Fjallalamb slær met í hangikjötssölu

Fulltrúar frá Framsýn stéttarfélagi og Virk endurhæfingarsjóði gerðu sér ferð á norðursvæðið í gær, það er í Kelduhverfi, Öxarfjörð og á Raufarhöfn.  Komið var við í Rifós, Fiskeldi Samherja, Leikskólanum í Lundi, Versluninni í Ásbyrgi, Skerjakollu, Fjallalambi, GPG- Fiskverkun og stjórnsýsluhúsinu á Raufarhöfn. Almennt var fólk ánægt með sig svona rétt fyrir jólin. Fulltrúar Framsýnar og Virk áttu gott spjall við starfsmenn auk þess að færa starfsmönnum konfekt, dagatöl og minnisbækur að gjöf frá Framsýn með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.  

Björn Víkingur í Fjallalambi var mjög ánægður með söluna fyrir jólin. Hann sagði hangikjötssöluna í ár slá öll fyrri met. Salan skipti tugum tonna. Það er full ástæða til að gleðjast með framkvæmdastjóra Fjallalambs.

Ísak í Ásbyrgi var ánægður með verslunina í sumar, mikið hafi verið um íslenska ferðamenn sem hafi litið við og verslað í Ásbyrgi. Hann líkt og aðrir vonast til þess að Covid hafi vit á því að hverfa á braut sem fyrst svo eðlilegt ástand myndist í þjóðfélaginu sem og í heiminum. Hér er hann ásamt Ágústi starfsmanni Virk á Húsavík.

Mikil vinna hefur verið hjá GPG- Fiskverkun á Raufarhöfn undanfarna mánuði, reiknað er með að það þurfi að vinna fram á Aðfangadag til að hafa undan. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar heilsaði upp verkstjórana, þau Lindu og Þór.

Landsliðið, frábærir starfsmenn starfa í leikskólanum í Lundi. Að sjálfsögðu var spjallað við þær í góða  veðrinu í gær.

Gríðarlegur uppgangur er í fiskeldi Rifós og Samherja í Kelduhverfi og Öxarfirði. Víða má sjá vinnuvélar á lóðum fyrirtækjanna enda mikið í gangi og framundan.