Kalla eftir endanlegum svörum

Eins og fram hefur komið hefur Framsýn átt í viðræðum við Húsasmiðjuna um ákvörðun fyrirtækisins um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og íbúa í nærliggjandi sveitarfélögum með lokunina. Forsvarsmenn Framsýnar hafa komið þessum skilaboðum vel á framfæri við stjórnendur Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins á Húsavík sem horfa fram á atvinnumissi um áramótin. Framsýn hefur formlega skorað á Húsasmiðjuna að endurskoðaða fyrri ákvörðun um að loka versluninni um næstu áramót. Slík orðsending fór frá félaginu í síðustu viku. Beðið er eftir endanlegu svari. Húsasmiðjan hefur vissulega gefið út í fjölmiðlum að verslun fyrirtækisins á Húsavík verði lokað um næstu áramót en hugsanlega verði sölumaður áfram á þeirra vegum með aðstöðu á Húsavík. Reyndar er óljóst hvaða form verður á þeirri þjónustu verði hún að veruleika. Slík þjónusta kemur ekki í staðinn fyrir verslun á svæðinu.

Miðað við alla þá uppbyggingu sem er í gangi og framundan er í Þingeyjarsýslum verður ekki séð hvernig menn ætla að framkvæma hlutina verandi ekki með byggingavöruverslun á svæðinu, það er á einu heitasta svæði landsins fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Fram að þessu hefur verið góður grundvöllur fyrir því að reka byggingavöruverslun á Húsavík.

Á undanförum árum hefur verið töluverð þensla í Þingeyjarsýslum. Í því sambandi má nefna byggingu PCC á Bakka, jarðgöng við Húsavík, íbúðabyggingar á Húsavík, hótelbyggingar í Þingeyjarsýslum og byggingu orkuvers á vegum Landsvirkjunar á Þeistareykjum.

Frekari uppbygging í Öxarfirði er framundan upp á nokkra milljarða er tengist fiskeldi, bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík er að hefjast með 60 rýmum. Í viðmiðum er gert ráð fyrir að hámarki 65 fermetra brúttórými fyrir hvert hjúkrunarrými. Heildarstærð 60 rýma hjúkrunarheimilis verður því að hámarki 3 900 m2 auk viðbótarrýma sveitarfélagsins.

Grænir iðngarðar á Bakka eru til skoðunar sem og bygging á Þaraverksmiðju sem er í burðarliðnum. Reyndar er um að ræða sögulegar framkvæmdir enda verði þær að veruleika en þeim er ætlað að veita hundruðum starfsmanna atvinnu. Gangi þessar framkvæmdir eftir verður mikil þörf fyrir alls konar nýbyggingar s.s. íbúðarhúsnæði á komandi árum.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ekki annað að sjá en að umtalsverðar framkvæmdir séu framundan á svæðinu á næstu árum fyrir utan frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu þegar hún nær vopnum sínum eftir Covid sem kallar án efa á öfluga byggingavöruverslun í héraðinu. Þá má ekki gleyma endalausri framkvæmdagleði íbúa á svæðinu sem fram að þessu hafa verið fastir viðskiptavinir Húsasmiðjunnar á Húsavík.

Verktakar hafa kallað eftir því að Framsýn boði til fundar með verktökum á svæðinu til að ræða málin, það er hvernig best verði að bregðast við, hætti Húsasmiðjan alfarið rekstri á Húsavík um áramótin. Slíkur fundur er í skoðun. Þá hefur fjöldi fólks á svæðinu einnig hvatt félagið til að berjast fyrir því að hér verði áfram rekin byggingavöruverslun. Eftir þeirri áætlun er unnið þessa dagana og vikurnar.

Okkar fólk með miðið í lagi

Rosa Millán Roldán sem kemur frá Spáni starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Hún ásamt  Kristjáni Arnarsyni, fengu boð í byrjun september um að koma og taka þátt í úrtökumóti í riffilskotfimi með 22LR riffli í Lissabon í Portúgal. Keppt var um þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fer fram 2022. 

