Góða fólkið í verkalýðshreyfingunni

Það hefur verið athyglisvert eða heldur sorglegt að fylgjast með formannskjörinu í Eflingu sem nú stendur yfir. Að fylgjast með „Góða fólkinu“ innan verkalýðshreyfingarinnar sem hefur markvisst unnið að  því að koma í veg fyrir að Sólveig Anna nái endurkjöri. Góða fólkið hefur einnig stigið fram og gagnrýnt ákveðna forystumenn innan hreyfingarinnar fyrir það eitt að koma hreint fram með stuðningsyfirlýsingar við Sólveigu Önnu. Góða fólkið hefur jafnframt talað um dómgreindarleysi þessara sömu formanna að skipta sér opinberlega af formannskjöri í öðrum stéttarfélögum. Góða fólkinu líkar ekki hreinskilni og heiðarleiki þar sem það er yfir aðra hafið.

Góða fólkið vinnur verk sín í hljóði svo vitnað sé í þeirra eigin skrif, það er ekki dómgreindarbrestur. Það lækar hins vegar og „commentar“ út og suður og tekur þannig undir níðgreinar á  samfélagsmiðlum um framboð Sólveigar Önnu.

Góða fólkið hefur verulega miklar áhyggjur af starfsmannahaldinu hjá Eflingu, en skautar fram hjá stöðunni hjá Alþýðusambandi Íslands sem mætti skora hærra í starfsánægju starfsmanna samkvæmt könnunum. Góða fólkið er ekki að eyða tíma í að velta fyrir sér starfsmannaveltunni á skrifstofu ASÍ. Góða fólkið lokar augunum fyrir því öllu saman til að halda völdum innan hreyfingarinnar. Það sá heldur ekkert athugunarvert við það að setja milljónatugi af skatttekjum ASÍ í misheppnaða auglýsingaherferð fyrir síðustu alþingiskosningar. Það er í stað þess að skila skatttekjunum aftur til aðildarfélaga sambandsins eða gefa þá til góðgerðarmála, sem stæði hreyfingunni heldur nær. Góða fólkið er kannski ekki alveg með tilgang stéttarfélaga á hreinu enda tímafrekt að koma sér áfram í hreyfingunni.

Góða fólkið sem var í aftursætinu við gerð Lífskjarasamningana hefur séð ástæðu til að tala þá niður af mikilli vankunnáttu, en þeir eru með merkilegustu kjarasamningum sem gerðir hafa verið frá Þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.  Reyndar ber að fyrirgefa Góða fólkinu það, þar sem þau voru ekki í bílstjórasætinu við gerð síðustu kjarasamninga. Þau stéttarfélög sem klufu sig út og leiddu kjaraviðræðurnar eiga heiður skilið, sem og starfsfólk þeirra stéttarfélaga og Alþýðusambands Íslands. Góða fólkinu og okkur hinum ber að sýna öllum starfsmönnum verkalýðshreyfingarinnar fulla virðingu fyrir þeirra mikilvægu störf í þágu félagsmanna. Annað er einfaldlega ekki í boði.

Góða fólkið er þrátt fyrir allt mannlegt, enda með kvíðahnút í maganum vegna formannskjörsins í Eflingu, það er ófriður í lofti og mönnum er ekki svefnsamt. Góða fólkið afneitar breytingum þar sem það vill viðhalda gömlum viðhorfum og óttast því endurkomu Sólveigar Önnu sem boðað hefur umfangsmiklar breytingar á verkalýðsbaráttu á Íslandi. Það hriktir í stoðunum.  Góða fólkið veit að nái Sólveig Anna ekki kjöri sem formaður Eflingar eru frekar rólegir tímar framundan í íslenski verkalýðsbaráttu, sem þóknast þeim ágætlega, sem og Samtökum atvinnulífsins. Vonandi tekst Góða fólkinu sem vinnur verk sín í hljóði ekki að valda íslenskri verkalýðsbaráttu frekara tjóni með því að koma í veg fyrir að Sólveig Anna nái kjöri sem formaður Eflingar enda sé það vilji félagsmanna Eflingar sem eru full færir til að velja sér formann og forystusveit. Þeirri niðurstöðu ber að unna. Góða fólkið sem byrgir glugga og deyfir ljós til að halda leynifundi í skúmaskotum með útvöldum aðilum s.s. um Salek og formannskjör í Eflingu. Góða fólkið sem innst inni veit að það er löngu tímabært að kalla eftir breytingum innan hreyfingarinnar. Góða fólkið afgreiðir þá sem nýta sér dagsljósið til að kalla eftir róttækari verkalýðsbaráttu, með þeim orðum að þau séu athyglissjúk. Góða fólkið velur að vinna verk sín í hljóði, að húka í skugganum, þar sem baktjaldamakkið þrífst með miklum ágætum, enda eru þau á því að stærstu sigrarnir vinnist ekki með steyttum hnefum, svo vitnað sé í þeirra eigin ummæli.

Vonandi kemur sá tími að Góða fólkið áttar sig á mikilvægi samstöðunnar þar sem heildarhagsmunnir verkafólks verði hafðir að leiðarljósi, ekki persónulegir hagsmunnir einstakra forystumanna innan hreyfingarinnar. Sá tími er löngu liðinn sem betur fer.