Orlofsíbúð í boði á Spáni

Félagsmönnum Framsýnar, Þingiðnar og STH stendur til boða tveggja herbergja íbúð í Alicante á Spáni. Um er að ræða íbúð á neðri hæð í litlu fjölbýli með nokkuð stóru útisvæði sem tilheyrir þessari íbúð eingöngu. Auk svefnherbergis er baðherbergi, rúmgóð stofa, eldhús og þvottahús með þvottavél. Í heildina eru svefnstæði fyrir fjóra í tvíbreiðu rúmi í herbergi og svefnsófa í stofunni. Í húsinu eru rúmföt og tuskur. Íbúðin er í lokuðum íbúðarkjarna með sér sundlaug og útisvæði. Frá flugvellinum í Alicante er um 40 km að íbúðinni. Auðvelt er að komast að henni frá flugvellinum með rútu, leigubíl eða bílaleigubíl.

Margvísleg afþreying er á svæðinu, svo sem bátsferðir, skemmtisiglingar og fleira. Þá er í göngufæri verslunarkjarni þar sem finna má úrval verslana s.s. Primark og H&M. Einnig er stutt í matvöruverslanir s.s. Carrefour. Nokkur flugfélög hafa verið að fljúga frá Keflavík til Alicante.

Vetrartími frá 1. október – 31. mars, vikuleiga kr. 42.000,- og hver dagur eftir það á kr. 5.000,-. Frá þessu verði dragast til viðbótar sérkjör félagsmanna kr. 1.500 per. dag sem gist er í íbúðinni.

Félagsmenn geta fengið íbúðina leigða í allt að 14 daga enda sé hún laus. Ekki er vitlaust að miða tímabil dvalar við hvenær ódýrast er að fljúga til Alicante.

Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið linda@framsyn.is

Hvaða skattabreytingar taka gildi um áramót?

Um ára­mót taka gildi ýms­ar skatta­breyt­ing­ar sem snerta bæði heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu. Fjár­málaráðuneytið fjall­ar um helstu efn­is­atriði breyt­ing­anna en nán­ari upp­lýs­ing­ar um ein­stak­ar breyt­ing­ar má finna í grein­ar­gerðum viðkom­andi laga­frum­varpa á vef Alþing­is.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu, að um ára­mót­in muni nýtt viðmið um þróun þrepa- og skatt­leys­is­marka tekju­skatts ein­stak­linga taka gildi. Breyt­ing­in sé síðasti áfangi skatt­kerf­is­breyt­inga fyr­ir ein­stak­linga síðustu ár, þar sem tekju­skatt­ur hafi lækkað tals­vert – mest hjá tekju­lægri hóp­um.

„Þrepa- og skatt­leys­is­mörk munu þá þró­ast í takt við vísi­tölu neyslu­verðs að viðbættu mati á lang­tíma­fram­leiðni. Miðað verður við 1% fram­leiðni­vöxt á ári sem tekið verður til end­ur­skoðunar á fimm ára fresti, næst vegna staðgreiðslu­árs­ins 2027. Skatt­leys­is­mörk munu því hækka um­fram það sem þau gerðu þegar einnig verður tekið mið af fram­leiðniaukn­ingu. Sama viðmið verður hér eft­ir notað við upp­færslu skatt­leys­is- og þrepa­marka þannig að skatt­byrði mis­mun­andi tekju­hópa þró­ist ekki með ólík­um hætti til lengri tíma litið. Áður fylgdu þrepa­mörk efsta þreps­ins launa­vísi­tölu en skatt­leys­is­mörk fylgdu vísi­tölu neyslu­verðs. Mis­mik­il hækk­un skatt­leys­is- og þrepa­marka hef­ur leitt til þess að hlut­falls­leg skatt­byrði ein­stak­linga í neðri hluta tekju­dreif­ing­ar­inn­ar hef­ur hækkað meira en hjá ein­stak­ling­um í efri hluta tekju­dreif­ing­ar­inn­ar án þess að sér­stök ákvörðun liggi fyr­ir þar um. Sam­tals hækka viðmiðun­ar­fjár­hæðir tekju­skatts um 6,1%. Skatt­hlut­föll tekju­skatts til rík­is­ins verður óbreytt ásamt meðal­útsvari,“ seg­ir í til­kynn­ingu fjár­málaráðuneyt­is­ins. 