Þeim Rosu og Kristjáni var boðið í ljósi árangurs þeirra í mótum á Íslandi en þau hafa unnið til verðlauna í yfir 30 skipti á árinu 2021 í ýmsum riffilgreinum. Rosa og Kristján eru í tveimur efstu sætunum hér heima í þessari grein í tveimur flokkum og Íslandsmeistarar í greininni 2021. 

Á mótinu í Portúgal var verið að keppa um rétt til þátttöku í heimsmeistaramótinu sem fer fram í Frakklandi í september 2022. 

Rosa og Kristján þáðu boðið og skelltu sér til Barcelona þann 24. september og keyrðu þaðan  þvert yfir Spán og yfir til Lissabon. Þegar þangað var komið voru nokkrar æfingar teknar á skotvellinum með skyttum frá öðrum löndum. Mótið hófst síðan 26. september. Meðal þátttakanda var m.a. ríkjandi heimsmeistari í greininni Pedro Serralheiro ásamt öllum öðrum toppskyttum Portúgals.

Bæði Rosa og Kristján stóðu sig afar vel á mótinu og gáfu öðrum skyttum á mótinu ekkert eftir. Í stuttu samtali við heimasíðuna sögðust þau hiklaust geta borið sig saman við keppendur frá öðrum þjóðum í þessari grein og því geta borið höfuðið hátt. Þau hafa nú þegar skráð sig  á heimsmeistaramótið í Frakklandi 2022 og hafið undirbúning fyrir World Cup í Tékklandi 2023.

Samstarfsfólk Rosu á Skrifstofu stéttarfélaganna óska henni og Kristjáni til hamingju með árangurinn.

Narfastaðir til fyrirmyndar

Það er alltaf ánægjulegt að koma í Narfastaði í Reykjadal. Þar er rekin myndarleg ferðaþjónusta og ekki skemmir fyrir að þar er metnaðarfullt starfsfólk sem leggur mikið upp úr því að skapa góða umgjörð og stemningu á staðnum. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar bar að garði um síðustu helgi voru Unnsteinn, Heiðbjört, Ásgeir, Berglind og Rósa Ösp að störfum enda mikið að gera, nánast fullt hús af gestum.

Allir skápar fullir af kexi

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands skrifaði grein inn á heimasíðu sambandsins er varðar mikilvægi starfsmanna á skrifstofum stéttarfélaga. Ekki er ólíklegt að skrifin séu tilkomin vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um starfsmenn Eflingar. Því miður hafa fyrrverandi stjórnendur félagsins talið ástæðu til að ráðast ansi harkalega að starfsheiðri starfsmanna. Hér má lesa greinina eftir Flosa Eiríksson:

Hugsjónafólk í starfi

Undanfarin tæplega 3 ár hef ég verið svo gæfusamur að starfa hjá Starfsgreinasambandinu. Á þeim tíma hefur verið gengið frá aðalkjarasamningi á almennum vinnumarkaði, kjarasamning við Ríkið og samtök sveitarfélaga og sérkjarasamningum. SGS hefur einnig haldið þing sitt á þessum árum, fræðsludaga starfsfólks og fleira svo fátt eitt sé nefnt af verkefnunum.

