Þeir gömlu góðu

Þeir sem komnir eru um eða yfir miðjan aldur muna eflaust þá daga er Rússajeppar voru  algeng farartæki hér á landi, bæði til sjávar og sveita. Þá voru ekki bílar á hverju heimili, enda voru þeir dýrir og mikil munaðarvara, en einnig var erfitt að nálgast nauðsynlega varahluti til að halda gömlum skrjóðum gangandi. Því kom sér vel ef menn voru völundar og gátu smíðað sér sjálfir þau verkfæri og tæki sem þeir þörfnuðust, til að geta breytt og endurbætt og lengt með því lífdaga ökutækjanna.

Rúss­arnir voru vinnuþjark­ar og mun ein­fald­ri að allri gerð en þeir bílar sem við þekkjum í dag og algjörlega lausir við allan íburð. Þeir þóttu vel brúklegir til landbúnaðarstarfa og víða í sveitum landsins var Rússinn spenntur fyrir rakstrarvélina, heyvagninn, eða notaður til mjólkurflutninga og þótti jafn ólseigur og sterkur og rússlenski björninn. 

Líklega má jeppinn á myndinni muna sinn fífil fegri, enda ber hann þess öll merki að hafa verið vinnuþjarkur og eiga að baki fjölskrúðuga lífssögu. Hann bar einkennisstafina Þ 561 og var í eigu Björns Líndal bifvélavirkja sem bjó á Húsavík og starfaði meðal annars á vélaverkstæðinu Foss. Björn sem var  hagur maður, bæði á tré og járn, smíðaði gripinn úr Rússajeppa og notaði hann sem vinnubíl í nokkur ár. Síðar átti fyrir þessum rússlenska ofurtrukk að liggja að verða bryggjubíll á Húsavík og létta sjómönnum sporin neðan við Bakka. Síðustu árin hefur hann eflaust verið kominn með bryggjuskoðunarpassann, en þegar myndinni var smellt af fyrir nokkrum áratugum, stóð hann enn trúr og tryggur og beið eftir verkefnum dagsins niður við Helguskúr.