Skerpa starfsreglur varðandi félagsmenn sem eru hættir á vinnumarkaði

Um þessar mundir er starfandi nefnd á vegum Framsýnar sem vinnur að því að yfirfara reglur varðandi réttindi félagsmanna við starfslok, sérstaklega hvað varðar almenna þjónustu, áunninn réttindi og greiðslur úr sjóðum félagsins. Vissulega þurfa reglurnar að byggja á lögum, reglugerðum sjóða og ákvæðum kjarasamninga. Reiknað er með að þessari vinnu ljúki á næstu vikum og þá verði gefnar út leiðbeinandi reglur fyrir þennan sístækkandi hóp félagsmanna. Reglurnar koma vonandi til með að taka gildi með vorinu.

Við það er miðað að félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði eigi áfram rétt á almennri þjónustu hjá félaginu, sem fellur undir starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða út æviskeiðið. Sama á við um aðgengi að lögfræðingum, flugmiðum með Flugfélaginu Erni, hótelgistingu, orlofsferðum, orlofsíbúðum, sumarhúsum og öðrum orlofskostum á vegum félagsins á hverjum tíma. Þessi listi er ekki tæmandi yfir réttindi félagsmanna sem hverfa af vinnumarkaði hvað varðar almenn réttindi hjá félaginu.

Forsendan er að viðkomandi einstaklingur hafi verið fullgildur félagsmaður í fimm ár fyrir starfslok á vinnumarkaði. Tekið er tillit til þess, hafi menn verið frá vinnu vegna eigin veikinda á tímabilinu umfram kjarasamningsbundinn veikindarétt. Varðandi starfslokin er horft til þess að miða þau við 60 ára aldur. Réttur þessi miðast við 67 ára aldur í dag. Gangi þessar breytingar eftir er um að ræða verulega réttarbót fyrir viðkomandi aldurshóp hjá félaginu.

Þá er lagt til að félagsmenn haldi réttindum sínum til námsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hættu á vinnumarkaði. Rétt er að taka fram að í einhverjum tilfellum getur rétturinn verið aðeins lengri eða styttri. Úthlutunarreglurnar taki mið af reglugerðum viðkomandi sjóða sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn í gegnum kjarasamninga.

Þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að við starfslok missi menn réttindi úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða í síðasta lagi eftir 6 til 12 mánuði frá starfslokum, er lagt til að félagsmenn haldi fullum réttindum  í 3 ár frá starfslokum. Þannig leggur nefndin til að gert verði betur við félagsmenn Framsýnar en þekkist almennt hjá öðrum sambærilegum stéttarfélögum. Reyndar hefur þessi regla verið opnari en þetta hjá félaginu fram að þessu, sem stangast á við tilgang sjúkrasjóða. Ákveðnar reglur þurfa að gilda hvað varðar útgreiðslur úr sjóðnum þar sem greiðslur inn í sjóðinn koma frá atvinnurekendum í gegnum kjarasamninga og er hugsað sem  ákveðið öryggisnet fyrir starfsfólk á vinnumarkaði. Það er, launþegar greiða ekki framlag í sjóðinn, heldur atvinnurekendur. Hér eftir sem hingað til munu aðstandendur eiga rétt á útfararstyrk fyrir félagsmenn sem falla frá eftir starfslok á vinnumarkaði.