Ríkissáttasemjari með námsstefnu á Húsavík

Síðustu daga hefur ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, ættaður frá Bakka við Húsavík staðið fyrir námstefnu í samningagerð á Fosshótel Húsavík. Fullbókað var á námstefnuna en um 50 þátttakendur taka þátt í námsstefnunni.

Markmiðið með námstefnum er að stefna saman öllum sem sæti eiga í samninganefndum og vinna að kjarasamningagerð í landinu. Þátttakendum gefst einstakt tækifæri til að bæta vinnubrögðin við kjarasamningagerðina, læra nýjustu aðferðir, deila reynslu og efla marksækni og fagmennsku við samningaborðið.

Síðdegis í gær var komið að því að gera smá hlé á námsstefnunni eftir strangan dag og heimsækja stéttarfélögin á Húsavík. Forsvarsmenn stéttarfélaganna tóku vel á móti gestunum og fóru yfir starfsemi félaganna auk þess að gefa þeim smá gjöf frá framleiðendum á svæðinu. Tónlistarmaðurinn, Stefán Jakobsson, leit við og tók lagið við mikinn fögnuð gesta sem rómuðu mjög móttökurnar.

Aðalsteinn Leifsson kastaði þessari vísu á nafna sinn og formann Framsýnar:

„Enginn tekur eftir þér,
auðmjúkur nafni minn.
Hógvær, hlýðinn eins og smér,
hófsami drengurinn.“

Formaður Framsýnar og nafni ríkissáttasemjara svaraði fyrir sig og kastaði fram þessari limru með „smá aðstoð“ frá varaformanni Framsýnar:

„Ég byrjaði ungur að karpa, 
við mér eldri og reyndari garpa.
Vildi ólmur og ör bæta almúgans kjör,
taka samningalotu snarpa.

Enn er til nokkurs að hlakka,
við samninga enn um sinn makka.
Til sátta ég mæti, enda hressi og kæti
ég nafna minn litla frá Bakka.“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari frá Bakka vð Húsavík flutti ræðu í gær þar sem hann þakkaði stéttarfélögunum fyrir góðar móttökur auk þess að færa formanni Framsýnar smá gjöf sem vakti töluverða athygli enda stutt í grínið hjá þeim ágæta heiðursmanni.
Að sjálfsögðu er fullt af frábærum tónlistarmönnum í Framsýn, einn af þeim er Stefán Jakobsson sem leit við og tók nokkur lög sem gestirnir kunnu vel að meta.
Þessar, þær gerast ekki betri, hér er verið að undirbúa komu gestana í gær. Ósk, Guðmunda og Guðný eru að leggja lokahönd á veitingarnar. Veiga og Hermína Hreiðars formaður STH voru inn í sal að gera allt klárt.