Framsýn fordæmir stríðsrekstur Rússa í Úkraínu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags samþykkti rétt í þessu að fordæma stríðsrekstur Rússa í Úkraínu. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

“Framsýn stéttarfélag fordæmir harðlega innrás Rússlands inn í annað sjálfstætt og fullvalda ríki með tilheyrandi eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur saklausu fólki sem verður fyrir barðinu á stríðsrekstri Pútíns.

Innrás og ógnartilburðir Rússlands í Úkraínu eiga sér enga réttlætingu og eru auk þess alvarlegt brot á alþjóðalögum. Framsýn krefst þess að Rússar stöðvi þegar í stað hernaðaraðgerðir sem þegar hafa valdið miklum hörmungum.

Hugur Framsýnar er hjá Úkraínsku þjóðinni sem á um sárt að binda um þessar mundir, en ekki síður hjá þeim Úkraínumönnum er lifa  og starfa í öðrum þjóðlöndum, óttast um afdrif ættingja og vina en geta á engan hátt komið þjóð sinni til hjálpar. Framsýn biðlar til íslenskra stjórnvalda að þau greiði götu flóttafólks frá Úkraínu sem neyðist til að flýja land sitt og hingað leitar, um leið og stjórnvöld komi skýrum skilaboðum á framfæri við Rússa að þeir afvopnist þegar í stað og hypji sig heim til Rússlands.”

Þannig samþykkt á fundir stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar stéttarfélags mánudaginn 28. febrúar 2022.