Samningur milli Skógræktarinnar og PCC á Bakka Silicon um kaup 2.000 rúmmetrum af timburbolum á ári næstu árin hefur verið undirritaður.
Þreifingar hafa staðið yfir í nokkur misseri um möguleg kaup PCC á timbri frá norðlenskum skógareigendum. Fyrirtækið taldi í upphafi að einungis væri hægt að nota innfluttan við af lauftrjám í framleiðsluna á Bakka en fékk til prófana sýnishorn af íslensku timbri að því er fram kemur í tilkynningu.
„Þessi sýnishorn sýndu að hægt er að nota timbur af öllum helstu trjátegundum í íslenskri skógrækt. Í kísilveri eins og verksmiðju PCC á Bakka er mjög mikilvægt að forðast öll aðskotaefni, svo sem þungmálma og steinefni sem kunna að leynast í timbrinu.“ Timbrið sem kemur úr norðlenskum skógum er nægilega hreint til vinnslu á Bakka m.a. þar sem loftmengun er lítil hér á landi.
Skógarnir verða verðmætari
Auðveldara verður nú eftir samninginn að grisja norðlenska skóga jafnvel þó svo að timbursala til fyrirtækisins standi ekki að fullu undir kostnaði við grisjunina. Slík grisjun stuðlar að því að í skóginum standa áfram bestu trén sem mynda til framtíðar liðið verðmætara timbur. Þannig verða skógarnir verðmætari og eigendur fái meiri arð út úr þeim í fyllingu tímans.
Með því að nota innlent timbur í stað innflutts timburs eða kola í framleiðslu sinni dregur PCC úr umhverfisáhrifum starfsemi sinna. Minni flutningar á timbri leiða til minni losunar á hverja timbureiningu og ef íslenskt timbur leysir af hólmi innflutt kol eru áhrifin enn meiri.
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir, Bændablaðið