Stéttarfélögin þurftu nýlega að endurnýja ljósritunarvél á skrifstofu félaganna á Húsavík. Það var við hæfi að færa Karlakórnum Hreimi gömlu vélina að gjöf enda þarf kórinn á öflugri vél að halda til að ljósrita söngtexta fyrir meðlimi kórsins sem stefnir að líflegu starfi í vetur eftir því sem best er vitað. Það hefur þó ekki fengist staðfest hjá forsvarsmönnum kórsins. Karlakórinn Hreimur var stofnaður í janúar 1975. Kórfélagar, sem í dag eru um 60, láta ekki miklar vegalengdir aftra sér frá því að stunda sitt áhugamál og sækja hollan og uppörvandi félagsskap sem gefur þeim mikla lífsfyllingu. Kórinn hefur lengi haft æfingaraðstöðu í Hafralækjarskóla í Aðaldal.