Barna­bæt­ur

Þríþætt­ar breyt­ing­ar á barna­bót­um eru boðaðar um ára­mót­in. Fjár­hæðir barna­bóta munu hækka á bil­inu 5,5% til 5,8%. Þá munu neðri skerðing­ar­mörk tekju­stofns barna­bóta hækka um 8,0% og efri skerðing­ar­mörk um 12%.

Trygg­inga­gjald

Í árs­byrj­un 2022 mun tíma­bund­in lækk­un á al­menna trygg­inga­gjald­inu, sem var hluti af aðgerðapakka stjórn­valda vegna efna­hags­áhrifa kór­ónu­veirunn­ar, renna sitt skeið á enda. Skatt­hlut­fall al­menns trygg­inga­gjalds mun því fara úr 4,65% í 4,9%. Trygg­inga­gjald í heild breyt­ist þannig úr 6,1% í 6,35%.

Erfðafjárskatt­ur

Skatt­frels­is­mark erfðafjárskatts tek­ur ár­legri breyt­ingu miðað við þróun vísi­tölu neyslu­verðs og hækk­ar úr 5.000.000 kr. í 5.255.000  árs­byrj­un 2022. Er það í sam­ræmi við samþykkt­ar breyt­ing­ar við af­greiðslu fjár­laga 2021 þar sem skatt­frels­is­markið var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og skyldi fram­veg­is taka ár­lega breyt­ingu miðað við þróun vísi­tölu neyslu­verðs. Skatt­hlut­fallið helst óbreytt.

Nán­ar hér. 

(Þessi frétt er tekin af mbl.is)

Starfsmenn í hátíðarskapi

Forsvarsmenn Framsýnar komu við í verslun Samkaupa í Mývatnssveit rétt fyrir jólin. Þar voru þau Helgi Aðalsteinn, Helgi James Price og Malina Luca að störfum. Þau voru ánægð með lífið og tilveruna, enda mikið að gera í versluninni fyrir jólin og því ekki yfir neinu að kvarta.

Vilja ljúka kjarasamningi við hvalaskoðunar fyrirtækin

Þess var krafist á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar fyrir áramótin að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi fyrir sjómenn á hvalaskoðunarbátum. Ályktað var um málið.

Ályktun um áhugaleysi hvalaskoðunarfyrirtækja fyrir kjörum starfsmanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember skorar á hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík að klára samningagerð við félagið sem fyrst.

Framsýn hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um endurnýjun á samningi við fyrirtækin. Kjarasamningnum er ætlað að tryggja starfsmönnum á sjó ákveðin kjör fyrir þeirra störf og að þeir séu tryggðir með sambærilegum hætti og aðrir sjómenn sem gegna hliðstæðum störfum hjá öðrum hvalaskoðunarfyrirtækjum.  Annað er ólíðandi með öllu.

Aðalfundurinn telur það vera algjört virðingarleysi við starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja að þeir séu samningslausir á sjó. Framsýn hefur ítrekað krafist þess að viðræðurnar yrðu kláraðar með samningi, en þrátt fyrir það hefur það ekki gengið eftir. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að samningsaðilar setjist niður og klári viðræðurnar með samningi á næstu vikum.

Samið við Sókn lögmannsstofu

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa samið við Sókn lögmannstofu á Egilsstöðum um að þjónusta félögin frá og með næstu áramótum. Lögfræðiþjónustan fellst í því að lögmannsstofan mun veita ráðgjöf til starfsmanna stéttarfélaganna í daglegum störfum þeirra er varða hagsmuni félagsmanna, kjarasamningsbundin réttindi, innheimtumál og slysamál og eftir atvikum á málum á öllum sviðum lögfræðinnar er starfsmenn stéttarfélaganna ákveða að vísa til lögfræðistofunnar. Sókn lögmannsstofa var stofnuð haustið 2010 af þremur lögmönnum, Hilmari Gunnlaugssyni, Jón Jónsson og Evu Dís Pálmadóttir. Áður höfðu þau starfað saman í lögmennsku um árabil. Öll hafa þau leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti og Hæstarétti Íslands.  Hjá Sókn lögmannsstofu  er að finna breiða þekkingu á ýmsum sviðum lögfræðinnar. Framkvæmdastjóri Sóknar lögmannsstofu er Eva Dís Pálmadóttir sem jafnframt verður aðallögmaður stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Það eru; Framsýn stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur, Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Skýr krafa til útgerðarmanna, kjarasamning strax!

