Undirbúningur hafinn vegna komandi kjaraviðræðna

Starfsgreinasamband Íslands hefur þegar ákveðið að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Hvað það varðar hafa verið skipaðir tveir starfshópar innan sambandsins til að yfirfara bókanir/yfirlýsingar í kjarasamningum og gildi þeirra. Um er að ræða bókanir sem varða tvo kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, það er á almenna vinnumarkaðinum annars vegar og í ferðaþjónustunni hins vegar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar leiðir þann hóp sem á að fara yfir Ferðaþjónustusamninginn og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða fer fyrir þeim hópi sem á að yfirfara Almenna samninginn. Starfshóparnir munu hefja vinnu á næstu dögum. Í kjölfarið er síðan ráðgert að funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í desember um bókanirnar og hvernig þeim verður fylgt eftir.

Gréta Stefánsdóttir og Flosi Eiríksson frá Starfsgreinasambandi Íslands og formennirnir Finnbogi og Aðalsteinn Árni hittust á teams fundi í morgun til að undirbúa vinnu sem er framundan og tengist kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Það er að yfirfara bókanir og yfirlýsingar þeim tengdum.