Í þessu starfi hef ég átt mikil samskipti og samstarf við starfsfólk aðildarfélaga SGS um land allt, en hjá félögunum 19 starfa að jafnaði 80 til 100 manns ef allt er talið. Mín reynsla af þessu fólki er að það brennur fyrir starfi sínu og baráttumálum hreyfingarinnar. Þetta fólk er í daglegum samskiptum við félagsmenn, hvort það er á skrifstofum félagsins, í eftirlitsferðum á vinnustöðum eða bara í sundi, hvert í sinni heimabyggð. Þau leggja sig fram um að aðstoða og liðsinna okkar félagsmönnum, hjálpa þeim að sækja rétt sinn og verja kjör þeirra og aðbúnað.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi er stórt og kraftmikið afl sem starfar í þágu launafólks. Það er auðvelt að missa sjónar á því, en hreyfingin varð það alls ekki sjálfkrafa. Um það ber rúmlega aldargömul saga um átök og baráttu ríkulegt vitni. Það er gott og heilbrigt að það sé í gangi lífleg umræða um starfið í verkalýðshreyfingunni, stefnu hennar og starfshætti. Hún er lifandi hreyfing sem á að vera óhrædd við að ræða leiðir til að efla og bæta lífskjör í landinu. Um það eiga forystu- og félagsmenn að takast á um á félagslegum vettvangi.

Starfsfólk hreyfingarinnar um land allt, hvort sem það er hjá aðildarfélögum SGS eða öðrum stéttarfélögum eiga ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum, nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf.

Skrifstofur aðildarfélaga SGS eru mannaðar af fólki sem leggur sig fram um að þjónusta sína félagsmenn af kostgæfni og gæta þeirra réttinda, alla daga, allt árið um kring. Sú þjónusta er eitt þeim hlutverkum sem félagsmenn kunna best að meta og sækja mikið í. Við eigum að tala þessa þjónustu upp, vekja á henni athygli og hvetja fólk til að sækja það sem þau þurfa til sinna félaga og taka þátt í starfi þeirra.

Flosi Eiríksson

Taktu þátt í mótun kröfugerðar Framsýnar

Á næstu mánuðum mun Framsýn hefja vinnu við mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins, sveitarfélögin og ríkið. Samningar eru lausir haustið 2022 en viðræður við Samtök atvinnulífsins munu væntanlega hefjast á vormánuðum 2022. Stjórn Framsýnar sér ekki ástæðu til að bíða eftir kallinu heldur hefur ákveðið að hefja vinnu við mótun kröfugerðar sem verði lokið í mars á næsta ári hvað varðar kröfugerðina fyrir almenna félagsmenn innan Framsýnar. Við hvetjum félagsmenn til að koma sínum skoðunum á framfæri við félagið sem fyrst. Kröfur almennra félagsmanna verður grunnurinn að kröfugerð félagsins og lögð fyrir Samtök atvinnulífsins til frekari umræðu. Ykkar skoðanir skipta öllu máli, komið þeim á framfæri við félagið á netfangið kuti@framsyn.is. Koma svo félagar, það er okkar að berjast fyrir betri kjörum!

Stjórn Framsýnar stéttarfélags

Er ekki bara best að vera í Framsýn?

Við bjóðum félagsmönnum upp á fjölmarga styrki, það er starfsmenntastyrki og aðra styrki sem miða að því efla heilsufar félagsmanna og takast á við tekjutap vegna veikinda með greiðslu sjúkradagpeninga eftir að veikindarétti lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki:

  • Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga fullgildir félagsmenn rétt á kr. 130.000,- námsstyrk á ári. Geymdur 3 ára réttur félagsmanna getur numið allt að kr. 490.000,- með viðbótarframlagi frá Framsýn.
  • Fullgildir félagsmenn eiga rétt á kr. 150.000,- í fæðingarstyrk frá félaginu.
  • Fullgildir félagsmenn eiga rétt á kr. 150.000,- vegna tæknifrjóvgunar.  Greitt er fyrir tvær meðferðir.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að fjóra mánuði vegna eigin veikinda eftir að kjarasamningsbundnum veikindarétti lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að þrjá mánuði enda verði þeir fyrir tekjutapi vegna alvarlegra veikinda maka.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að þrjá mánuði vegna alvarlegra veikinda barna eftir að kjarasamningsbundnum veikindarétti vegna veikinda barna lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki.

