Framsýn, stéttarfélag starfar samkvæmt lögum um starfsemi stéttarfélaga. Félagið starfar jafnframt eftir eigin lögum og reglum sem samþykkt eru á aðalfundi félagsins hverju sinni.

Yfirlit um lög og reglur félagsins:
Félagslög
Reglugerð sjúkrasjóðs
Starfsreglur deildar verslunar- og skrifstofufólks
Starfsreglur sjómannadeildar
Reglugerð orlofssjóðs
Reglugerð fræðslusjóðs
Reglugerð vinnudeilusjóðs
Reglur um fundargerðir
Siðareglur

Félagslög
FRAMSÝN-stéttarfélag
I. KAFLI

NAFN FÉLAGSINS OG HLUTVERK

1. grein

Heiti og starfssvæði

Félagið heitir Framsýn stéttarfélag, skammstafað FS. Starfssvæði þess er Norðurþing, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur. Starfssvæði þess þegar í hlut eiga skipstjórnarmenn á fiskiskipum er landið allt.

Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands,  Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra verslunarmanna sem eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands.  Jafnframt er félagið aðili að Alþýðusambandi Norðurlands.

Heimili félagsins og  varnarþing er á Húsavík.

2. grein

Tilgangur og starfssvið

Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því meðal annars:

  1. Að skipuleggja innan sinna vébanda allt það starfsfólk, er starfar eftir þeim kjarasamningum og sérsamningum sem félagið gerir og er aðili að.
  2. Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör þeirra og aðbúnað á vinnustað og gæta þess, að ekki sé gengið á rétt þeirra.
  3. Að standa vörð um réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnumálum.
  4. Að hafa vinsamlegt samstarf og samvinnu við önnur stéttarfélög innan þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að.
  5. Að stuðla að því að félagsmenn geti notið orlofs og annarra frístunda, sem best til hvíldar og menningarauka.
  6. Að vinna að hvers konar fræðslu- og menningarmálum, sem beint og óbeint geta komið félagsmönnum til góða.
  7. Að vinna að bættri löggjöf í félags- og velferðarmálum og framgangi allra þeirra mála, er mega verða til aukinna réttinda og bættra kjara alþýðu landsins.
  8. Að koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum og öðrum, að því sem varðar hagsmuni félagsmanna.


3. grein

Félagsaðild

Sérhver starfsmaður getur sótt um inngöngu í félagið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Sé starfandi eftir þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að eða sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði.
  2. Verði 16 ára á því almanaksári, er viðkomandi sækir um inngöngu.
  3. Standi ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ.
  4. Sé greiðandi og hafi greitt lágmarksfélagsgjald á undangengnum 12 mánuðum sbr. 10. gr., þó með þeim undantekningum sem kveðið er á um í lögum þessum og staðfest hefur aðild sína að félaginu skv. nánari ákvæðum laga þessara.
  5. Sé ekki atvinnurekandi eða hafi ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar að því fyrirtæki eða stofnun sem hann vinnur hjá.
  6. Félagsmaður sem starfar eftir kjarasamningum félagsins en verður atvinnulaus, á rétt til áframhaldandi aðildar að félaginu og heldur félagslegum réttindum sínum enda greiði hann áfram til félagsins af atvinnuleysisbótum.
  7. Félagsmenn sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna örorku geta verið áfram félagsmenn þó án þess að njóta kjörgengis í félaginu. Skulu þeir hafa verið félagsmenn í Framsýn óslitið í 5 ár áður en til örorku kom.
  8. Eldri félagsmenn sem fá greiddan ellilífeyri og sem verið hafa í félaginu að lágmarki 5 ár fyrir töku eftirlauna, teljast áfram félagsmenn í Framsýn en njóta ekki kjörgengis.
  9. Þeir sem hverfa frá störfum um stundarsakir vegna náms eða veikinda geta nýtt sér áunninn rétt við inngöngu að nýju skv. nánari reglum félagsins.
  10. Sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði geta orðið félagsmenn með takmörkuðum réttindum skv. reglum einstakra sjóða auk þess sem þeir njóta ekki kjörgengis í félaginu. Sjálfstætt starfandi og/eða eigendur fyrirtækja eiga ekki rétt á að greiða atkvæði um kjarasamninga eða verkföll. Sjálfstætt starfandi telst sá sem ber að áætla sér reiknað endurgjald samkvæmt ákvörðun skattayfirvalda, auk þeirra sem skráðir eru sem launamenn hjá eigin fyrirtæki, enda hafa þeir þannig ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Þar sem sjálfstætt starfandi, og/eða fjölskyldumeðlimur rekstraraðila, teljast hafa ráðandi stöðu skulu iðgjöld þeirra ávallt vera greidd og í skilum ef sækja á þjónustu til Framsýnar eða réttindi í sjóðum félagsins.

Réttindi sem fylgja aðild samkvæmt öllu ofangreindu eru háð nánari reglum einstakra sjóða Framsýnar.

Nú telur stjórn og trúnaðarráð félagsins, að tekinn hafi verið í félagið einstaklingur sem ekki átti rétt til inngöngu, eða að viðkomandi hefur gefið rangar eða villandi upplýsingar um atvinnu sína eða annað, og missir þá viðkomandi þegar í stað skv. úrskurði stjórnar og trúnaðarráðs félagsins félagsréttindi og verður ekki tekinn inn í félagið fyrr en úr hefur verið bætt að fullu. Slíkum úrskurði er heimilt að vísa til miðstjórnar ASÍ.

4. grein

Aukafélagar

Heimilt er að taka í félagið aukafélaga. Aukafélagar eru unglingar innan 15 ára aldurs, þeir sem greiða til félagsins en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 3. gr. og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru félagar í öðru félagi.

Aukafélagar greiða fullt gjald til félagsins meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.

Samninganefnd getur þó ákveðið við afgreiðslu einstakra mála, í tengslum við kjarasamninga, að aukafélagar hafi atkvæðisrétt. Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.

5. grein

Inntaka

Nú óskar einhver að ganga í félagið og skal hann þá afhenda skrifstofu félagsins skriflega inntökubeiðni á eyðublaði sem skrifstofan lætur í té, undirritaða með eigin hendi. Jafnframt skal heimilt að skila inn undirritaðri inntökubeiðni með rafrænum hætti.

Öllum þeim, sem á tilteknu almanaksári hafa náð að greiða lágmarksgjald það, sem aðalfundur ákveður hverju sinni og sem uppfylla ákvæði 3. greinar, en hafa ekki látið innrita sig í félagið, skal send tilkynning þess efnis með bréfi eða auglýsingu að ef þeir óski ekki eftir því að gerast fullgildir félagsmenn, skuli þeir tilkynna skrifstofu félagsins þar um. Jafnframt skal þeim gerð grein fyrir því hvað felst í hugtakinu fullgildur félagsmaður og aukafélagi.

Þeim sem fullnægja skilyrðum um félagsaðild, skal sent tilkynning sem staðfestir inngöngu þeirra þegar stjórn félagsins eða félagsfundur hefur samþykkt inngöngu þeirra í félagið.

Nú hefur einhverjum verið synjað um inngöngu og má þá ekki bera inntökubeiðni hans upp aftur fyrr en að tveim mánuðum liðnum. Þeim sem synjað hefur verið um inngöngu geta skotið máli sínu til miðstjórnar A.S.Í. Úrskurður stjórnar- eða félagsfundar skal gilda þar til miðstjórn A.S.Í. hefur úrskurðað annað.

II. KAFLI

RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA,

RÉTTINDAMISSIR OG BROTTREKSTUR
6. grein

Réttindi félagsmanna

Réttindi fullgildra félagsmanna eru eftirfarandi:

  1. Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum, kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að og réttur til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, þá sem félagið á aðild að og viðkomandi félagsmaður vinnur eftir.
  2. Forgangsréttur til vinnu á félagssvæðinu til að vinna þau störf, sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum, sem kjarasamningar segja til um hverju sinni.
  3. Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við það, sem nánar er ákveðið í reglugerðum þeirra sem og þeim sjóðum sem félagið á aðild að í gegnum kjarasamninga.
  4. Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins, íbúðum og öðrum sameiginlegum eignum, eftir því sem samþykktir og reglugerðir kveða á um.
  5. Réttur til að sækja námskeið á vegum félagsins eða þeirra samtaka, sem það er aðili að.
  6. Réttur til aðstoðar vegna vanefnda atvinnurekenda á kjarasamningum og til annarrar þeirrar þjónustu sem félagið veitir hverju sinni, þar með talið lögfræðiþjónustu.
  7. Réttur til lögfræðilegrar aðstoðar vegna bótamála í sambandi við vinnuslys eða atvinnusjúkdóma.
  8. Þrátt fyrir ákvæði a-liðar, njóta ekki kjörgengis félagsmenn sem eru í stjórnunarstörfum innan fyrirtækja eða stofnanna og þeir sem skráðir eru sem launamenn hjá eigin fyrirtæki og/eða ef maki þeirra eða annar nákominn telst hafa ráðandi stöðu eða verulegra hagsmuna að gæta innan þess sama fyrirtækis eða stofnunar.

