Ný byggingavöruverslun opnar á Húsavík!

Eftir að Húsasmiðjan ákvað að sameina allan rekstur sinn á Norðurlandi í einni verslun á Akureyri og loka verslunum sínum á Dalvík og Húsavík hafa heimamenn á Húsavík leitað leiða til að stuðla að því að þar yrði áfram rekin byggingavöruverslun.  Niðurstaðan er sú að öflugir verktakar á Húsavík hafa tekið sig saman og munu opna nýja byggingavöruverslun á Húsavík í febrúar undir nafninu Heimamenn að Vallholtsvegi 8 á Húsavík.

Þar verða seldar allar helstu byggingavörur sem í boði eru, ásamt málningu, hreinlætistækjum og öðru sem tengist viðhaldi og nýbyggingum.

Þegar er búið tryggja aðgang að mörgum þekktum vörumerkjum og fleiri eru væntanleg.

Nánari kynning á vöruúrvali verður send út þegar nær dregur opnun.

Verslunin verður staðsett að Vallholtsvegi 8 á Húsavík þar sem Byggingavörudeild KÞ, KÞ Smiðjan og Húsasmiðjan hafa verið með rekstur áður.

Eigendur hins nýja félags Heimamanna ehf. eru eftirtalin fyrirtæki á Húsavík:
Val ehf., Steinsteypir ehf., Vermir sf. , Trésmiðjan Rein ehf. og Bæjarprýði ehf. 

Framkvæmdastjóri Heimamanna ehf. er Brynjar T. Baldursson sem jafnframt getur veitt frekari upplýsingar um verslunina í síma 891-8800

„Ég er gríðarlega spenntur og hlakka mikið til að taka á móti viðskiptavinum í nýju versluninni okkar“ Segir Brynjar í fréttatilkynningu sem kom frá Heimamönnum í morgun.

Eins og kunnugt er, þá er mikil uppbygging í gangi í Þingeyjarsýslum og má meðal annars nefna nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili á Húsavík og fjölbýlishús fyrir 55 ára og eldri á Húsavík.  Umtalsverð uppbygging er í gangi hjá fiskeldisfyrirtækjum í sýslunni og mörg fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að hefja starfsemi á Bakka við Húsavík. Þá er vitað að mikil vöntun er á íbúðarhúsnæði á Húsavík og víðar í Þingeyjarsýslum. Stéttarfélögin fagna að sjálfsögðu þessu magnaða framtaki Heimamanna og skora á íbúa á svæðinu að beina viðskiptum sínum til þeirra, það er, verslum sem mest í heimabyggð hjá Heimamönnum og öðrum verslunareigendum sem halda úti verslun og þjónustu í heimabyggð.