Öflugt starf hjá Hjálparsveit skáta í Reykjadal

Björgunarsveitir Landsbjargar eru sjálfboðaliðasamtök sem njóta mikillar virðingar meðal landsmanna og líklega finnst flestum mikilvægt að í hverju samfélagi séu einstaklingar sem bregðast við af þekkingu og færni þegar eitthvað ber út af. Það er heldur ekki ofsögum sagt að undanfarin ár hafi náttúruöflin  minnt rækilega á sig með jarðskjálftum, ofsaveðrum, ofanflóðum  og eldgosi og af þeim sökum hefur mætt mikið á sveitunum.

Á aðalfundi Framsýnar síðastliðið vor var ákveðið að styðja við starfsemi  björgunarsveitanna á félagssvæðinu með tæplega tveggja milljóna króna fjárframlagi, en á svæðinu eru starfandi sjö öflugar sveitir. Með því vill félagið sýna örlítinn þakklætisvott fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem björgunarsveitirnar vinna í þágu samfélagsins.

 Í gærkvöldi heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir, ásamt Guðnýju Ingibjörgu Grímsdóttur, Hjálparsveit skáta í Reykjadal. Það var Andri Hnikar Jónsson formaður sveitarinnar sem veitti 250.000 kr,-. gjöf Framsýnar viðtöku ásamt nokkrum félögum sveitarinnar. Færði Andri Hnikar fulltrúum Framsýnar bestu þakkir fyrir gjöfina. Sagði hann Hjálparveitina nýlega hafa kostað töluvert til tækjakaupa, auk þess væri unnið að byggingu nýs og stærra húsnæðis og það kæmi sér vel að fá stuðning við svo kostnaðarsöm verkefni.

Það var afar ánægjulegt að koma í Reykjadalinn og hitta félaga HSR sem voru á leið á námskeið í fyrstu hjálp. Það vakti athygli gestanna hversu margir ungliðar voru mættir í hús, en einn þeirra þátta í starfi björgunarsveita sem verður seint full metinn er hversu mikilvægu hlutverki sveitirnar gegna varðandi félagslagslega uppbygging ungmenna víða um land. Kom fram í máli Andra Hnikars að meðlimir í HSR, sérstaklega unga fólkið hafi verið duglegt að sækja sér menntun undanfarið ár hjá Björgunarskóla Landsbjargar.

Meðlimir HSR eru um 60 talsins og er núverandi húsnæði þeirra í Iðnbæ.