-Það þarf ekki að koma á óvart að Framsýn er eitt eftirsóttasta stéttarfélag landsins-

Brjálað að gera í Húsasmiðjunni

Það er ekki auðvelt að skilja ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Síðasta föstudag átti starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna leið í verslunina til að kaupa timbur. Til að gera langa sögu stutta var brjálað að gera í timburdeildinni og þó nokkuð löng bið eftir afgreiðslu eins og oft áður enda mikið að gera hjá starfsmönnum. Stórir sem smáir bílar komu og fóru með vörur. Sjá mátti bónda úr Mývatnssveit vera að kaupa timbur, staura og girðingarefni. Annar bóndi úr Aðaldalnum var sömuleiðis að kaupa timbur og járn fyrir sitt bú. Verktaki sem kemur að uppbyggingunni í Öxarfirði, er tengist fiskeldi upp á nokkra milljarða, var að versla rör og fleira. Þá voru þó nokkrir heimamenn að skoða kaup á ýmsum varningi og leita tilboða sem og verktakar.

Frá og með næstu áramótum verður þessi þjónusta ekki lengur í boði fyrir Þingeyinga og þá sem fram að þessu hafa getað verslað í Húsasmiðjunni. Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur Framsýn gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun fyrirtækisins um að skella í lás á gamlársdag sem er glórulaus ákvörðun.

Framsýn fordæmir vinnubrögð SA og Bláfugls með yfirlýsingu

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega framgöngu Bláfugls og Samtaka atvinnulífsins vegna ólögmætra uppsagna félagsmanna FÍA. Um er að ræða algjört virðingarleysi gangvart starfsmönnum fyrirtækisins og grófa atlögu að grundvallarréttindum launafólks á Íslandi.

Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls og krefst þess að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins standi við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms sem dæmt hefur uppsagnir starfsfólks í kjaraviðræðum ólögmætar.

Samtökum atvinnulífsins ber að sjálfsögðu að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði í stað þess að verja gjörning sem þennan hjá fyrirtæki sem ekki virðir settar leikreglur.

Framsýn krefst þess að Samtök atvinnulífsins hætti þessu uppistandi þegar í stað og virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla með því að koma vitinu fyrir stjórnendur Bláfugls. Svona gera menn einfaldlega ekki í siðmenntuðu þjóðfélagi.“

Áhugavert námskeið í boði

Þú hefur áhrif hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eður ei – og það oft jafnvel þó svo að þú ætlir þér það ekki. GLS er heimsklassa ráðstefna þar sem frábært tækifæri gefst til þess að fá aðgang að ríkulegu innsæi frá heimsklassa fyrirlesurum sem allir eiga það sameiginlegt að vera reiðubúnir til þess að byggja þig upp og hvetja þig áfram í leiðangri þínum að betri forystu – hvar sem þú hefur áhrif.

Þessari alþjóðlegu ráðstefnu, GLS, verður streymt með íslenskum texta föstudaginn 5. nóvember og allt sem þarf til að tengjast er sími eða tölva. Þau sem hafa tök á því geta líka mætt í sal Framsýnar/stéttarfélaganna við Garðarsbraut 26 á Húsavík og notið ráðstefnunnar með öðrum á stórum skjá með ilmandi kaffi við höndina í félagsskap annarra. – Það næsta sem hægt er að komast því að vera staddur á stórri heimsráðstefnu á faraldstímum.

Skráning á GLS ráðstefnuna fer fram á gls.is en meðlimir í Framsýn geta komið með greiðslukvittun á skrifstofu félagsins og sótt um allt að 90% endurgreiðslu ráðstefnugjalds. Á heimasíðu GLS á Íslandi má jafnframt finna frekari upplýsingar um dagskrá, fyrirlesarana og efni fyrirlestra þeirra. Af innslögum frá gestum af fyrri GLS ráðstefnum á Íslandi að dæma má gera ráð fyrir að efni og innihald hafi umtalsverð jákvæð áhrif. Þetta er því tækifæri sem enginn ætti að láta framhjá sér fara enda hver er ekki í þörf fyrir hvatningu og innblástur, fyrir ferskar hugmyndir og uppörvun.