Aukafélagar, sem ekki uppfylla ákvæði 3. greinar um fullgilda félagsmenn, hafa aðeins málfrelsi og tillögurétt um málefni félagsins, en njóta ekki annarra réttinda skv. a-lið þessarar greinar. Aukafélagar skulu njóta annarra réttinda skv. liðum c-g. Starfsmenn félagsins, starfsmenn og forystumenn þeirra heildarsamtaka, sem það á aðild að, skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, þótt þeir séu ekki félagsmenn.

7. grein

Skyldur félagsmanna

Skyldur félagsmanna eru þessar:

  1. Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum og stuðla að því að aðrir geri það.
  2. Að sjá til þess að félagsgjöld séu dregin af launum sínum.
  3. Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Enginn getur, nema af frambornum ástæðum sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins. Það sama á við um félagsmenn sem orðnir eru 70 ára og eru áfram á vinnumarkaði. Þeir geta skorast undan því að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið.
  4. Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn, sem eiga rétt til inngöngu í félagið, gerist félagsmenn.
  5. Að veita stjórn félagsins upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilyrði á þeim vinnustöðum, sem þeir vinna á eða hafa unnið á.
  6. Að veita stjórn eða formanni félagsins upplýsingar, verði félagsmaður þess vís að lög félagsins, eða samningar þess séu brotnir.

Aukafélagar skulu hafa sömu skyldur og aðalfélagar, að öðru leyti en tekur til ákvæða c-liðar.

8. grein

Viðurlög

Hafi félagsmaður verið sakaður um brot á lögum félagsins, samningum þess við vinnuveitendur eða vinnur gegn hagsmunum þess skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða svipta hann réttindum fullgildra félagsmanna. Hver sá maður getur sætt missi fullgildrar félagsaðildar í félaginu, í lengri eða skemmri tíma sem að áliti stjórnar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til trúnaðarráðs félagsins. Úrskurði trúnaðarráðs um áminningu eða réttinda missi félagsmanns má vísa til viðkomandi landssambands og Alþýðusambands Íslands, en úrskurður trúnaðarráðs gildir þar til sambandið ákveður annað. Hafi félagsmaður misst stöðu fullgilds félagsmanns í félaginu á hann ekki rétt til þeirrar stöðu að nýju nema með samþykki stjórnar.

9. grein

Um meðferð ágreinings

Komi upp ágreiningur um réttindi og skyldur félagsmanna, jafnt aðalfélaga sem aukafélaga, skv. ákvæðum 6. og 7. greinar, og/eða vegna viðurlaga sem félagsmaður er beittur sbr. ákvæði 8. greinar, skal félagsfundur úrskurða í ágreiningsmálinu. Sætti félagsmaður sig ekki við úrskurð félagsfundar getur hann skotið viðkomandi máli til miðstjórnar ASÍ, en úrskurður félagsfundar gildir þar til miðstjórn ASÍ hefur úrskurðað um annað.

10. grein

Aðalfélagar, aukafélagar og félagsgjöld

Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi og skulu þau innheimt, sem tiltekinn hundraðshluti af heildarlaunum. Aðalfundur skal einnig ákveða það lágmarksgjald sem félagsmenn þurfa að greiða til að halda fullum félagsréttindum. Tillögur um lækkun félagsgjalda ná því aðeins fram að ganga að tveir þriðju hlutar fundarmanna á aðalfundi, séu því samþykkir.

Þegar iðgjaldabókhald félagsins er gert upp, fyrir umliðið almanaksár, skal yfirfarið hvað hver og einn hefur greitt í félagsgjald á næstliðnu ári og eftirfarandi ráðstafanir gerðar:

  1. Þeir félagsmenn, sem greitt hafa á árinu, sem nemur að minnsta kosti því lágmarksgjaldi sem aðalfundur hefur ákveðið verða áfram á skrá yfir fullgilda félagsmenn.
  2. Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið skulu færðir á aukafélagaskrá. Greiði þeir skuld sína vegna næstliðins starfsárs fyrir 31. mars, skulu þeir á ný færðir á skrá yfir fullgilda félagsmenn.
  3. Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða lágmarksgjald til félagsins síðustu 12 mánuði, skulu felldir af félagaskrá.
  4. Þeir, sem náð hafa að greiða að minnsta kosti það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið, en ekki svarað tilkynningu skv.  5. gr. skulu færðir á aukafélagaskrá.
  5. Félagsmenn 60 ára og eldri sem komnir eru á ellilífeyri halda félagsréttindum og eftir atvikum réttindum í sjóðum félagsins samkvæmt reglugerðum hvers og eins sjóðs, þó þeir greiði ekki félagsgjöld enda hafi þeir verið fullgildir félagsmenn við starfslok. Sama á við um þá sem eru fullgildir félagsmenn og verða fyrir varanlegri örorku og hætta störfum á vinnumarkaði. Þeir sem falla undir þennan lið geta verið áfram félagsmenn þó án þess að njóta kjörgengis í félaginu sjá þó g-h liði 3. greinar.
  6. Stjórn félagsins er heimilt að velja heiðursfélaga og sæma menn gullmerki félagsins. Heiðursfélagar eru undanskildir félagsgjaldi.

Þrátt fyrir framanskráðar reglur skulu þeir sem orðnir eru 70 ára að aldri, vera gjaldfríir til félagsins, en halda fullum réttindum samkvæmt síðasta liðnum, nema þeir hafi gengið yfir í önnur stéttarfélög. Sama gildir um þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið eða á vegum þess, enda voru þeir félagsmenn þegar þeir tóku við þeim störfum. Heimilt er stjórn að veita þeim, sem eiga við örorku eða langvarandi veikindi að stríða, eftirgjöf frá lágmarksgjaldi.

11. grein

Vanskil, brottflutningur og starfsgreinaskipti

Ekki síðar en  mánuði fyrir aðalfund félagsins, skal þeim sem eru í vanskilum og ekki hafa greitt sem nemur lágmarks félagsgjaldi því sem aðalfundur félagsins hefur ákveðið, tilkynnt um það. Jafnframt skal tilkynnt um þann frest, sem félagsmaður hefur til að gera upp skuldina. Tilkynning um greiðslufrest til skuldaskila á félagsgjöldum, skal birt í héraðsblöðum, heimasíðu félagsins, fréttabréfi félagsins eða bréflega til hvers og eins. Sinni viðkomandi ekki um greiðslu meintra vanskila innan tveggja vikna frá dagsetningu tilkynningar, skal fella hann út af félagaskrá.

Félagsmaður sem lætur af starfi, er fellur undir samningssvið félagsins og tekur upp annað launað starf, sem ekki fellur undir samningssvið þess skal felldur af félagaskrá, enda á hann þá rétt til inngöngu í annað stéttarfélag, eða stendur utan stéttarfélaga. Félagsréttindi falla niður frá sama tíma.

12. grein

Úrsögn

Úrsögn skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins eða formanni þess. Nú segir félagsmaður sig úr félaginu og skal þá stjórn þess athuga hverjar ástæður eru fyrir úrsögninni. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða trúnaðarráði og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu í þeim tilgangi að ganga í störf þeirra sem lagt hafa niður vinnu vegna kjaradeilu.

III. KAFLI

DEILDIR INNAN FÉLAGSINS
13. grein

Stofnun deilda innan félagsins

Stjórn félagsins getur ákveðið að stofna deildir/svið innan félagsins er taki til þeirra starfsgreina, sem félagsmenn vinna í og einnig í samræmi við sviðsskiptingu innan SGS eða LÍV. Einnig er heimilt að á sama hátt, að taka inn í félagið í heild önnur verkalýðsfélög, sem nú starfa eða kunna síðar að starfa í einstökum starfsgreinum eða svæðum, enda hafi borist um það formleg tilmæli frá viðkomandi félögum.

14. grein

Starfsreglur deilda og starfandi deildir

Deildir innan félagsins ráða sérmálum sínum, kjósa sér stjórn, setja sér lög og starfsreglur og  fara með samninga um kaup og kjör innan viðkomandi starfsgreinar. Allar deildir innan félagsins eiga aðild að viðkomandi sérgreina sambandi. Lög og starfsreglur deildanna þurfa samþykkis aðalfundar Framsýnar stéttarfélags.

Nú starfa eftirfarandi deildir í félaginu: Sjómannadeild og Deild Verslunar- og skrifstofufólks.

IV. KAFLI

STJÓRNARKJÖR OG KOSNINGAR

15. grein

Uppstillinganefnd og kosningar

Í nóvember annað hvert ár, skal á fundi í trúnaðarráði kjósa uppstillinganefnd fyrir félagið. Fimm félagar skulu eiga sæti í uppstillinganefnd. Uppstillinganefnd gerir tillögur um félaga í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta kjörtímabil. Uppstillinganefnd er heimilt að láta fara fram könnun meðal trúnaðarmanna á vinnustöðum, um hverjir eigi að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið næsta kjörtímabil. Könnunin skal vera skrifleg. Uppstillinganefnd skal hafa lokið störfum í síðasta lagi 31. janúar það ár sem uppstilling fer fram og afhendir hún þá trúnaðarráði tillögur sínar. Við val á félagsmönnum til trúnaðarstarfa fyrir félagið skal gætt jafnræðis milli kynja og milli starfsgreina.