Miklar og góðar umræður urðu á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar í gær um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Ályktun um kjaramál sjómanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember gagnrýnir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) harðlega fyrir vanvirðingu þeirra í garð sjómanna. Sjómenn hafa nú verið samningslausir í tvö ár. Vegna áhugaleysis útgerðarmanna er ekki að sjá að samningar takist á næstu mánuðum og árum. Sjómenn geta ekki látið útgerðarmenn komast endalaust upp með hroka og virðingarleysi gagnvart stéttinni. Hvar væru útgerðarmenn án sjómanna?

Aðalfundurinn krefst þess að SFS gangi nú þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands með það að markmiði að ljúka samningagerðinni sem fyrst.

Hagnaður útgerðarinnar hefur verið um 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali. Það ætti því ekki að reynast SFS þung byrði að koma til móts við kröfur sjómanna s.s. með 3,5% viðbótarframlagi í lífeyrissjóði eins og aðrir launþegar hafa í dag sem þykir sjálfsagður réttur. Kostnaðaraukinn af þeirri aðgerð er innan við eitt þúsund milljónir króna á ári.

Sjómenn, hingað og ekki lengra! Það er okkar að sækja fram og krefjast þess að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi við sjómannasamtökin. Vilji sjómanna er að það verði gert með friðsamlegum hætti. Sé það hins vegar vilji SFS að hunsa sjómenn eitt árið enn sér Sjómannadeild Framsýnar fyrir sér að blásið verði til aðgerða strax á nýju ári til að knýja á um gerð kjarasamnings.

Að venju fjörugur fundur hjá sjómönnum

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær. Fundurinn var fjörugur og urðu snarpar umræður ekki síst um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér tvær ályktanir um kjaramál. Þá var stjórn deildarinnar endurkjörin, hana skipa; Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari, Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi, Héðinn Jónasson meðstjórnandi.

Undir liðnum kjaramál á fundinum kom fram að núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í tvö ár. Því miður hafa SFS dregið lappirnar í samningaviðæðunum í stað þess að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna.

Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Um þessar mundir eru hins vegar fyrirhugaðar viðræður við LS sem ber að fagna.

Viðræður við útgerðarmenn innan SFS hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til samtakanna varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 og ástandsins í þjóðfélaginu reyndi Sjómannasambandið að koma með mjög hógværar enn sanngjarnar kröfur svo hægt yrði að ganga frá nýjum kjarasamningi. Í því sambandi var helstu ágreiningsmálum lagt til hliðar til að liðka fyrir gerð kjarasamnings til tveggja ára, því var hafnað af hálfu SFS.

Hvað kjarasamningsgerðina varðar skulum við hafa í huga að háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður á sínum tíma þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, s.s. athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum sem og um skiptimannakerfið. Þessari vinnu er langt frá því að vera lokið. Staðan í dag er sú, að aðeins ein bókun hefur verið kláruð sem fólst í athugun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir sem er miður fyrir sjómenn.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, það er grein 1.29.1. gildi ekki lengur og falli út úr samningnum sem felur í sér lækkun á skiptaprósentunni um 0,5% þegar landað er hjá skyldum aðila. Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur. Þessi vinnubrögð endurspegla vinnubrögð SFS og þurfa ekki að koma mönnum á óvart sem þekkja til vinnubragða útgerðarmanna.

Þegar ákveðið var við undirritun kjarasamningsins í febrúar 2017 að lengja samningstímann frá því að vera til loka árs 2018 til 1. desember 2019 var hækkun á kauptryggingunni sem vera átti 1. desember 2018 frestað til 1. maí 2019. Samhliða var sett inn ákvæði um að launahækkun sem yrði á almenna vinnumarkaðnum á árinu 2019 kæmi einnig á kauptryggingu og kaupliði hjá sjómönnum. Þegar á reyndi stóðu útgerðarmenn ekki við þetta 9 ákvæði kjarasamningsins og neituðu að hækka kauptrygginguna um þá hækkun sem varð á launatöxtum á almenna vinnumarkaðnum. SSÍ vísaði deilunni til Félagsdóms, en tapaði málinu þar. Fulltrúi ASÍ í Félagsdómi greiddi atkvæði með atvinnurekendum í málinu og því tapaðist málið. Með hjálp fulltrúa ASÍ í Félagsdómi komust því útgerðarmenn upp með að sniðganga það sem samið var um varðandi hækkun kauptryggingar sjómanna á árinu 2019.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar sem var að mati Sjómannadeildar Framsýnar löngu tímabært. Að sjálfsögðu eiga sjómenn ekki að láta bjóða sér svona framkomu í þeirra garð. Höfum í huga að með samstöðuna að vopni geta útgerðarmenn ekki brotið niður sanngjarnar kröfur sjómanna. Sjómenn um land allt krefjast þess að samið verði þegar í stað, undir það taka sjómenn á Húsavík.  