Hvetja til aðhalds í gjaldskrárhækkunum

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skorar á ríki, sveitarfélög og aðra þjónustuaðila að gæta aðhalds í gjaldskrárhækkunum og hækkunum á vöru og þjónustu. Þessi skilaboð koma fram í ályktun frá félaginu sem samþykkt var á fundi í vikunni.

Ályktun
-Um almennar  gjaldskrárhækkanir-

„Framsýn stéttarfélag hvetur til aðhalds á gjaldskrárhækkunum ríkis og sveitarfélaga, nú þegar flest sveitarfélögin eru að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Verðbólga fer nú vaxandi í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Sem dæmi mælist 4% verðbólga í Þýskalandi sem er sú hæsta í landinu eftir upptöku Evrunnar. Ástæðan er ekki síst hærra orkuverð og þá er útlit fyrir að truflanir á aðfangakeðjum og aðrar afleiðingar heimsfaraldursins muni  hafa  frekari áhrif á verðbólguna á næstu misserum.

Alþjóðlega hefur matvara og iðnaðarvara hækkað verulega í verði sem og aðrir þættir sem hafa áhrif á afkomu heimila í viðkomandi löndum. Þessi þróun erlendis mun hafa áhrif á Íslandi.

Það er því verulegt áhyggjuefni ef ríki og sveitarfélög ýta frekar undir verðbólgu með gjaldskrárbreytingum og hækkun á opinberri þjónustu á sama tíma og vextir hafa farið hækkandi á Íslandi.

Vöruverð, verðbólga og vaxtahækkanir geta haft afdrifaríkar afleiðingar á kjör almennings og gert það að verkum að komandi launahækkanir um áramótin haldi ekki í við kaupmátt launa.

Við það verður ekki unað og standa því spjótin á  stjórnvöldum og sveitarfélögum að draga úr áhrifum á almenning. Þá er ekki í boði að þjónustuaðilar og verslunareigendur standi hjá og axli ekki ábyrgð er kemur að hækkunum á vöru og þjónustugjöldum. Það verða allir að spila með eigi að vera hægt að halda verðbólgunni í lágmarki og tryggja kaupmátt launa.

Framsýn kallar eftir þjóðarátaki gegn verðbólgu, öllum til hagsbóta“

Pósturinn með fingurinn á lofti

Póst­ur­inn ohf. sendi nýlega frá sér tilkynningu um gríðarlegar hækk­an­ir á mörg­um liðum verðskrár sinn­ar frá og með 1. nóv­em­ber 2021. Fram til þessa dags hef­ur verðskrá hins op­in­bera fyr­ir­tæk­is miðast við að sama verð gildi um allt land, líkt og krafa löggjafans hef­ur verið, og hef­ur það jafnt átt við um pakka­send­ing­ar sem skilað er í póst­box og pakka­port eða heimsend­ing­ar og send­ing­ar sem skilað er á póst­hús. Ljóst er að þessar verðbreytingar koma sér afar illa fyrir landsbyggðina. Hækkanirnar voru til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í vikunni. Reiði var meðal fundarmanna með þessar miklu hækkanir. Samþykkt var að álykta um málið.

Ályktun
-Um verðskrárhækkanir hjá Póstinum-

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega ákvarðanir Póstsins um að hækka verðskrár fyrirtækisins sem beinast eingöngu að landsbyggðinni. Póst­ur­inn ohf. hefur boðað verulegar hækk­an­ir á flestum liðum verðskrár sinn­ar frá og með 1. nóv­em­ber 2021 sem koma sér afar illa við íbúa og atvinnulífið á landsbyggðinni.

Fram til þessa dags hef­ur verðskrá hins op­in­bera fyr­ir­tæk­is miðast við að sama verð gildi um allt land, líkt og krafa lög­gjaf­ans hef­ur verið. Samkvæmt boðuðum verðskrárbreytingum nem­ur hækkunin í mörg­um til­vik­um tug­um pró­senta og jafnvel yfir 100%. 