Trúnaðarráð gengur endanlega frá tillögunum og leggur fram lista við stjórnarkjör í félaginu og tillögur um menn í aðrar trúnaðarstöður, sem kosið er um á aðalfundi. Trúnaðarráð skal hafa lagt fram tillögur sínar eigi síðar en 15. febrúar. Skal listi trúnaðarráðs til stjórnarkjörs þá þegar auglýstur, ásamt þeim fresti, sem gefinn er til að skila inn breytingartillögum.

Heimilt er hverjum félaga að koma með breytingartillögur um félaga í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan félaga í trúnaðarstöður næsta kjörtímabil. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli að minnsta kosti 40 fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli að minnsta kosti 80 fullgildra félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins fyrir 1. mars.

Komi fram breytingartillögur, skal kjörstjórn sjá um framkvæmd kosninga í samræmi við ákvæði reglugerðar A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur.

Hafi komið fram tvær eða fleiri heildartillögur skal merkja tillögu trúnaðarráðs með bókstafnum A, en aðrar tillögur með bókstöfunum þar á eftir, í þeirri röð sem þær bárust skrifstofu félagsins.
Hafi komið fram breytingartillaga um félaga í einstakar trúnaðarstöður, skal kjósa milli allra, sem tillögur hafa verið gerðar um í hvert trúnaðarstarf fyrir sig og er sá rétt kjörinn sem flest atkvæði hlýtur.

Hafi komið fram nýjar heildartillögur eða breytingartillögur skal fara fram atkvæðagreiðsla í samræmi við reglugerð A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur. Kjörstjórn getur einnig ákveðið að viðhafa póstkosningu.

Komi engar breytingartillögur fram, né fleiri listar, teljast þeir félagar sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir og skal kosningu þannig lýst á aðalfundi.

16. grein

Hlutverk Kjörstjórnar

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum A.S.Í. skipar miðstjórn A.S.Í. þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

17. grein

Allsherjaratkvæðagreiðsla

Allsherjaratkvæðagreiðslu eða póstkosningu skal skylt að viðhafa í félaginu ef:

  1. Ákveða skal vinnustöðvun í félaginu.
  2. Fram fer atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning.
  3. Samþykkt er á félagsfundi.
  4. Samþykkt er á trúnaðarráðsfundi.
  5. Þegar 50 félagsmenn krefjast þess skriflega.
  6. Lög ASÍ eða Miðstjórn A.S.Í. eða stjórnir landssambanda fyrirskipa.

18. grein
Framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu

Kjörstjórn sér um undirbúning og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu eða póstkosningar og skal í öllu fara eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur. Reglur um póstkosningu og rafrænar kosningar skulu einnig fara eftir sömu reglugerð, eftir því sem við getur átt. Þegar allsherjaratkvæðagreiðsla eða póstkosning er viðhöfð, eru úrslit hennar endanleg afgreiðsla félagsins, á því máli sem kosið var um.

V. KAFLI

FUNDIR, STJÓRN OG TRÚNAÐARRÁÐ

19. grein

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert. Aðalfundurinn skal boðaður með dagskrá, með minnst 14 sólahringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Fastir liðir á dagskrá aðalfundar skulu vera þessir:

  1. Kjör á starfsmönnum fundarins
  2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
  3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
  4. Lýst kjöri stjórnar, varamanna í stjórn, trúnaðarráðs og skoðunarmanna
  5. Lýst kjöri annarra stjórna, nefnda og ráða sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir
  6. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
  7. Lagabreytingar, ef fyrir liggja
  8. Ákvörðun félagsgjalds
  9. Ákvörðun um laun stjórnar, annarra stjórna, ráða og nefnda
  10. Önnur mál

20. grein

Félagsfundur

Fundi skal halda í félaginu þegar stjórninni þykir ástæða til, eða þegar 30 félagar krefjast þess skriflega, enda sé fundarefni tilgreint af þeim er kröfuna gera. Fundi skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara, með auglýsingum eða á annan viðurkenndan hátt. Þó má í sambandi við vinnudeilur og kjarasamninga boða til funda með skemmri fyrirvara, ef brýna nauðsyn ber til. Fundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað. Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum félagsins. Vafaatriði um fundarsköp úrskurða fundir hverju sinni. Að öðru leyti fer fundarstjóri eftir því sem honum þykir best henta.

21. grein

Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa sjö félagar; formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og þrír meðstjórnendur. Kjósa skal formann og fjóra stjórnarmenn sérstaklega en auk þess eiga fast sæti í stjórn félagsins formenn deilda og skulu þeir kjörnir sérstaklega á aðalfundum þeirra. Stjórnin kýs úr sínum hópi varaformann, gjaldkera og ritara nema þess hafi verið getið í tillögu uppstillinganefndar  skv. 15. gr. um félaga í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta kjörtímabil. Varastjórn skipa sex félagar. Kjörtímabil stjórnar skal vera tvö ár. Forfallist  varaformaður, ritari eða gjaldkeri til frambúðar áður en tveggja ára kjörtímabili þeirra líkur, skal þegar í stað kalla saman stjórn og varastjórn sem velja úr sínum hópi mann í það embætti sem við á út það kjörtímabil sem hinn forfallaði var kjörinn til.

Formaður kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Skylt er honum að boða stjórnina til fundar ef að minnsta kosti þrír stjórnarmenn krefjast þess. Afl atkvæða ræður úrslitum um afgreiðslu mála.

Stjórnin heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og skal það er á fundunum gerist skráð í sérstaka gerðarbók. Fundur er lögmætur þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Formaður sér um að gerðarbók sé rituð og hún varðveitt með öruggum hætti.

Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

22. grein

Störf stjórnar

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda:

  1. Stjórn skal vinna að stefnumótun fyrir félagið og vinna að framgangi þeirra mála sem félagið hefur sett sér að vinna að.
  2. Stjórn skal sjá um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög félagsins.
  3. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum. Stjórn skal sjá svo um að fjármál séu jafnan í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna.
  4. Stjórn fylgist með störfum deilda eða starfsgreina sem starfræktar eru eða kunna að verða.
  5. Stjórn ber að stuðla að því að varðveita sögu félagsins.
  6. Stjórn hefur að öðru leyti vakandi áhuga fyrir því, er félaginu má verða til heilla.
  7. Stjórn er heimilt að ráða formann félagsins sem framkvæmdastjóra og fela honum daglegan rekstur skrifstofu félagsins. Jafnframt er stjórn heimilt að ráða sérstakan framkvæmdastjóra sé það vilji hennar. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn og semur um kjör þeirra í umboði stjórnar.

Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum fyrir félagið, skal hann skila af sér öllum þeim gögnum, er trúnaðarstarf hans varða.

23. grein

Hæfi stjórnarmanna

Stjórnarmenn skv. 21. gr. og ef við á, stjórnarmenn sjóða skv. 30. gr. sem starfa á starfssviði félagsins, skulu vera fjár síns ráðandi og mega ekki á sl. 5 árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.

Stjórnarmenn mega ekki eiga meira en 5% hlut í fyrirtæki sem er í atvinnurekstri á starfssviði félagsins og mega ekki vera starfandi sem framkvæmdastjórar eða stjórnendur fyrirtækis, stofnunar eða félags þar sem réttarstaða framkvæmdastjóra eða stjórnenda rekstrar telst sú sama og sem hann væri sjálfur atvinnurekandi. Stjórnarmenn sem missa hæfi skv. framansögðu á kjörtímabili sínu víkja sjálfkrafa og tafarlaust úr stjórn og taka varamenn þeirra sæti í þeirra stað þar til hæfisskilyrðum er fullnægt að nýju. Sé ágreiningur um hæfi skal kjörstjórn úrskurða um það. Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja sæti ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Missi stjórnarmaður kjörgengi sitt á kjörtímabili skal hann tafarlaust víkja úr stjórn Framsýnar. Sama regla gildir um aðra kjörna fulltrúa í stjórnum og ráðum félagsins.

24. grein

Trúnaðarráð

Innan félagsins starfar trúnaðarráð, sem í eiga sæti allir aðalmenn og varamenn í félagstjórn og enn fremur 15 félagsmenn aðrir, sem eru sérstaklega kosnir til setu í ráðinu. Kjörtímabil trúnaðarráðs skal vera tvö ár. Formaður félagsins er jafnframt formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins, ritari þess. Formaður kveður trúnaðarráðið til funda, þegar honum þykir ástæða til eða félagsstjórn ákveður. Skylt er honum að boða til fundar ef þriðjungur trúnaðarráðs óskar þess skriflega og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarráðsfundur er löglegur ef meirihluti ráðsmanna er mættur.

Trúnaðarráð skal móta stefnu félagsins í kaupgjalds, kjara og atvinnumálum, í samræmi við ákvarðanir aðal- og félagsfunda. Þá skal trúnaðarráð fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir er varða fjárhag félagsins.

Trúnaðarráð kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga en getur einnig kosið sérstaka samninganefnd í því skyni, að eigin ákvörðun eða eftir ákvörðun félagsfundar. Við mikilvægar ákvarðanir í samningagerð ber samninganefnd að hafa fullt samráð við trúnaðarráð og gæta þess í hvívetna að undirrita aldrei kjarasamninga eða aðrar skuldbindingar á sviði kjaramála án slíks fyrirvara og fyrirvara um atkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu ráðsins.

