Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir ályktun miðstjórnar ASÍ sem lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni á húsnæðismarkaði sem sé rót óstöðugleika í íslensku efnahagslífi. Seðlabankinn hefur tilkynnt að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósent. Meginvextir bankans eru nú 1,5%. Verðbólga mælist 4,4% um þessar mundir en sé horft framhjá áhrifum húsnæðisliðar liggur verðbólga nú nærri markmiði Seðlabankans. Vísbendingar eru einnig um að leiguverð fari hækkandi á ný.
Vaxtahækkanir munu hafa veruleg áhrif á fjárhag heimilanna og atvinnulífs á næstu misserum. Mánaðarleg greiðslubyrði lána getur hækkað um tugi þúsunda króna hjá fjölda fólks. Jafnframt hefur hátt húsnæðisverð gert það að verkum að stór hópur situr fastur á óstöðugum, hagnaðardrifnum leigumarkaði.
Nýrrar ríkisstjórnar bíða miklar áskoranir í húsnæðismálum. Þar kallar miðstjórn ASÍ eftir skýrum aðgerðum sem tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir að fólk lendi í fjárhagserfiðleikum vegna óstöðugleika sem á rætur að rekja til efnahags- og peningamálastjórnunar. Koma þarf í veg fyrir skort á íbúðarhúsnæði og tryggja stöðugt framboð nýbygginga. Jafnframt þarf að standa við gefin loforð um að stórauka framlög til almenna íbúðakerfisins og fyrirbyggja þannig frekari óstöðugleika á leigumarkaði. Setja þarf reglur um skammtímaútleigu húsnæðis til ferðamanna til að draga úr ásælni fjárfesta í almennt íbúðarhúsnæði auk þess að innleiða lög um aukna vernd leigjenda.
Miðstjórn ASÍ áréttar að húsnæðismál eru jafnframt eitt stærsta kjaramálið. Á stjórnvöldum hvílir sú ábyrgð að koma á stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja að allir íbúar landsins hafi þak yfir höfuð á viðráðanlegum kjörum.