Með þessum glórulausu hækkunum er Pósturinn að senda íbúum í hinum dreifðu byggðum fingurinn. Um er að ræða mikilvægt byggðamál sem hefur áhrif á útgjaldaliði heimilanna, ekki síst fjarri höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld geta ekki setið hjá og látið þetta óréttlæti  viðgangast. Fyrir liggur að það er vitlaust gefið sem er ólíðandi með öllu.

Framsýn stéttarfélag auglýsir eftir byggðastefnu stjórnvalda sem hafi það að leiðarljósi að koma í veg fyrir mismunun sem þessa.“

Okkar félagsmaður bestur

Sæþór Olgeirsson var nýlega valinn besti leikmaðurinn í 2. deild karla í fótbolta auk þess sem hann varð einnig markahæstur í deildinni. Að sjálfsögðu er Sæþór félagsmaður í Framsýn. Það var því við hæfi að færa honum bol og húfu frá félaginu. Við óskum Sæþóri til hamingju með frábæran árangur á knattspyrnuvellinum í sumar.

Framsýn mótmælir lokun Húsasmiðjunnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar á þriðjudaginn. Miklar umræður urðu um ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og samfélagsins í Þingeyjarsýslum með ákvörðun fyrirtækisins. Auk þess mun lokunin hafa áhrif á aðra verslun og þjónustu á svæðinu þar sem Húsasmiðjan hefur dregið að sér viðskiptavini úr nágrenninu sem um leið hefur nýtt sér aðra þjónustu á Húsavík. Ekki er annað vitað en að verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík hafi gengið vel enda hefur mikið verið um framkvæmdir á stór Húsavíkursvæðinu á undanförnum árum og eru frekari framkvæmdir fyrirhugaðar á næstu árum sem kallar á öfluga byggingavöruverslun á svæðinu. Þess vegna ekki síst kemur ákvörðun Húsasmiðjunnar verulega á óvart. Vitað er að Húsasmiðjan hefur lagt í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir á Akureyri við byggingu á nýju verslunarhúsnæði um leið og verslunum fyrirtækisins á Húsavík og Dalvík verður lokað. Á fundi Framsýnar í vikunni kom skýrt fram að starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík væru til fyrirmyndar, en stæðu nú frammi fyrir því að verða hugsanlega atvinnulausir um áramótin sem væri miður. Einnig kom fram að formaður Framsýnar hefur fundað með starfsmönnum og boðið fram aðstoð félagsins sem þeir hafa tekið vel.

Forsvarsmenn Framsýnar hafa undanfarið fundað með stjórnendum Húsasmiðjunnar og komið á framfæri óánægju með lokuninna um leið og fyrirtækið hefur verið hvatt til að endurskoða ákvörðuninna. Fyrirtækið hefur ekki orðið við ósk félagsins.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti því samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Ályktun
-Lokun Húsasmiðjunnar hörmuð-

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags harmar þá ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót.

Forsvarsmenn Framsýnar hafa í samtölum við stjórnendur Húsasmiðjunnar ítrekað mikilvægi þess að fyrirtækið haldi starfseminni áfram á Húsavík, ekki síst þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram á komandi árum.

Vissulega er eðlilegt að menn endurskoði rekstrarforsendur á hverjum tíma og bregðist við því með viðeigandi hætti s.s. með breyttu fyrirkomulagi á verslun og þjónustu. En að loka versluninni er reiðarslag þar sem vitað er að góður rekstrargrundvöllur er fyrir því að reka byggingavöruverslun á stað eins og Húsavík sem þjóni verktökum og öðrum viðskiptavinum í Þingeyjarsýslum.