Trúnaðarráð leggur fram tillögu til aðalfundar um kjör félagsstjórnar, annarra stjórna, nefnda og ráða á vegum félagsins fyrir næsta kjörtímabil, sjá frekar í 15. grein.

25. grein

Formaður og varaformaður

Formaður félagsins kveður til allra funda þess og stjórnar fundum. Heimilt er að skipa fundarstjóra í stað formanns til að stjórna fundum. Formaður undirritar allar gerðir félagsins og gætir þess að allir starfsmenn þess geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því, að fylgt sé lögum þess og reglum í öllum greinum. Hann ávísar reikningum á félagið til greiðslu. Varaformaður gegnir sömu störfum í forföllum formanns.

26. grein

Ritari

Ritari ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni eða fundarstjóra.

Heimilt er að skrá fundargerðir rafrænt í tölvu í stað þess að þær séu færðar í sérstakar fundargerðarbækur. Skulu fundargerðir stjórnarfunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta reglulegan fund.

Heimilt er að taka fundi félagsins upp á hljóð- og/eða mynd en fundargerðir skulu engu að síður skráðar. Þess skal gætt að lög um persónuvernd séu virt komi til þess að fundir séu hljóðritaðir, teknar upp á myndband eða sjónvarpað.

Að loknu starfsári skal ritari sjá til þess að allar fundargerðir félagsins og deilda þess séu teknar saman og varðveittar með öruggum og skipulegum hætti.

27. grein

Ungliðaráð

Innan félagsins skal vera starfandi Ungliðaráð Framsýnar sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin skal fara fram á fundi stjórnar- og trúnaðarráðs félagsins í október á hverju ári.

Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu.

Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG.

Ungliðaráðið skal starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags.

Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ og landssambanda þeirra á hverjum tíma.

VI. KAFLI

FJÁRMÁL

28. grein

Rekstur félags
Af tekjum félagsins og sérsjóða þess skulu greidd öll útgjöld sem til falla vegna rekstur félagsins og eigna þess og annar kostnaður sem stafar af lögmætum samþykktum félags-, trúnaðarráðs- eða stjórnarfunda. Ennfremur skatta til þeirra heildarsamtaka launafólks, sem félagið er aðili að.

29. grein

Reikningsár og endurskoðun

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Stjórn félagsins er skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga félagsins og fjárreiður í lok hvers reikningsárs. Kjósa skal félaginu löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu á aðalfundi.

30. grein

Sjóðir félagsins

Sjóðir félagsins skulu vera, félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður, fræðslusjóður, vinnudeilusjóður, svo og aðrir sjóðir, sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins skulu hafa sérstaka reglugerð, samþykkta á aðalfundi. Breytingar á reglugerðum sjóða lúta sömu reglum og lagabreytingar.

Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans, hvernig það skuli ávaxtað og tryggt og hvernig honum skuli stjórnað. Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.

31. grein

Tillögur um ráðstöfun úr sjóðum félagsins

Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en tíu dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í að minnsta kosti 5 virka daga.

VII. KAFLI

BREYTINGAR Á FÉLAGSSVIÐI, LAGABREYTINGAR OG STARFSREGLUR
32. grein

Breyting á félagssviði

Komi fram tillaga um að lögbinda félagið við eitthvert annað félag eða félagssamband eða slíta slíku sambandi, þarf sama atkvæðamagn og um lagabreytingar.

33. grein

Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Breytingar á lögum þessum ná því aðeins fram að ganga að þær séu samþykktar með 2/3 hlutum greiddra atkvæða og koma þá fyrst til framkvæmda, er stjórnir hlutaðeigandi landsambanda og miðstjórn A.S.Í. hafa samþykkt þær.

34. grein

Starfsreglur

Félagið setur sér reglur til viðmiðunar vegna aðkomu starfsmanna og fulltrúa félagsins að málum félagsmanna og félagsins sjálfs er varðar:

  1. Persónuupplýsingar og vinnslu persónuupplýsinga
  2. Ferðakostnað, risnu og gjafir
  3. Siðareglur
  4. Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi
  5. Starfsreglur fyrir stjórnir sjóða
  6. Reglur um ritun, form og varðveislu fundargerða Framsýnar, stéttarfélags

Stjórn félagsins er heimilt er að setja sér frekari verklagsreglur um helstu málaflokka

VIII. KAFLI

FÉLAGSSLIT
35. grein

Félagsslit

Félaginu verður ekki slitið, nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal miðstjórn A.S.Í. varðveita eignir þess þar til annað félag með sama tilgangi hefur verið stofnað á félagssvæðinu. Fær þá hið nýja félag  umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar A.S.Í. Sami háttur skal hafður á um varðveislu eigna félagsins, ef starfsemi þess leggst niður, án þess að formleg samþykkt hafi verið gerð þar um, enda hafi engin starfsemi átt sér stað hjá félaginu í að minnsta kosti 12 mánuði og miðstjórn A.S.Í. hefur gengið úr skugga um, að félagið verði ekki endurlífgað. Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar. Um úrsögn úr A.S.Í. eða aðildarsamtökum þess fer skv. lögum A.S.Í.

Þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008. Gerðar voru breytingar á lögunum á aðalfundi félagsins 20. júní 2013 og aðalfundi 2016. Þá komu til breytingar á 4. og 6. gr. á aðalfundi félagsins 2018.

Á aðalfundi félagsins 2021 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögum félagsins. Markmið þeirra breytinga sem gerðar voru lúta að uppfærslu eldri ákvæða auk skýrari ákvæða um hlutverk stjórnar o.fl. Um er að ræða umfangsmiklar breytingar og þær helstu lúta að stofnun aðildar, réttarstöðu eldri félagsmanna, stöðu aukafélaga, viðurlög, hlutverki og skyldum stjórnar, hæfi stjórnarmanna og hlutverki þeirra. Breytingarnar varða ekki lágmarksákvæði laga ASÍ og er lagt til að þær verði staðfestar.“

R e g l u g e r ð
fyrir Sjúkrasjóð Framsýnar, stéttarfélags
_______________________________________________________
1. grein: Nafn sjóðsins, heimili og sjóðfélagar
1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Framsýnar, stéttarfélags.
1.2 Sjóðfélagar eru þeir sem greitt er af til sjóðsins samkvæmt kjarasamningi og lögum nr. 19, frá 1. maí 1979.
1.3 Sjóðurinn er eign Framsýnar, stéttarfélags. Heimili sjóðsins og varnarþing er á Húsavík.

2. grein: Markmið sjóðsins
2.1  Markmið sjóðsins er að greiða dagpeninga til félagsmanna, sem missa vinnutekjur, vegna sjúkdóma eða slysa.
2.2  Markmið sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum er snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga.
2.3  Sjóðnum er heimilt að greiða styrki eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

3. grein: Tekjur sjóðsins
3.1  Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979.
3.2  Vaxtatekjur og arður
3.3  Gjafir, framlög og styrkir
3.4  Aðrar tekjur, sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.

4. grein: Stjórn og rekstur
4.1 Stjórn sjóðsins skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal skipuð þrem félagsmönnum og er formaður félagsins sjálfkjörinn formaður stjórnar sjóðsins og varaformaður í forföllum hans. Hinir tveir stjórnarmenn og þrír varamenn skulu kjörnir á aðalfundi með sama hætti og stjórn sjóðsins.
4.2 Sjóðnum skal stjórnað í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.
4.3 Sjóðstjórn setur sér starfsreglur og nánari reglur um úthlutun fjár úr sjóðnum.
4.4 Engar greiðslur úr sjóðnum, aðrar en þær sem tilteknar eru í reglugerðinni eru heimilar, og enga upphæð má greiða úr sjóðnum, aðrar en þær er varða daglegan rekstur, nema eftir bókaðri ákvörðun sjóðstjórnar.
4.5 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu fara með allar umsóknir og afgreiðslu úr sjóðnum sem trúnaðarmál.
4.6 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.
4.7 Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa samstarf um úthlutun og afgreiðslu bóta, við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Slíkt fyrirkomulag er þó háð samþykki stjórnar félagsins.

5. grein: Reikningar og endurskoðun
5.1 Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins.
5.2 Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu vera skráðar á nafn hvers sjóðfélaga.
5.3 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins ár hvert.
5.4 Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3.mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær eru á hverjum tíma.

6. grein: Úttekt óháðra eftirlitsaðila
6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.
6.2 Að minnsta kosti fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins. Hann skal semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þess með ársreikningi sjóðsins.
6.3 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn getur staðið við skuldbindingar. Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund félagsins tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. grein: Ávöxtun sjóðsins og eignir
7.1 Stjórn sjóðsins annast vörslu hans og ávöxtun á öruggan hátt, svo sem í ríkisskuldabréfum, skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs eða sveitarfélags, í bönkum og sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með fasteignaveði.
7.2 Heimilt er sjóðnum að eiga fasteignir undir starfsemi sína eða eiga í fasteignum, sem félagið á eða er meðeigandi í.
7.3 Sjóðnum skal heimilt að eiga íbúð/ir fyrir sjóðfélaga sem leita þurfa sér  lækninga eða heilsubótar utan heimabyggðar.
7.4 Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna fari ekki í bága við markmið eða verkefni sjóðsins.
7.5 Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11. gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41. gr. laga ASÍ.

