Samherji stækkar við sig í Öxarfirði

Samherji fiskeldi hefur ákveðið að stækka landeldisstöð fyrirtækisins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Kostnaður við framkvæmdina er um einn og hálfur milljarður króna og á þeim að vera lokið að mestu eftir eitt til tvö ár. Samherji hefur um tíma haft til skoðunar að stækka landeldisstöðina í Öxarfirði en það hefur komið fram á fundum sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt með yfirmönnum fyrirtækisins í Öxarfirði um starfsemi fyrirtækisins.

Uppbyggingu Samherja í Öxarfirði ber að fagna sérstaklega þar sem umfang fyrirtækisins á svæðinu er að aukast verulega og undirstrikar trú fyrirtækisins á landeldi enda aðstæður til fiskeldis í Öxarfirði með miklum ágætum. Störfum fjölgar, aðflutningar til og frá stöðinni munu aukast og þörf á aðkeyptri þjónustu til rekstrarins s.s. iðnaðarmanna og annarra þjónustuaðila verður meiri.