Þá má geta þess að Sjómannadeild Framsýnar tókst ekki að klára endurskoðun á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á árinu vegna sinnuleysis Samtaka atvinnulífsins fh. hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík. Staðan er óþolandi en áfram verður þrýst á gerð kjarasamnings.

Ánægjuleg heimsókn til Björgunarsveitarinnar Stefáns

Nýverið heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir Björgunarsveitina Stefán í Mývatnssveit. Var tilgangur heimsóknarinnar að afhenda sveitinni 250.000,- peningagjöf frá Framsýn, líkt og öðrum björgunarsveitum á félagssvæðinu hefur verið veitt undanfarið ár. Framsýn hefur árlega lagt talsverða upphæð til samfélagsmála og tók  aðalfundur félagsins um það ákvörðun síðastliðið vor að leggja tæpar tvær milljónir króna í það verkefnið. Vill félagið með því leggja sitt að mörkum til að styðja við starf björgunarsveitanna, sem eins og öllum ætti að vera ljóst gegna lykilhlutverki í almannavarnarkerfi okkar Íslendinga.

 Það voru nokkrir galvaskir meðlimir björgunarsveitarinnar með formann sinn, Kristján Steingrímsson í fararbroddi, sem tóku á móti gestunum frá Framsýn og veittu gjöfinni viðtöku. Voru þeir afar þakklátir fyrir fjárstuðninginn og sögðu hann koma sér vel. Til þess að björgunarsveitirnar gætu uppfyllt sem best það hlutverk sem þær gegna, þyrftu þær að hafa yfir að ráða góðum búnaði, en viðhald og endurnýjun á tækjum og búnaði væri mjög fjárfrekt verkefni. Stefánsmenn leiddu gestina um hýbýli sín og fræddu þá um starfsemi sveitarinnar. Það gefur auga leið að björgunarsveitir á jaðri hálendisins þurfa að hafa yfir að ráða öflugum tækjabúnaði til að geta sinnt þeim margvíslegu verkefnum og tekist á við beljandi jökulfljót, misviðri og óblíða náttúru. Tækjakostur Stefáns eru heldur engin barnaleikföng, en í skemmu stendur í stafni 6 hjóla Ford Econoliner á 46 “ásamt fleiri stæðilegum tækjum, s.s. Hagglund snjóbíl, fjórhjóli, vélsleðum, slöngubátum og alls kyns skyndihjálpar og björgunarbúnaði.

„Hálendið hefur mikið aðdráttarafl” segja Stefánsmenn. „Mývatnssveitin er á jaðri hálendisins, sveitina heimsækir gríðarlegur fjöldi ferðamanna og fjöldi útkalla er í samræmi við það“.  

Björgunarsveitin Stefán er með höfuðstöðvar að Múlavegi 2, í suðurenda áhaldahúss og slökkvistöðvar.  Sveitin er einnig með aðstöðu að Múlavegi 3 undir tæki og tól. Félagar í Stefáni eru um 40 talsins.

Til gamans má geta þess að nafn sveitarinnar; Stefán, er tilkomið vegna björgunarafreka Stefáns Stefánssonar á Ytri Neslöndum. Stefán þótti forspár og bjargaði hann oftar en einu sinni mönnum úr lífsháska, er fallið höfðu niður um ís á Mývatni. Voru Stefáni veitt verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir björgunarafrek sín.

Styrkur til Hjálparsveitar skáta í Aðaldal

Undanfarnar vikur hafa forsvarsmenn Framsýnar heimsótt björgunarsveitirnar á félagssvæðinu og afhent þeim örlítinn þakklætisvott frá félaginu fyrir þeirra mikla og góða framlag í þágu samfélagsins, en á síðasta aðalfundi Framsýnar  var ákveðið að leggja tæpar tvær milljónir króna í það verkefni. Á dögunum heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir Hjálparsveit skáta í Aðaldal . Formaður hjálparsveitarinnar Jóhann Ágúst Sigmundsson, ásamt nokkrum meðlimum sveitarinnar veittu gjöfinni viðtöku og gáfu sér tíma til að fræða gestina um starfsemi hjálparsveitarinnar.