8. grein: Réttindi sjóðfélaga
8.1  Rétt til dagpeninga og styrkja úr sjóðnum öðlast þeir sem greitt er af til sjóðsins samfellt í að minnsta kosti 6 mánuði nema annað sé tiltekið í reglugerðinni.
8.2  Réttur til dagpeninga stofnast frá þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur. Réttur fellur niður þegar sjóðfélagi öðlast rétt til örorkugreiðslna/lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði. Sama á við þegar sjóðfélagi fær launagreiðslur eða ígildi þeirra vegna veikinda eða slysa frá tryggingafélagi.
8.3  Fari sjóðstjórn þess á leit við sjóðfélaga að hann leggi inn umsókn um örorkumat til Tryggingastofnunar og/eða lífeyrissjóðs er hann hefur verið frá störfum vegna veikinda í sex mánuði samfellt eða lengur skal hann verða við þeirri ósk og veita sjóðstjórn upplýsingar um niðurstöður matsins.
8.4  Hafi sjóðfélagi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ og greitt til hans er hann hefur greiðslu til sjóðsins öðlast hann rétt skv. 9. grein.

9. grein: Samskipti sjúkrasjóða
9.1  Sjóðfélagi sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði annars stéttarfélags innan ASÍ, öðlast rétt til sjúkra- og slysadagpeninga hjá sjúkrasjóðnum eftir að hafa greitt í hann í einn mánuð, enda hafi hann fram að því sannanlega átt rétt hjá fyrri sjóðnum.
9.2  Vinni sjóðfélagi á fleirum en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu skal hann greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt.
9.3  Heimilt er að fresta greiðslu bóta þar til staðfesting annarra sjóða liggur fyrir um að sjóðfélagi hafi ekki sótt um greiðslur þar. Sjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa öðrum sjóðum yfirlit um bætur sem greiddar eru vegna sjóðfélagans, tegund og fjárhæð bóta.
9.4  Umsækjanda er skylt að leggja fram með umsókn sinni staðfestar upplýsingar um greiðslur frá öðrum sjóðum og veita aðrar nauðsynlegar upplýsingar um launagreiðslur að viðlögðum réttindamissi.

10. grein: Geymd réttindi
10.1  Sá sem gengur undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði félagsins endurnýjar bótarétt sinn þegar greitt hefur verið til sjóðsins    í einn mánuð enda hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi.
10.2  Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda, heimils aðstæðna eða af öðrum gildum  ástæðum.
10.3  Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði félagsins enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.

11. grein: Dagpeningar og styrkir
11.1  Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:
11.2  Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum greiðast í 180 almanaksdaga (sex mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu fjórum mánuðum. Við langvarandi veikindi sjóðsfélaga er sjóðstjórn heimilt að lengja greiðslutíma dagpeninga, ef hún telur brýna nauðsyn til og fjárhagur sjóðsins leyfir.
11.3  Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu fjórum mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
11.4 Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu sex mánuðum.
11.5 Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 220.000.- krónum miðað við greitt félagsgjald síðustu 12 mánaða. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga, börn eða aðrir aðstandendur. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.
11.6 Dagpeninga skv. 11.2, 11.3 og 11.4 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu sex mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 11.2, 11.3 og 11.4 sem þó sé ekki lægra en kr. 250.000.- á mánuði.
11.7 Réttur skv. 11.2, 11.3 og 11.4 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.
11.8 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðs­fé­laga í formi for­varnar- og endur­hæfingar­styrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysa­kostnaðar.
11.9 Styrkir til stofnana og fé­laga­sam­taka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni.
11.10 Við ráð­stöfun fjár­muna skv. 11.8 og 11.9 skal þess gætt að mögu­leiki sjóðsins til að standa við upp­haf­legar skuld­bindingar sínar vegna sjúk­dóma og slysa skerðist ekki. Í reglu­legri út­tekt á af­komu sjóðsins, skv. 6. gr., skal út­tektar­aðili skoða þennan þátt sér­stak­lega.
11.11 Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.
11.12 Dagpeningar greiðast ekki þegar um varanlega örorku eða ellihrumleika er að ræða, en stjórn sjóðsins er heimilt að verja ákveðinni upphæð, sem ákveðin er hverju sinni, til þeirra sem haldnir eru varanlegri örorku eða ellihrumleika og ekki eiga rétt til dagpeninga. Sú úthlutun skal fara fram í desembermánuði ár hvert.
11.13 Dagpeningar og aðrir styrkir skulu greiddir út mánaðarlega eða samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma.

12. grein: Frávik frá reglum
12.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að víkja frá reglum um bótarétt ef sérstaklega stendur á fyrir sjóðfélaga, svo sem ef hann á í verulegum fjárhagserfiðleikum, hefur ekki stundað fulla vinnu síðastliðna sex mánuði eða önnur atvik réttlæta bótagreiðslur.

13. grein: Forvarnir og endurhæfingarstyrkir
13.1 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðfélaga vegna forvarna, heilsueflingar og endurhæfingar. Skulu fjárhæðir og viðmiðanir ákveðnar í sjóðstjórn.

14. grein: Styrkir til stofnana og félagasamtaka
14.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita stofnunum og félagasamtökum styrki sem snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga. Styrkir samkvæmt þessu ákvæði mega ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar 5% af iðgjaldatekjum hvers árs að jafnaði.

15. grein: Aðrir bótaflokkar – heimild
15.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka í formi líftrygginga, dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.

16. grein: Niðurfelling bótaréttar
16.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn undan greiðsluskyldu um stundarsakir. Sama á við um náttúruhamfarir. Sjóðstjórn getur einnig ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

17. grein: Umsókn um dagpeninga og styrki
17.1 Sá sem óskar greiðslu úr sjóðnum og uppfyllir skilyrði 8. greinar, skal leggja fram skriflega umsókn og tiltekin gögn samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar hverju sinni. Stjórn sjóðsins er heimilt að krefjast þess að umsækjandi um dagpeninga eða styrki leggi fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu sjóðsins.

18. grein: Fyrning bótaréttar
18.1 Greiðsla dagpeninga og styrkja fyrnist, sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að greiðslu atvinnurekanda lauk eða til kostnaðar var stofnað. Á þetta við um allar bótagreiðslur úr sjóðnum.

19. grein: Endurgreiðsla iðgjalda
19.1 Iðgjöld til sjúkrasjóðsins endurgreiðast ekki.

20. grein: Upplýsingaskylda
20.1 Upplýsingar skulu veittar í samræmi við almennar stjórnsýslureglur. Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til aðstoðar með t.d. útgáfu bæklinga eða dreifirita.

21. grein: Málsskotsréttur
21.1 Telji sjóðfélagi að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð hvað varðar umsókn til sjóðsins, sem fellur undir heimildarákvæði reglugerðar þessarar, er honum heimilt að vísa umsókn sinni til stjórnar félagsins. Úrskurður félagsstjórnar er bindandi fyrir stjórn sjúkrasjóðs og sjóðfélaga. Sjá einnig vinnureglu sem samþykkt var á stjórnar og trúnaðarmannaráðsfundi Verkalýðsfélags Húsavíkur 29. janúar 2003.

22. grein: Rekstrarkostnaður og tilhögun greiðslna úr sjóðnum
22.1 Allan beinan kostnað vegna reksturs sjóðsins greiðir hann sjálfur.
22.2 Árlegan kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofu skal ákveða með samkomulagi milli sjóðstjórnar og stjórnar félagsins ár hvert.
22.3 Umsóknum skal skilað í því formi, sem stjórn sjóðsins ákveður ásamt nauðsynlegum vottorðum er tryggja réttmæti greiðslna.
22.4 Umsækjandi skal, ef nauðsyn ber til að mati sjóðstjórnar, heimila trúnaðarlækni sjóðsins að sannreyna réttmæti framlagðra læknisvottorða.
22.5 Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá umsækjanda skal sjóðstjórn hafna umsókn að svo stöddu.

23. grein: Gerðabók
23.1 Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók yfir styrkbeiðnir og styrkveitingar.

24. grein: Breyting á fjárhæðum og styrkjum
24.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.

25. grein Breytingar á reglugerð
25.1 Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda sé þess getið í fundarboði að reglugerðarbreytingar séu á dagskrá. Tillögur um breytingar á reglugerð sjóðsins skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins hálfum mánuði fyrir aðalfund félagsins.
25.2 Tillögum til reglugerðarbreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skilað til félagsstjórnar eigi síðar en við lok febrúarmánaðar ár hvert.
25.3 Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nægir til að reglugerðarbreyting teljist samþykkt.
25.4 Breytingar á reglugerðinni skulu sendar ASÍ þegar þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.

26. grein: Gildistími
26.1 Reglugerðin tekur gildi 1. maí 2008

Reglugerðin var samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008.

Starfsreglur
Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan FS

1. gr. Heiti deildarinnar
Heiti deildarinnar er Deild Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, stéttarfélags.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur deildarinnar er að gæta hagsmuna verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, stéttarfélags í samræmi við lög, reglugerðir og samninga.

3. gr. Félagar
Deildina skipa þeir félagar Framsýnar, stéttarfélags sem á hverjum tíma starfa við verslunar- og skrifstofustörf og falla undir kjarasamninga Landssambands íslenskra verslunarmanna og viðsemjenda þeirra.

