það og séu ekki með óþarfa hávaða. Mikilvægt er að kyrrð sé komin á eigi síðar en á miðnætti, kl. 24:00.
Netið: Leigjendur sem dvelja í íbúðinni geta komist á netið. Lykilorðið er á myndlyklinum. Heimilt er að nota netið í hófi, stórfellt niðurhal er stranglega bannað. Komi til þess að notkunin verði meiri en eðlilegt getur talist verður viðkomandi leigutaka gert að greiða fyrir umfram notkunina.
Dýrahald: Það er stranglega bannað er að hafa með sér húsdýr/gæludýr í íbúðirnar.
Reykingar: Reykingar eða notkun vímuefna er stranglega bönnuð í íbúðinni.
Bílageymsla: Hver íbúð í Þorrasölum á eitt bílastæði sem er merkt í bílageymslunni. Fjarstýring/lykill af geymslunni er í litlum skáp fyrir ofan ísskápinn. Rimlahurð sem er á bílageymslunni er opnanleg með fjarstýringu. Mikilvægt er að leigutaki gangi frá fjárstýringunni í skápinn fyrir ofan ísskápinn þegar hann yfirgefur íbúðina eftir notkun. Varðandi bílastæðið sjálft sem er ofan á bílageymslunni er ekki um að ræða merkt stæði fyrir hverja íbúð. Bílastæðin eru ætluð íbúum og gestum þeirra.
Upplýsingar um staðsetningu orlofsíbúðanna
Hægt er að aka Reykjanesbraut að verslunarmiðstöðinni Smáralind og/eða Turninum í Kópavogi. Þaðan er ekið upp Fífuhvammsveg sem leið liggur framhjá Sala-sundlaug og Salaskóla og þar beygt til hægri. Fjölbýlishúsið Þorrasalir 1-3 er meðal fyrstu húsa í Þorrasölum og sést merkt með rauðum hring og bókstafnum „A“ á eftirfarandi mynd.
Umsjónarmenn eru, Sjöfn Ólafsdóttir (860-8944) og Helga Rúna Péturs (699-3757).
Þær hafa að jafnaði viðveru í íbúðum milli kl. 14:00 og 16:00 virka daga og því skiptir máli að virða brottfarar- og komutíma. Utan þess tíma er leigjendum heimilt að hafa samband við þær þurfi þeir nauðsynlega á því að halda. Þeim er ætlað taka íbúðirnar út eftir notkun félagsmanna og fylgjast með því að vel sé gengið um íbúðirnar. Þá má hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna, 464-6600. Opnunartími 08:00-16:00 virka daga. Sími hjá forstöðumanni stéttarfélaganna, Aðalsteini Á. Baldurssyni er 864-6604.
Minnisatriði fyrir dvöl í orlofsíbúð
1. Hafa með sér lín (koddaver, sængurver, lök) og handklæði.
2. Skila íbúðinni hreinni, þurrka af húsgögnum og búnaði.
3. Þrífa vel öll gólf.
4. Þvo ískáp vel, ekki slökkva á ísskáp.
5. Loka gluggum og læsa útihurðum.
6. Skila lyklum að íbúðinni.
Viðurlög við brotum á húsreglum þessum
Verði leigutaki eða gestir hans uppvísir að því að reykja inni í íbúðinni eða um önnur alvarleg brot á þessum reglum fyrirgera þeir rétti sínum til að dvelja í íbúðum á vegum stéttarfélaganna! Ef leigutaki skilar ekki íbúðinni og innanstokksmunum í góðu ástandi er hann ábyrgur fyrir kostnaði sem af því hlýst.