Hjálparsveit skáta í Aðaldal hefur á að skipa öflugu fólki, sem líkt og þúsundir annar sjálfboðaliða  björgunarsveita  Landsbjargar eru til taks fyrir okkur hin þegar út af bregður, hvort heldur sem er á nóttu eða  degi, allt árið um kring. Félagar hjálparsveitarinnar eru um 30 talsins, er talsverður hluti þeirra virkur í starfinu og ávallt einhverjir klárir í þau verkefni sem upp koma.

Hjálparsveitin er nokkuð vel tækjum búin, en að sjálfsögðu þarfnast allur útkallsbúnaður björgunarsveita stöðugrar endurnýjunar við til að standast ýtrustu kröfur um öryggi. Fram kom í máli Jóhanns og félaga að skipulögð séu vinnukvöld í húsi sveitarinnar þar sem farið sé yfir tækjakost félagsins, dyttað að ýmsu smálegu og rædd þau verkefni sem vitað sé að fyrir muni liggja. Þau segja ánægjulega þróun vera í samstarfi björgunarsveitanna á almannavarnarsvæði 12, sem séu 8 talsins. Samstarf þeirra á milli hafi aukist verulega á síðustu árum og virðist almennur áhugi fyrir því að efla það starf enn frekar í framtíðinni. Það sé styrkur fyrir sveitirnar sem margar eru fámennar að vinna meira saman og þá ekki eingöngu að útköllum, heldur einnig námskeiðahaldi, þjálfun og æfingum. Almannavarnasvæði 12 nær frá Víkurskarði í vestri að Sandvíkurheiði við Vopnafjörð í austri og frá nyrsta odda landsins, Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu, inn á Vatnajökul í suðri og spannar um 5% af flatarmáli landsins. „Það er okkar allra hagur að vinna saman“ segja þau, „aukin samvinna eflir sveitirnar og eykur fagmennsku og öryggi, auk þess sem það stuðlar að samstöðu sveitanna í heild“. Eðlilega hefur reynst erfitt að halda úti skipulegu félagsstarfi björgunarsveitanna síðustu misseri sökum sóttvarna- og samkomutakmarkana og af þeim sökum ekki verið eins mikið um æfingar og námskeiðahald eins og hefði verið undir eðlilegum kringumstæðum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að Hjálparsveit skáta í Aðaldal hefur síðustu vetur verið samstarfsaðili Þingeyjarskóla, þar sem elstu nemendur grunnskólans eiga þess kost að taka valáfanga þar sem að þau fá tækifæri til að kynnast starfi  björgunarsveita. Það er félagi í hjálparsveitinni sem jafnframt er starfsmaður Þingeyjarskóla, sem hefur kennsluna með höndum.

Líkt og hjá öðrum hjálpar/björgunarsveitum er fjáröflun talsverður hluti starfsins. Sjóðir sveitanna eru ekki digrir og þurfa þær sífellt að reyna að leita leiða til að afla tekna til að halda starfseminni gangandi. Næstu daga stendur einmitt fyrir dyrum sala flugelda, sem er aðalfjármögnun  björgunarsveita landsins. Hjálparsveitarfólk í Aðaldal mun að sjálfsögðu standa vaktina við flugeldasöluna í húsnæði sínu að Iðjugerði 1.

Förum varlega á tímum Covid

Þar sem tilfellum Covid hefur fjölgað í þjóðfélaginu viljum við beina þeim tilmælum til félagsmanna og annarra  viðskiptavina Skrifstofu stéttarfélaganna að fara varlega. Liður í því er að takmarka heimsóknir á skrifstofuna. Þess í stað er mikilvægt að notast við síma eða tölvupósta þurfi menn á þjónustu stéttarfélaganna að halda. Beðist er velvirðingar á þessum takmörkunum.

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna

Vilt þú taka þátt í starfi Þingiðnar?