4. gr. Verkefni deildarinnar
Verkefni deildarinnar skulu vera:

  • Að vinna að undirbúningi og gerð kjarasamninga fyrir meðlimi deildarinnar í umboði Samninganefndar Framsýnar, stéttarfélags.
  • Að vinna að því að aðbúnaður og vinnuumhverfi í atvinnugreininni sé alltaf í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og samninga.
  • Að vinna að eflingu starfsþjálfunar og menntunar í atvinnugreininni.
  • Að kjósa fulltrúa á ársfund/þing LÍV.
  • Að annast önnur mál, sem snerta atvinnugreinina sérstaklega.
  • Að vinna að því að kjörnir séu trúnaðarmenn á vinnustöðum

5. gr. Aðalfundur
Aðalfund deildarinnar skal halda fyrir 1. febrúar ár hvert. Á aðalfundi skal flytja skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og stjórn skal kosin. Halda skal minnst tvo stjórnarfundi á ári. Stjórnarfund skal halda ef einn stjórnarmaður óskar eftir því. Almennan deildarfund skal halda þegar stjórn telur ástæðu til. Þó skal halda deildarfund ef minnst 10 félagar óska eftir fundi. Aðalfund skal boða með auglýsingu með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef löglega hefur verið til hans boðað. Formaður deildarinnar skal kjörin til tveggja ára. Aðrir stjórnar- og varamenn skulu kjörnir til eins árs.

6. gr. Stjórn
Stjórn deildarinnar skal skipuð þremur mönnum, formanni, varaformanni, ritara og tveimur til vara. Kjósa skal formann sérstaklega fyrst, en síðan tvo stjórnarmenn og tvo til vara. Stjórnarmennirnir tveir skipta með sér verkum, þannig að annar verður varaformaður en hinn ritari. Formaður deildarinnar skal ávalt eiga sæti í aðalstjórn Framsýnar stéttarfélags.

7. gr. Stjórnarkjör
Við stjórnarkjör er heimilt að bera fram munnlega uppástungu eða leggja fram skriflega tillögu. Berist tillögur um fleiri en tvo í stjórn að formanni frátöldum skal kjósa á milli þeirra.  Berist tillögur um fleiri en tvo varamenn í stjórn skal kjósa á milli þeirra.  Þeir hljóta tilnefningu, sem flest atkvæði fá. Kosning má fara fram með handauppréttingu. Þó skal kosning vera skrifleg æski einhver fundarmanna þess.

8. gr. Rekstur
Deildin hefur ekki sjálfstæðan fjárhagslegan rekstur. Ákvarðanir deildarinnar sem hafa fjárútlát í för með sér, þurfa samþykki aðalstjórnar Framsýnar, stéttarfélags.

9. gr. Fundargerð
Halda skal fundargerðabók, þar sem í eru skráðar allar fundargerðir og samþykktir deildarinnar. Ritari skal rita fundargerðir. Þó er heimilt að annar félagsmaður eða starfsmaður riti fundargerðir með samþykki fundarmanna. Formaður og fundarritari undirrita fundargerðir almennra deildarfunda og aðalfunda. Heimilt er að skrá fundargerðir rafrænt í stað þess að þær séu færðar í sérstakar fundargerðarbækur. Skulu fundargerðir stjórnarfunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta reglulegan fund. Formaður stjórnar deildarfundum og aðalfundum nema að hann óski eftir því að fundurinn samþykki annan fundarstjóra. Formaður kallar saman stjórn deildarinnar og skal stjórna stjórnarfundum. Formaður getur falið starfsmönnum félagsins að boða til funda á vegum deildarinnar. Stjórnarmenn skulu allir rita nöfn sín undir fundargerðir stjórnarfunda. Að öðru leyti fer um fundargerðir eins og kveðið er um í starfsreglum Framsýnar stéttarfélags.

10. gr. Breytingar á reglum
Reglur þessar skulu hljóta staðfestingar Landsambands íslenskra verslunarmanna. Breytingar á reglum þessum má einungis gera á aðalfundi deildarinnar í samræmi við lög félagsins, enda sé þess getið í fundarboði, og þurfa þær staðfestingar stjórnar Framsýnar, stéttarfélags og Landsambands íslenskra verslunarmanna.

Þannig samþykkt á stofnfundi félagsins þann 1. maí 2008.

Starfsreglur
Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags

1.gr. Heiti deildarinnar
Heiti deildarinnar er Sjómannadeild Framsýnar stéttarfélags.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur deildarinnar er að gæta hagsmuna sjómanna innan Framsýnar stéttarfélags í samræmi við lög, reglugerðir og samninga.

3. gr. Félagar
Deildina skipa þeir félagar Framsýnar, stéttarfélags sem á hverjum tíma starfa við sjómennsku og falla undir kjarasamning LÍÚ og Sjómannasambands Íslands.

4.gr. Verkefni deildarinnar
Verkefni deildarinnar skulu vera eftirfarandi:

a) Að annast undirbúning og gerð kjarasamninga fyrir meðlimi deildarinnar í umboði Samninganefndar Framsýnar, stéttarfélags.
b) Að taka ákvarðanir í vinnudeilum er varða meðlimi deildarinnar.  Deildarstjórn getur því aðeins lýst yfir vinnustöðvun að almenn atkvæðagreiðsla hafi farið fram um það í deildinni.
c) Að vinna að því að aðbúnaður og vinnuumhverfi í atvinnugreininni sé alltaf í samræmi við það sem lög og samningar kveða á um.
d) Að vinna að eflingu menntunar og starfsþjálfunar í atvinnugreininni.
e) Að annast önnur mál, sem snerta atvinnugreinina sérstaklega.
f) Að kjósa fulltrúa á Sjómannasambandsþing.

5.gr. Aðalfundur
Aðalfundur deildarinnar skal haldinn í desember, ár hvert.  Á aðalfundi skal flytja skýrslu fráfarandi stjórnar fyrir liðið starfsár og kjósa skal stjórn fyrir næsta starfsár.  Halda skal minnst tvo stjórnarfundi á milli aðalfunda.  Stjórnarfund skal halda ef einn stjórnarmaður æskir þess.  Almenna deildarfundi skal halda þegar stjórn telur ástæðu til.  Þó skal halda deildarfund ef minnst fimm félagar óska eftir fundi.  Aðalfund skal boða með auglýsingu með minnst viku fyrirvara.  Aðalfundur telst löglegur ef löglega hefur verið til hans boðað.

6.gr. Stjórn deildarinnar
Stjórn deildarinnar skal skipuð þremur mönnum og tveimur til vara.  Kjósa skal formann sérstaklega fyrst, en síðan tvo stjórnarmenn og síðast tvo varamenn.  Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum, þannig að einn verður varaformaður og annar ritari.

7.gr. Stjórnarkjör
Við stjórnarkjör er heimilt að bera fram munnlega uppástungu eða leggja fram skriflega tillögu.  Berist tillögur um fleiri en tvo í stjórn að formanni frátöldum skal kjósa á milli þeirra.  Berist tillögur um fleiri en tvo varamenn í stjórn skal kjósa á milli þeirra.  Þeir hljóta tilnefningu, sem flest atkvæði fá.  Kosning má fara fram með handauppréttingu.  Þó skal kosning vera skrifleg æski einhver fundarmanna þess.

8.gr. Fjárhagur
Deildin hefur ekki sjálfstæðan fjárhag.  ákvarðanir hennar, sem hafa í för með sér fjárútlát, þurfa samþykki stjórnar Framsýnar, stéttarfélags.  Að öðru leyti hefur deildin fullt sjálfræði um mál sín, svo framarlega sem ákvarðanir hennar og samþykktir ganga ekki gegn lögum félagsins eða starfsreglum þessum.

9.gr. Gjörðabók
Halda skal gjörðabók þar sem í eru skráðar allar fundargerðir og samþykktir deildarinnar.  Ritari skal rita fundargerðir. Þó er heimilt að kveða til þess annan félagsmann eða starfsmann félagsins með samþykki fundarmanna.  Stjórnarmenn skulu allir rita nöfn sín undir fundargerðir stjórnarfunda.  Fundarstjóri og fundarritari undirrita fundargerðir almennra deildarfunda.  Formaður stjórnar fundum deildarinnar nema hann óski eftir því að fundurinn samþykki annan fundarstjóra.  Formaður kallar saman stjórn deildarinnar og stjórnar fundum hennar.

10. gr. Breytingar á reglum
Breytingar á reglum þessum má einungis gera á aðalfundi deildarinnar í samræmi við lög félagsins, enda sé þess getið í fundarboði, og þurfa þær staðfestingar stjórnar Framsýnar, stéttarfélags.

Þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008.

R e g l u g e r ð

fyrir Orlofssjóð Framsýnar, stéttarfélags
__________________________________________________

1.grein
Nafn sjóðsins
Heiti sjóðsins er Orlofssjóður Framsýnar, stéttarfélags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.

2.grein
Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er að auðvelda félagsmönnum Framsýnar, stéttarfélags að njóta orlofs, koma upp og reka orlofsheimili fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra og styrkja félagsmenn til orlofsdvalar og orlofsferða innan lands sem utan.

