Það er ekki alltaf auðvelt á átta sig á yfirlýsingum BSRB um mikilvægi þess að launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jafnaður. Þá hefur því verið haldið fram af sambandinu að launakannanir hafi sýnt að launamunur á milli markaða sé orðin um það bil 17%, opinberum starfsmönnum í óhag. Vel má vera að BSRB sé að horfa til tekjuhærri hópana á íslenskum vinnumarkaði. Þessar fullyrðingar eiga ekki við um tekjulægsta fólkið sem er innan aðildarfélaga ASÍ sem er mjög svo fjölmennur hópur. Hvað þá kjarasamninginn sjálfan þar sem réttindi eru almennt miklu betri hjá opinberum starfsmönnum en í kjarasamningum starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum, ekki síst veikindarétturinn.
Tökum dæmi:
Starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum:
Flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands(SGS) raðast í launaflokka 4 til 11 í launatöflu sambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem sjá má á heimasíðu Framsýnar. Hér er að finna starfsfólk m.a. í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, kjötvinnslu, ræstingum og byggingavinnu. Dæmi eru um að bílstjórar raðist í launaflokk 17, hærra fara menn ekki. Í þessum atvinnugreinum er almennt verið að nota þessa launaflokka. Ferðaþjónustan hefur mikið verið til umræðu, þar eru notaðir þrír lægstu flokkarnir, 4-5-6. Væntanlega er þetta fjölmennasta stéttin innan Starfsgreinasambandsins á almenna vinnumarkaðinum.
Grunnlaunin hjá flestum eru á bilinu kr. 331.735 upp í kr. 351.749 á mánuði. (Launaflokkar 4 til 11).
Fjölmennir hópar á almenna vinnumarkaðinum hafa þurft að taka að sér aukavinnu umfram fulla vinnuskyldu til að geta framfleytt sér, hugsanlega er það að villa fyrir launakönnunum BSRB.
Starfsfólk sveitarfélaga sem starfar eftir kjarasamningum SGS og aðildarfélaga BSRB:
Þar er það þannig að flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands starfa eftir launaflokkum 120 til 130. Einhverjir eru fyrir neðan og einhverjir eru fyrir ofan þetta viðmið samkvæmt starfsmati.
Á hvaða bili eru grunnlaun þessara starfsmanna? Þau eru á bilinu kr. 371.956 upp í kr. 472.634. (Launaflokkar 120-130).
Hluti félagsmanna innan starfsmannafélaga BSRB raðast einnig í þessa flokka, flestir þeirra raðast þó hærra en þessar tölur sýna enda raðast þeirra hærra samkvæmt starfsmati.
Tökum þetta saman, lægstu launin sem heimilt er að greiða samkvæmt launatöflu SGS og BSRB vegna starfsmanna sveitarfélaga eru svipuð þeim sem menn geta mest fengið samkvæmt launatöflu SGS og SA, það er bílstjórar sem raðast í launaflokk 17 enda séu þeir með full réttindi til að vinna sem slíkir.
Væntanlega er BSRB ekki að tala um lækka laun félagsmanna til samræmis við starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum þegar BSRB talar um að samræma þurfi launakjörin milli starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum og á opinbera markaðinum? Í það minnsta þurfa menn að kynna sér stöðuna áður en menn tala fyrir samræmingu kjara milli hópa á íslenskum vinnumarkaði.
Ég sem formaður í almennu stéttarfélagi með fjölmenna hópa félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum og á almenna markaðinum mun fara með þessar upplýsingar á fyrsta undirbúningsfund vegna komandi kjaraviðræðna við SA og krefjast þess að launakjör félagsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði jöfnuð við launakjör starfsmanna sveitarfélaga sem starfa eftir kjarasamningum SGS og BSRB.
Það þarf ekki flóknar launakannanir til að sjá það mikla misrétti sem er í launakjörum félagsmanna hjá sveitarfélögum annars vegar og á almenna vinnumarkaðinum hins vegar. Að sjálfsögðu þarf að bæta frekar launakjör félagsmanna BSRB og SGS sem starfa hjá sveitarfélögum en þörfin er greinilega miklu meiri á almenna vinnumarkaðinum samkvæmt fyrirliggjandi launatöflum sem hér eru hafðar til samanburðar þegar þessum athugasemdum er komið á framfæri. Í það minnsta er ekki endalaust hægt að hlusta á áróður þess efnis að opinberir starfsmenn í láglaunastörfum séu ver settir en starfsmenn í láglaunastörfum samkvæmt kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Það er einfaldlega ekki rétt. Það má vel vera að það eigi við um betur setta starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum sem starfa ekki eftir kjarasamningum SA og SGS. Það er að þeir hafi betri kjör en opinberir starfsmenn, þá eiga menn að leggja fram gögn þess efnis í stað þess að alhæfa að það eigi við um alla starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Höldum okkur við staðreyndir, takk fyrir.
Aðalsteinn Árni Baldursson