Fljótlega upp úr áramótum mun Kjörnefnd Þingiðnar koma saman til að stilla upp í trúnaðarstöður á vegum Þingiðnar fyrir næsta kjörtímabil sem er 2022 til 2024. Stilla þarf upp í stjórn félagsins, varastjórn, trúnaðarmannaráð, varatrúnaðarmannaráð og í aðrar stjórnir og nefndir á vegum félagsins.

Félagsmenn sem verið hafa í trúnaðarstörfum fyrir félagið og vilja víkja eru vinsamlegast beðnir um að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is fyrir 10. janúar nk. Þann dag mun Kjörnefnd félagsins koma saman til að stilla upp félagsmönnum í trúnaðarstöður fyrir komandi kjörtímabil. Þá eru þeir félagsmenn sem vilja taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið sömuleiðis beðnir um að hafa samband með því að senda póst á uppgefið netfang í þessari frétt, það er fyrir 10. janúar.

Við minnum á aðalfund Sjómannadeildar Framsýnar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar verður haldinn miðvikudaginn 29. desember 2021 kl. 17:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjaramál
  3. Lagabreytingar
  4. Önnur mál

Vegna Covid verður veitingum stillt í hóf í ár og jafnframt farið eftir ítrustu sóttvarnareglum á fundinum.

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar

Jólakveðja stéttarfélaganna

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum óska félagsmönnum og fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megi árið 2022 verða okkur öllum farsælt og gæfuríkt.

Svo er rétt að minna á jólasmellinn sem skrifstofan gaf út fyrir fáeinum árum. Sígilt efni.

Framsýn stéttarfélag

Þingiðn félag iðnaðarmanna

Starfsmannafélag Húsavíkur

Verslunarfólk á skilið virðingu

Önnur jólahátíð óvissu og takmarkana er að bresta á. Önnur hátíð sóttkvíar og einangrunar, á tímum sem hafa verið okkur öllum erfiðir. Covid – jól. Það er komin þreyta og pirringur í samfélagið, sem hefur reyndar einkennst af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju síðan ósköpin dundu yfir fyrir tæplega tveimur árum. Fréttir herma að afkoma verslunarinnar hér á landi hafi verið mikil undanfarið og hafi sjaldan verið meiri.

 Ég stend í biðröð í verslun með stútfulla innkaupakerru. Þar er margt um manninn, grímuklædd andlit þjóta hjá, það er áþreifanleg spenna í loftinu og líkt því að jólavertíðin sé að nálgast hámarkið. Starfslið verslunarinnar er fámennt. Það virðist flest ungt að árum og líklega fæst hver með margra ára reynslu á vinnumarkaði. Klárir krakkar skanna inn vörur öruggum höndum á hefðbundnum afgreiðslukössum, eða stökkva til með sprittbrúsana að þrífa á milli þeirra sem kjósa að nota sjálfsafgreiðslukassana. Allir virðast vera að flýta sér. Kliður háværra radda blandast skröltinu í tómum innkaupakerrum sem skella saman við útganginn og stöðugu gelti samskiptageldra sjálfsafgreiðslukassana: „Óvæntur hlutur á pokasvæði … ekki gleyma vörunum þínum … mundu eftir kvittunni“.

Ég þokast nær kassanum, miðaldra og meðvituð um síminnkandi streituþol mitt. Lamandi jólastressið seytlar um æðarnar. Er eina ferðina enn búin að glutra búðarmiðanum út úr höndunum. Mundi ég eftir öllu? Var ég búin að kaupa gjöfina handa mömmu? Hvað ætlaði ég aftur að gefa Kalla frænda? Ég þarf að ná á pósthúsið fyrir lokun og taka pakkann á Eimskip. Vantaði ekki perur í útiseríurnar? Er ég með rétta jólaölið? Ég hata biðraðir. Hugsanirnar geisa stjórnlaust um höfuðið og gamalkunnur seyðingur stingur sér undir hægra gagnaugað. Það er korter í mígrenikast og mér sýnist það besta í stöðunni vera að leita vars í dimmu skoti, hnipra mig saman og bíða þess að ósköpin gangi yfir. 