3.grein
Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:

a) Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins
b) Vaxtatekjur
c) Leigugjöld af orlofshúsum
d) Annað ófyrirséð

4.grein
Stjórn sjóðsins og hlutverk hennar
Á aðalfundi Framsýnar, stéttarfélags annað hvert ár, skal kjósa þriggja manna stjórn, er fari með málefni orlofssjóðs. Kjósa skal tvo varamenn á sama hátt. Stjórnin skal gera tillögur um hvernig fé sjóðsins skuli varið. Úthluta félagsmönnum orlofsdvöl í orlofshúsum félagsins og beita sér fyrir því að félagsmenn njóti orlofs síns til dæmis með sameiginlegum ferðalögum, sem orlofssjóður kostaði eða tekur þátt í að greiða. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja orlofsferðir á vegum eldri  félagsmanna eða Félags eldri borgara. Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa samvinnu við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslu um úthlutun orlofshúsa og önnur þau mál er varða starfsemi orlofssjóða stéttarfélaganna.

5.grein
Greiðslur úr sjóðnum
Allar greiðslur úr sjóðnumaðrar en þær er varða daglegan rekstur hans, rekstrargjöld orlofshúsa, leigu orlofshúsa í eigu annarra og/eða til annarrar venjubundinnar starfsemi á vegum sjóðsins, skulu háðar samþykki félagsstjórnar. Á þetta einkum við um greiðslur sem ekki hafa áður verið hluti af hefðbundinni starfsemi sjóðsins, eða ef upphæðir teljast umtalsverðar miðað við þá starfsemi sem er á vegum hans á hverjum tíma. Stjórn félagsins skal ákveða hver verði hlutfallsleg þátttaka sjóðsins í rekstrarkostnaði félagsins.

6.grein
Endurskoðun
Endurskoðendur sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur félagsins.

7.grein
Varsla á fjármunum sjóðsins
Stjórn félagsins annast vörslu sjóðsins á sem tryggilegastan máta, er tryggi verðgildi og ávöxtun hans.

8. grein
Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins, með samþykki 2/3 hluta atkvæða.

Þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008

R e g l u g e r ð

fyrir Fræðslusjóð Framsýnar, stéttarfélags
__________________________________________________________

1. grein
Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Framsýnar, stéttarfélags og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.

2. grein
Tilgangur
Tilgangur sjóðsins er alhliða fræðslustarfsemi með sérstakri áherslu á:

  • nám sem tengist starfi félagsmanna
  • starfsemi stéttarfélaga og sögu þeirra
  • aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum
  • samskipti starfsfólks og laungreiðenda
  • samskipti starfsfólks innbyrðis
  • að hvetja og styrkja félagsmenn til þess að afla sér aukinnar menntunar
  • önnur málefni er varða starf og tómstundir félagsmanna

3. grein
Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:

a) Samningsbundin iðgjöld atvinnurekenda á hverjum tíma.
b) 5% af innheimtum félags- og vinnuréttindagjöldum
c) Viðbótarframlög frá félagssjóði, sem ákveðin eru hverju sinni
d) Vaxtatekjur.
e) Námskeiðsgjöld.
f) Aðrar tekjur.

4. grein
Stjórn sjóðsins
Þrír félagsmenn skipa stjórn sjóðsins, og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Kosnir skulu tveir varamenn á sama hátt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður félagsins kallar stjórnina saman til fyrsta fundar.

5. grein
Verksvið stjórnar
Stjórnin skipuleggur fræðslustarfsemi á vegum sjóðsins til dæmis fræðslufundi, námskeiðahald og útgáfu fræðslurita eða dreifingu fræðslurita frá öðrum. Stjórnin skal gera áætlun um starfið á vegum sjóðsins á hverjum tíma og skal hún kynnt félagsmönnum. Í því sambandi er stjórninni heimilt að taka þátt í og fela sameiginlegri fræðslunefnd stéttarfélaganna í S-Þing. skipulagningu og undirbúning námskeiðahalds. Auk eigin námskeiðahalds getur stjórnin styrkt einstaka félagsmenn til náms í Félagsmálaskóla alþýðu, til að sækja fræðslunámskeið um verkalýðsmál eða námskeið, sem tengjast störfum viðkomandi félagsmanns, sem aðrir standa fyrir.

Stjórnin getur veitt fé til ritunar á sögu félagsins eða einstökum þáttum hennar. Varsla sjóðsins skal vera með sama hætti og gildir um aðrar eignir félagsins. Um útborganir fer eftir fyrirmælum sjóðsstjórnar.

6. grein
Ágreiningur
Verði ágreiningur um fjárveitingar úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð.

7. grein
Ávöxtun sjóðsins
Laust fé fræðslusjóðs skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar félagsstjórnar og er félagssjóður þá ábyrgur fyrir endurgreiðslu, þegar fræðslusjóður þarf á fé sínu að halda. Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins.

8. grein
Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar atkvæða séu þeim fylgjandi.

Reglugerðin þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008.

Reg l u g e r ð

fyrir Vinnudeilusjóð Framsýnar, stéttarfélags
________________________________________________________

1. grein
Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður Framsýnar, stéttarfélags og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.

2. grein
Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er:
a) Að veita fjárhagslega aðstoð þeim félagsmönnum, sem missa atvinnutekjur vegna verkfalla eða verkbanna.
b) Að greiða beinan kostnað félagsins vegna vinnudeilna.
c) Að styrkja önnur stéttarfélög, sem eiga í langvarandi vinnudeilum og
þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

3. grein
Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:

a) 15 prósent af innheimtum félags- og vinnuréttindagjöldum.
b) Viðbótarframlag félagssjóðs eftir því sem aðalfundur hverju sinni kann að ákvarða.
c) Vaxtatekjur.
d) Frjáls framlög félagsmanna og annarra.

4. grein
Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur félagsmönnum, kosnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Á sama hátt skulu kosnir tveir varamenn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður félagsins kallar stjórnina saman til fyrsta fundar.

5. grein
Verksvið stjórnar
Stjórnin ákveður styrkveitingar úr sjóðnum. Styrki samkvæmt c-lið 2. greinar má þó því aðeins greiða út, að einnig liggi fyrir samþykki félagsstjórnar. Stjórnin skal halda gerðabók yfir fundi sína, styrkbeiðnir og styrkveitingar. Stjórnin úrskurðar einnig um aðrar greiðslur úr sjóðnum. Um útborganir fer eftir fyrirmælum sjóðsstjórnar.

6. grein
Ávöxtun sjóðsins
Með vörslu sjóðsins skal farið með sama hætti og aðrar eignir félagsins. Fé sjóðsins skal ávaxtað á sem bestan og tryggilegastan hátt, í banka, sparisjóði, eða í viðurkenndum verðbréfum. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samning við lánastofnun um lánveitingar til sjóðsins, þegar vinnudeila stendur yfir. Slíkur samningur skal þó háður samþykki félagsstjórnar, sem jafnframt skal samþykkja hvenær nýta beri ákvæði slíks lánasamnings í vinnudeilu. Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur félagsins.

7. grein
Greiðslur úr sjóðnum
Eigi má veita félagsmanni styrk úr sjóðnum nema hann hafi verið fullgildur félagsmaður áður en viðkomandi vinnudeila hófst og sé skuldlaus við félagið.

8. grein
Ágreiningur
Verði ágreiningur um úthlutun úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð.

9. grein
Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi, og ná því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar atkvæða séu þeim fylgjandi.

Reglugerðin þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008.

Reglur
um ritun, form og varðveislu fundargerða Framsýnar, stéttarfélags

Reglur þessar taka til fundargerða stjórnar félagsins, nefnda, ráða og stjórna á vegum  Framsýnar, stéttarfélags.

1. grein
Fundargerðir skal rita í gerðabók í samræmi við lög og fundarsköp félagsins.

2. grein
Heimilt er að ráða sérstakan fundarritara til að annast ritun fundargerða í gerðabók og skráningu þeirra í tölvu.

3. grein
Í fundargerð skal getið hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji fundinn. Skrá skal þau mál sem tekin eru fyrir, dagsetningu þeirra, aðila máls og meginefni og hvernig mál er afgreitt. Sé mál ekki afgreitt samhljóða skal greina í fundargerð hvernig atkvæði hafa skipst. Mál sem tekin eru fyrir á lokuðum fundi stjórnar félagsins eða sjúkrasjóðs skal skrá sem trúnaðarmál og skal halda sérstaka gerðabók vegna umfjöllunar og afgreiðslu þeirra. Sama gildir um umfjöllun og afgreiðslu trúnaðarmála í nefndum, ráðum og stjórnum. Í lok fundar skal fundargerð lesin upp og skulu allir viðstaddir fundarmenn undirrita hana. Þó skal heimilt að ganga frá fundargerð aðalstjórnar og trúnaðarráðs að loknum fundi og skal hún þá tekin til afgreiðslu í upphafi næsta fundar þar á eftir.

4. grein
Heimilt  er að skrá fundargerðir í tölvu. Sé það gert skal bóka í gerðabók númer fundar, hvar og hvenær fundurinn er haldinn og að fundargerð sé færð í tölvu. Þá skal færa í gerðabók fundarslit og greina blaðsíðutal fundargerða. Allir viðstaddir fundarmenn skulu rita nöfn sín við slit fundar í gerðabók.

5. grein
Í lok fundar skal tölvuskráð fundargerð prentuð út og hún undirrituð af fundarmönnum. Einnig skal formaður og ritari setja upphafsstafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerða sem blaðsíðusettar skulu í áframhaldandi töluröð.

