Bréf Framsýnar til Fjármálaeftirlitsins vekur mikla athygli

Bréf Framsýnar stéttarfélags til Fjármálaeftirlitsins hefur vakið mikla athygli. Þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsins sem virðist gera allt til að útiloka almennra sjóðsfélaga til að taka þátt í stjórnum lífeyrissjóða. Síminn á Skrifstofu stéttarfélaganna logaði í gær eftir að Mbl/Morgunblaðið fjallaði um málið auk þess sem frétt var um málið inn á heimasíðu Framsýnar. Allir sem hafa haft samband hafa þakkað Framsýn fyrir að taka málið upp til umræðu. Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandið fjallaði um málið á reglulegum fundi í gær, þar er tekið undir með Framsýn eftir eftirfarandi ályktun:

„Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands tekur heilshugar undir áhyggjur aðildarfélaga sambandsins sem hafa með bréfum til Fjármálaeftirlitsins gert alvarlegar athugasemdir varðandi mat á hæfi almennra sjóðfélaga til að gegna stjórnarsetu í stjórnum lífeyrissjóða. Svo virðist sem unnið sé að því að útiloka þá frá stjórnarsetu í lífeyrissjóðum. Það er, þrátt fyrir að þeir hafi verið kjörnir til að gegna þessum störfum í þágu sjóðfélaga.

Framkvæmdastjórnin  skorar á ASÍ að hefja þegar í stað viðræður við Fjármálaeftirlitið um aðgengi almennra sjóðfélaga að stjórnun lífeyrissjóða.“

Samþykkt á fundi 23. febrúar 2022.

Til viðbótar má geta þess að forseti ASÍ, Drífa Snædal, hefur þegar haft samband við formann Framsýnar. Mikill vilji er innan sambandsins að taka málið upp við Fjármálaeftirlitið.