Loksins kemur röðin að mér. Ég herði mig upp og reyni að bera mig mannalega. Býð ungum dreng við kassann brosandi góðan dag. Við spjöllum á léttu nótunum meðan hann rennir vörunum í gegnum skannann og afgreiðir mig. Þakka síðan kurteislega fyrir mig og óska honum gleðilegra jóla. „Þakka þér fyrir að vera svona almennileg. Það eru ekki allir viðskiptavinir búnir að vera þannig í dag“  segir þessi ágæti drengur sendir mér sitt breiðasta bros. „Fólk eins og þú gerir daginn minn betri“. Það kom hálfgert á mig við þetta óvænta skjall, en ég áttaði mig fljótlega á hvað hann var að fara. Hversu oft hefur maður ekki heyrt af og jafnvel orðið vitni af slæmri framkomu fólks sem leyfir sér að taka pirring dagsins með sér í búðina og lætur það bitna á saklausu afgreiðslufólkinu.

Hlýleg framkoma unga mannsins fylgir mér út í skammdegismyrkrið og fyllir hjartað þakklæti. Hefur bein áhrif á birtumagnið í sálinni og mér líður betur. Það er engu logið þegar talað er um mikilvægi mannlegra samskipta. Þetta litla atvik vekur mig til umhugsunar um hversu þakklát við megum vera þeim fjölmenna hópi fólks sem vinnur við verslun og þjónustu. Hópi sem flokkast af einhverjum ástæðum ekki til framlínustarfsmanna, en gegnir þó mjög mikilvægu hlutverki í okkar daglega lífi. Það er þeim að þakka að við höfum haft nokkuð greiðan aðgang að nauðsynjavöru og þjónustu þann tíma sem heimsfaraldurinn hefur geisað. Þeirra störf munu seint teljast vel borguð og ekki allir sem sækja í þau.               Margir hafa skoðun á því að greiða eigi ákveðnum stéttum samfélagsins álagsgreiðslur vegna mikils álags og áhættu í þeirra daglegu störfum. Starfsfólk í verslun og þjónustu er í mikilli nálægð við viðskiptavini og er þar af leiðandi í mikilli smithættu alla daga. Þetta er hins vegar ekki fólkið sem kvartar yfir kjörum sínum og kannski er hluti skýringarinnar sá að stór hluti stéttarinnar er ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og erlent verkafólk sem jafnvel er að stíga sinn fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði.  

Verum þakklát framlínustarfsmönnum okkar hvar sem að við þurfum á þjónustu að halda fyrir óeigingjörn störf í okkar þágu. Sýnum þeim þakklæti og virðingu og leyfum þeim að verða þess áskynja að við metum þau að verðleikum. Komum fram við fólk eins og við viljum láta koma fram við okkur.

Brosum mót hækkandi sól.

Gleðileg jól

Ósk Helgadóttir

Fjallalamb slær met í hangikjötssölu

Fulltrúar frá Framsýn stéttarfélagi og Virk endurhæfingarsjóði gerðu sér ferð á norðursvæðið í gær, það er í Kelduhverfi, Öxarfjörð og á Raufarhöfn.  Komið var við í Rifós, Fiskeldi Samherja, Leikskólanum í Lundi, Versluninni í Ásbyrgi, Skerjakollu, Fjallalambi, GPG- Fiskverkun og stjórnsýsluhúsinu á Raufarhöfn. Almennt var fólk ánægt með sig svona rétt fyrir jólin. Fulltrúar Framsýnar og Virk áttu gott spjall við starfsmenn auk þess að færa starfsmönnum konfekt, dagatöl og minnisbækur að gjöf frá Framsýn með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.  

Björn Víkingur í Fjallalambi var mjög ánægður með söluna fyrir jólin. Hann sagði hangikjötssöluna í ár slá öll fyrri met. Salan skipti tugum tonna. Það er full ástæða til að gleðjast með framkvæmdastjóra Fjallalambs.

Ísak í Ásbyrgi var ánægður með verslunina í sumar, mikið hafi verið um íslenska ferðamenn sem hafi litið við og verslað í Ásbyrgi. Hann líkt og aðrir vonast til þess að Covid hafi vit á því að hverfa á braut sem fyrst svo eðlilegt ástand myndist í þjóðfélaginu sem og í heiminum. Hér er hann ásamt Ágústi starfsmanni Virk á Húsavík.

Mikil vinna hefur verið hjá GPG- Fiskverkun á Raufarhöfn undanfarna mánuði, reiknað er með að það þurfi að vinna fram á Aðfangadag til að hafa undan. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar heilsaði upp verkstjórana, þau Lindu og Þór.

Landsliðið, frábærir starfsmenn starfa í leikskólanum í Lundi. Að sjálfsögðu var spjallað við þær í góða  veðrinu í gær.