6. grein
Undirritaðar tölvuskráðar fundargerðir skulu reglulega bundnar inn í bók  til varanlegrar varðveislu. Til að tryggja þá varðveislu sem best skulu fundargerðirnar prentaðar á sýrufrían pappír.

7. grein
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins á hverjum tíma.

Þannig samþykkt á stofnfundi Framsýnar, stéttarfélags 1. maí 2008.

Siðareglur Framsýnar stéttarfélags

1.   Siðareglur
Í reglum þessum á „fulltrúi Framsýnar“ við um alla fulltrúa þess í stjórnum, nefndum og ráðum svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd félagsins og gegna trúnaðarstörfum fyrir það. Reglurnar eiga einnig við um starfsmenn félagsins. Ákvæði siðareglna félagsins eiga við hvort heldur fulltrúi Framsýnar þiggur laun fyrir störf sín eða ekki.

2.    Trúnaðargögn
Þegar unnið er með persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, í starfsemi Framsýnar eða sjóða á vegum þess skal farið með þær upplýsingar skv. lögum um persónuvernd nr.77/2000. Slíkra upplýsinga skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum og gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal eyða þeim með fullnægjandi hætti.  Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á lögum um persónuvernd nr.77/2000.

3.  Ábyrgð
Fulltrúi Framsýnar er bundinn af lögum, reglugerðum og samþykktum félagsins á hverjum tíma og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála. Honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi. Um hæfi í einstökum málum fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga skv. lögum nr.37/1993.

4.   Hagsmunir
Fulltrúi Framsýnar sem tilnefndur hefur verið til setu í stjórnum, nefndum eða ráðum annarra samtaka, félaga eða stofnana skal fylgja eftir samþykktum og stefnumálum Framsýnar í störfum sínum. Fulltrúar félagsins skulu og vinna að hagsmunamálum félagsmanna Framsýnar í störfum sínum fyrir félagið. Fari sannfæring viðkomandi fulltrúa  ekki saman við stefnumál eða samþykktir félagsins skal viðkomandi gera stjórn Framsýnar grein fyrir afstöðu sinni þegar í stað.

5.    Þagnarskylda
Fulltrúa Framsýnar  ber að gæta þagnarskyldu um það sem hann kann að verða áskynja um í starfi sínu eða erindum fyrir félagið og leynt á að fara samkvæmt lögum og eðli máls.
Þagnarskyldan helst áfram eftir að látið er af störfum.

6.   Fundargögn og fundargerðir
Fulltrúum Framsýnar og starfsmönnum er óheimilt að birta eða dreifa skjölum sem varðveitt eru í vinnuumhverfi starfsfólks, stjórnar og trúnaðarmannaráðs, nefndum eða á öðrum vettvangi eða í aðstöðu félagsins.
Skjöl sem varða mál sem hafa verið afgreidd af stjórn Framsýnar eða viðeigandi stjórn, ráði  eða nefnd og ekki eru merkt sérstaklega sem „trúnaðarmál“ er stjórn Framsýnar, viðeigandi stjórn, ráði eða nefnd heimilt að birta opinberlega enda varði þau ekki einkamálefni sem njóta persónuverndar samanber 2. grein.
Gögn sem lögð eru fyrir stjórn sjúkrasjóðs og siðanefnd félagsins og sem varða einstaklingsmálefni skulu ávalt vera trúnaðargögn. Fundargerðir aðalstjórnar, stjórna deilda og trúnaðarráðs skulu ávalt vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og heimilt er að birta þau gögn svosem í fréttabréfi og á heimasíðu félagsins.

7.   Boðsferðir
Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að þiggja boðsferðir/kynnisferðir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra eða erindum fyrir félagið nema talið sé að slíkar ferðir hafi upplýsingagildi fyrir félagið og starfsemi þess eða geri þá hæfari til að sinna hlutverki sínu. Stjórn félagsins skal fjalla um boðs- og kynnisferðirnar og ákveða hvort rétt sé að fulltrúi félagsins taki þátt í ferðinni eða ekki.

8.  Gjafir
Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að þiggja gjafir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra eða erindum fyrir félagið. Þeim er þó heimilt að taka við gjöfum sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan hóflegra marka.  Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að hafa áhrif á hvert félagið beinir viðskiptum sínum. Þeim er einnig óheimilt að hafa milligöngu um viðskipti við aðila er líta má á sem tengdan þeim sjálfum. Með tengdum aðila er til dæmis átt við fyrirtæki í eigu þeirra sjálfra að fullu eða að hluta, maka eða barna og tengdabarna og/eða annarra náinna skyldmenna. Fulltrúum Framsýnar sem eru félagar í óskyldum félagasamtökum er óheimilt að beita sér fyrir því að Framsýn veiti viðkomandi félagasamtökum fjárstuðning eða beini viðskiptum sínum sérstaklega til viðkomandi samtaka. Ákvæði þetta gildir um hvers kyns fjársafnanir og samskot.

9. Virðing
Fulltrúar Framsýnar skulu vera félagi sínu til sóma og gæta þess að virða þær reglur sem gilda á fundum, þingum og öðrum ráðstefnum sem Framsýn stendur að, eða á aðild að í gegnum landssambönd. Þetta á einnig við um náms- og kynnisferðir sem félagið stendur fyrir á hverjum tíma sem og aðrar ferðir á vegum félagsins sem falla undir starfsemi þess.

10. Jafnrétti
Fulltrúar Framsýnar skulu hafa jafnrétti að leiðarljósi og vinna gegn hvers kyns fordómum og mismunun.

11. Siðanefnd
Siðanefnd skal skipuð þremur fulltrúum félagsins kjörnum á aðalfundi, að auki skal velja tvo varamenn. Skal skipunartímabil nefndarinnar vera það sama og stjórnar og trúnaðarmannaráðs, það er tvö ár. Nefndin getur kallað til lögmann félagsins sem verði nefndinni til ráðgjafar.

12. Hlutverk siðanefndar
Hlutverk siðanefndar verður að leggja mat á hvort tiltekin atvik eða kringumstæður séu brot á siðareglum félagsins. Sjá frekar hlutverk og verklag í meðfylgjandi starfsreglum siðanefndar.

13. Viðurlög við brotum á siðareglum
Teljist fulltrúi Framsýnar hafa brotið siðareglur félagsins vísast á siðanefnd að koma með tillögu til stjórnar um viðbrögð við brotinu.

14. Málskotsréttur
Viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi skal fá tækifæri til að standa fyrir máli sínu og svigrúm til að afla gagna ef þörf er á, áður en siðanefnd félagsins skilar skýrslu um málið. Samhliða því sem siðanefnd leggur skýrslu sína fyrir stjórn félagsins skal viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi fá að skila inn greinagerð sinni og andsvari við skýrslu siðanefndar til stjórnar Framsýnar. Nánari skilgreiningu má sjá í meðfylgjandi fylgiskjali. Teljist fulltrúi í stjórn Framsýnar hafa brotið siðareglur félagsins víkur hann af fundi á meðan fjallað er um málið. Ef ágreiningur er um niðurstöðu stjórnar skal málinu vísað í sérstakan gerðadóm skipaðan af A.S.Í.

15. Breytingar á reglugerðinni
Reglum þessum er aðeins hægt að breyta á aðalfundi félagsins enda hafi þær verið auglýstar í fundarboði.

Fylgiskjal með siðareglum Framsýnar

  • Siðanefnd hefur það hlutverk með höndum að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum Framsýnar.
  • Kærur til siðanefndar skulu vera skriflegar og berast formanni Siðanefndar Framsýnar, Garðarsbraut 26, 640 Húsavík. Mikilvægt er að nákvæmlega sé tilgreint hvers kæran nær til og við hvaða grein siðareglnanna meint brot á við.
  • Formaður kallar aðra fulltrúa siðanefndar til fundar þegar kæra berst, ásamt því að láta þeim í té þau gögn sem borist hafa.
  • Siðanefnd tekur afstöðu til þess hvort einhver fulltrúa nefndarinnar sé vanhæfur til þess að úrskurða í máli sem henni berst. Reynist svo vera,  skal kallaður til varamaður.
  • Við upphaf málsmeðferðar kannar siðanefnd hvort þeim kröfum sem siðareglur gera til kærenda hafi verið fullnægt.  Sé svo ekki skal kæru vísað frá og kæranda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar.
  • Siðanefnd skal bjóða báðum aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Hún skal einnig óska eftir skriflegri greinargerð beggja aðilja.
  • Siðanefnd ákveður hverjir aðrir skulu koma fyrir nefndina, og hvaða viðbótargagna skuli aflað.
  • Kæranda er heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en siðanefnd hefur undirritað úrskurð sinn.
  • Siðanefnd kveður upp rökstuddan skriflegan úrskurð og birtir málsaðilum auk stjórnar félagsins.
  • Siðanefnd ritar fullskipuð undir úrskurði. Sératkvæði skulu birt með úrskurði meirihlutans.
  • Siðanefnd fer með gögn mála, önnur en kæru og úrskurð nefndarinnar, sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.
  • Formaður siðanefndar er talsmaður hennar út á við.

Samþykkt á stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundi 24. janúar 2013