Önnur jólahátíð óvissu og takmarkana er að bresta á. Önnur hátíð sóttkvíar og einangrunar, á tímum sem hafa verið okkur öllum erfiðir. Covid – jól. Það er komin þreyta og pirringur í samfélagið, sem hefur reyndar einkennst af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju síðan ósköpin dundu yfir fyrir tæplega tveimur árum. Fréttir herma að afkoma verslunarinnar hér á landi hafi verið mikil undanfarið og hafi sjaldan verið meiri.
Ég stend í biðröð í verslun með stútfulla innkaupakerru. Þar er margt um manninn, grímuklædd andlit þjóta hjá, það er áþreifanleg spenna í loftinu og líkt því að jólavertíðin sé að nálgast hámarkið. Starfslið verslunarinnar er fámennt. Það virðist flest ungt að árum og líklega fæst hver með margra ára reynslu á vinnumarkaði. Klárir krakkar skanna inn vörur öruggum höndum á hefðbundnum afgreiðslukössum, eða stökkva til með sprittbrúsana að þrífa á milli þeirra sem kjósa að nota sjálfsafgreiðslukassana. Allir virðast vera að flýta sér. Kliður háværra radda blandast skröltinu í tómum innkaupakerrum sem skella saman við útganginn og stöðugu gelti samskiptageldra sjálfsafgreiðslukassana: „Óvæntur hlutur á pokasvæði … ekki gleyma vörunum þínum … mundu eftir kvittunni“.
Ég þokast nær kassanum, miðaldra og meðvituð um síminnkandi streituþol mitt. Lamandi jólastressið seytlar um æðarnar. Er eina ferðina enn búin að glutra búðarmiðanum út úr höndunum. Mundi ég eftir öllu? Var ég búin að kaupa gjöfina handa mömmu? Hvað ætlaði ég aftur að gefa Kalla frænda? Ég þarf að ná á pósthúsið fyrir lokun og taka pakkann á Eimskip. Vantaði ekki perur í útiseríurnar? Er ég með rétta jólaölið? Ég hata biðraðir. Hugsanirnar geisa stjórnlaust um höfuðið og gamalkunnur seyðingur stingur sér undir hægra gagnaugað. Það er korter í mígrenikast og mér sýnist það besta í stöðunni vera að leita vars í dimmu skoti, hnipra mig saman og bíða þess að ósköpin gangi yfir.
Loksins kemur röðin að mér. Ég herði mig upp og reyni að bera mig mannalega. Býð ungum dreng við kassann brosandi góðan dag. Við spjöllum á léttu nótunum meðan hann rennir vörunum í gegnum skannann og afgreiðir mig. Þakka síðan kurteislega fyrir mig og óska honum gleðilegra jóla. „Þakka þér fyrir að vera svona almennileg. Það eru ekki allir viðskiptavinir búnir að vera þannig í dag“ segir þessi ágæti drengur sendir mér sitt breiðasta bros. „Fólk eins og þú gerir daginn minn betri“. Það kom hálfgert á mig við þetta óvænta skjall, en ég áttaði mig fljótlega á hvað hann var að fara. Hversu oft hefur maður ekki heyrt af og jafnvel orðið vitni af slæmri framkomu fólks sem leyfir sér að taka pirring dagsins með sér í búðina og lætur það bitna á saklausu afgreiðslufólkinu.
Hlýleg framkoma unga mannsins fylgir mér út í skammdegismyrkrið og fyllir hjartað þakklæti. Hefur bein áhrif á birtumagnið í sálinni og mér líður betur. Það er engu logið þegar talað er um mikilvægi mannlegra samskipta. Þetta litla atvik vekur mig til umhugsunar um hversu þakklát við megum vera þeim fjölmenna hópi fólks sem vinnur við verslun og þjónustu. Hópi sem flokkast af einhverjum ástæðum ekki til framlínustarfsmanna, en gegnir þó mjög mikilvægu hlutverki í okkar daglega lífi. Það er þeim að þakka að við höfum haft nokkuð greiðan aðgang að nauðsynjavöru og þjónustu þann tíma sem heimsfaraldurinn hefur geisað. Þeirra störf munu seint teljast vel borguð og ekki allir sem sækja í þau. Margir hafa skoðun á því að greiða eigi ákveðnum stéttum samfélagsins álagsgreiðslur vegna mikils álags og áhættu í þeirra daglegu störfum. Starfsfólk í verslun og þjónustu er í mikilli nálægð við viðskiptavini og er þar af leiðandi í mikilli smithættu alla daga. Þetta er hins vegar ekki fólkið sem kvartar yfir kjörum sínum og kannski er hluti skýringarinnar sá að stór hluti stéttarinnar er ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og erlent verkafólk sem jafnvel er að stíga sinn fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði.
Verum þakklát framlínustarfsmönnum okkar hvar sem að við þurfum á þjónustu að halda fyrir óeigingjörn störf í okkar þágu. Sýnum þeim þakklæti og virðingu og leyfum þeim að verða þess áskynja að við metum þau að verðleikum. Komum fram við fólk eins og við viljum láta koma fram við okkur.
Brosum mót hækkandi sól.
Gleðileg jól
Ósk Helgadóttir