Á sama tíma og Húsasmiðjan boðar lokanir á verslunum sínum á Dalvík og Húsavík fjárfestir fyrirtækið í dýru verslunarhúsnæði á Akureyri. Með lokun minni verslananna hyggst fyrirtækið ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðisins. 

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðri  þróun verslunar í dreifbýlinu sem í auknum mæli hefur verið að flytjast til stærri þéttbýliskjarna með tilheyrandi viðbótar kostnaði fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Við þessari þróun þarf að bregðast þegar í stað enda brýnt byggðamál.“

Færðu Björgunarsveitinni Þingey gjöf

Fyrir helgina færðu fulltrúar Framsýnar Björgunarsveitinni Þingey kr. 250.000,- að gjöf til kaupa á björgunarbúnaði fyrir sveitina. Þannig vill Framsýn stuðla að öflugu starfi sveitarinnar á svæðinu, íbúum og öðrum vegfarendum til öryggis. Með gjöfinni vill félagið jafnframt þakka björgunarsveitinni fyrir óeigingjörn störf í þágu samfélagsins. Það voru forsvarsmenn Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir sem afhentu Steinari Karli Friðrikssyni formanni Þingeyjar gjöfina, en höfuðstöðvar Þingeyjar eru á Melgötu 9. Ljósavatnsskarði.

Ljósritunarvél í boði

Stéttarfélögin hafa endurnýjað ljósritunarvél á skrifstofu félaganna. Áhugasömum, ekki síst félagasamtökum stendur til boða að fá gömlu vélina gefins en hún er vel nothæf til prentunnar næstu árin. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna hjá forstöðumanni, Aðalsteini Árna Baldurssyni sem er með netfangið kuti@framsyn.is. Koma svo!

Meistari Tryggvi heilsaði upp á formann Framsýnar

Tryggvi Ástþórsson varaformaður Verkalýðsfélags Suðurlands var staddur á Húsavík um síðustu helgi. Að sjálfsögðu leit hann við hjá formanni Framsýnar sem bauð honum í heimsókn á skrifstofu félagsins þar sem hann fékk fræðslu um starfsemi Framsýnar auk þess sem félgarnir tóku stöðuna á verkalýðshreyfingunni.

Félagsliðar funda um sín mál

Fræðsludagur félagsliða verður haldinn laugardaginn 30. október í húsnæði Starfsgreinasambands Íslands að Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Fundartími 13:00-16:00.

Fræðsludagurinn er haldinn einu sinni á ári og tilgangur dagsins er að fá alla félagsliða í landinu til að koma saman og ræða sín mál. Dagskráin er byggð á kynningum og fræðslu fyrir félagsliða sem geta svo nýtt sér það í starfi og þekkingu. Fræðsludagurinn er í boði fyrir alla félagsliða á landinu óháð stéttarfélagi. Félagsliðar innan Framsýnar sem hafa áhuga á að fara á fundinn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins. Fjölmennum á daginn og sýnum samstöðu.

Vetrarstarfið að hefjast á vegum Framsýnar

Stjórn- og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 26. október kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Stjórn Framsýnar- ung er einnig boðuð á fundinn. Með þessum fundi hefst öflugt vetrarstarf á vegum félagsins, framundan eru þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar og þá mun Framsýn hefja vinnu á næstu vikum við mótun á kröfugerð félagsins vegna komandi viðræðna við Samtök atvinnulífsins. Annars er dagskrá fundarins eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Málefni formanns félagsins

4. Kjaramál- undirbúningsvinna

5. Samkomulag við hvalaskoðunarfyrirtæki

6. Ríkissáttasemjari- heimsókn 16. nóv

7. Dagatöl/minnisbækur 2022

6. Jólafundur félagsins/kjör á undirbúningsnefnd

7. Jólaboð stéttarfélaganna

8. Þing

– Así ung

– Lív

– Sjómannasamband Íslands

– Þing SGS

– Þing AN

9. Lögfræðiþjónusta

10. Málefni Þorrasala

11. stjórn Framsýnar-ung

12. Önnur mál