Gríðarlegur uppgangur er í fiskeldi Rifós og Samherja í Kelduhverfi og Öxarfirði. Víða má sjá vinnuvélar á lóðum fyrirtækjanna enda mikið í gangi og framundan.  

Öngþveiti við Húsavíkurhöfn í morgun

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeim miklu umsvifum sem tengjast starfsemi PCC á Bakka við Húsavík. Þar starfa um 130 til 150 manns að staðaldri og þá eru launakjör starfsmanna almennt betri en gerast á svæðinu. Fjöldi undirverktaka koma að því að þjónusta fyrirtækið sem og aðrir þjónustuaðilar sem reiða sig á þjónustu við fyrirtækið og starfsmenn þess. Fyrirtækið er því að skila miklum sköttum í gegnum aðstöðugjöld, almenna skatta og útsvarsgjöld starfsmanna. Ekki má heldur gleyma skipa umferðinni um höfnina með tilheyrandi tekjum fyrir Norðurþing í formi hafnargjalda. Sem dæmi má nefna að í morgun var eitt skip í höfninni sem var verið að landa úr meðan tvö önnur biðu eftir því að komast að bryggju með hráefni fyrir verksmiðjuna á Bakka. Já, verksmiðjan á Bakka skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið allt en framleiðslan hefur gengið afar vel undanfarna mánuði með tilheyrandi gjaldeyrissköpun sem okkur veitir ekki af um þessar mundir. Þrátt fyrir að það sé dimmt úti um þessar mundir er bjart yfir Húsavík.   

Framsýn gerir vel við félagsmenn -Endurgreiðsluhlutfall styrkja allt að 90% til 1. maí 2022

Vegna áhrifa frá Covid 19 settu fræðslusjóðirnir sem Framsýn á aðild að, af stað átak í fræðslu sem hófst 15. mars 2020. Hluti átaksins fólst í því að endurgreiðsluhlutfall styrkja hækkaði tímabundið úr 75% í 90% hjá bæði fyrirtækjum og til einstaklinga með lokadagsetningu 31. desember 2021. Stjórnir sjóðanna hafa ákveðið að halda áfram með allt að 90% endurgreiðsluhlutfall til 1. maí 2022 og verður það þá endurskoðað aftur.

Hægt er að sjá reglur vegna einstaklingsstyrkja hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Hægt er að sjá reglur vegna fyrirtækjastyrkja og styrkja til stofnana sveitarfélaga og ríkisins hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Stapi hækkar hámarkslán og útvíkkar lánsrétt

Lsj. Stapi hefur ákveðið að gera breytingar á lánareglum sjóðsins. Helstu breytingar eru:

  • Lánsréttur var rýmkaður. Allir sem greitt hafa til sjóðsins eiga lánsrétt.
  • Hámarkslánsfjárhæð hækkuð í 70 milljónir.

Breytingin hefur þegar tekið gildi. Nánari upplýsingar um lánareglur sjóðfélagalána Stapa er að finna á heimasíðu sjóðsins stapi.is.

Á vefsíðu sjóðsins er einfalt að sækja um lán og greiðslumat. Með því að sækja um lán með rafrænum skilríkjum auðvelda umsækjendur sér umsóknarferlið til muna þar sem nánast öll gögn fyrir greiðslumatið eru sótt rafrænt.

Frekari upplýsingar eru í boði á skrifstofu sjóðsins.

Rúgbrauð – síld og aðrar gjafir

Öll höfum við gaman að því að fá gjafir og heimsóknir sem gefa lífinu aukið gildi. Nú fyrir jólin hafa margir góðir gestir komið við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kastað kveðju á starfsmenn, sumir hafa haft með sér veitingar og enn aðrir fært starfsmönnum konfekt og annan glaðning að gjöf. Varaformaður Framsýnar Ósk Helgadóttir, kom við á skrifstofunni í gær með nýtt rúgbrauð, kleinur og silung úr sveitinni sem hún gaf starfsmönnum með kaffinu. Solla og Kiddi á Þórshöfn komu með síld í fötu og fjármálastofnun kom færandi hendi með konfekt. Starfsmenn munu ána efa fara glaðir inn í jólafríið eftir morgundaginn og takk fyrir hlýhug í okkar garð með góðum jólakveðjum kæru félagar til sjávar og sveita.