Það er ekki auðvelt að skilja ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Síðasta föstudag átti starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna leið í verslunina til að kaupa timbur. Til að gera langa sögu stutta var brjálað að gera í timburdeildinni og þó nokkuð löng bið eftir afgreiðslu eins og oft áður enda mikið að gera hjá starfsmönnum. Stórir sem smáir bílar komu og fóru með vörur. Sjá mátti bónda úr Mývatnssveit vera að kaupa timbur, staura og girðingarefni. Annar bóndi úr Aðaldalnum var sömuleiðis að kaupa timbur og járn fyrir sitt bú. Verktaki sem kemur að uppbyggingunni í Öxarfirði, er tengist fiskeldi upp á nokkra milljarða, var að versla rör og fleira. Þá voru þó nokkrir heimamenn að skoða kaup á ýmsum varningi og leita tilboða sem og verktakar.
Frá og með næstu áramótum verður þessi þjónusta ekki lengur í boði fyrir Þingeyinga og þá sem fram að þessu hafa getað verslað í Húsasmiðjunni. Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur Framsýn gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun fyrirtækisins um að skella í lás á gamlársdag sem er glórulaus ákvörðun.