Aðalsteinn Árni áfram í stjórn Fiskifélagsins

Aðalfundur Fiskifélags Íslands fór fram í vikunni en hann var haldinn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 16. nóvember. Eftir fundinn stóð Fiskifélagið fyrir málþingi með yfirskriftina. „Fiskur og Covid.“Báðir fundirnir fóru vel fram. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var kjörinn í stjórn sem annar af tveimur fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands en nokkur samtök sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi tilnefna í níu manna stjórn félagsins.  Aðalseinn Árni var auk þess fundarstjóri á aðalfundinum. Þá var Kristján Þórarinsson kjörin formaður Fiskifélagsins en hann var fulltrúi á fundinum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, SFS.

Til fróðleiks má geta þess að Fiskifélagið eru elstu samtök í sjávarútvegi landsmanna og má rekja stofnun félagsins til þess að á síðari hluta 19. aldar jókst áhugi manna mjög á eflingu sjávarútvegs í landinu. Markmið Fiskifélags Íslands hefur frá upphafi verið að efla hag og hvers konar framfarir í íslenskum sjávarútvegi og veita hinu opinbera umbeðna þjónustu. Starfsemin er aðallega tvíþætt, félagsmálastörf og þjónusta við hið opinbera, útveg og fiskvinnslu.