Fundað með Samkeppniseftirlitinu um flugmál

Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með Samkeppniseftirlitinu vegna stuðnings stjórnvalda við áætlunarflug innanlands sem að mati félagsins kallar á einokun í flugi á Íslandi. Fundurinn fór fram í Reykjavík síðasta þriðjudag. Fulltrúar frá Flugfélaginu Erni tóku einnig þátt í fundinum að beiðni Framsýnar. Eins og fram hefur komið í fréttum og Framsýn hefur vakið athygli á, er allt áætlunarflug á Íslandi með stuðning í formi ríkisstyrkja eða nýtur ríkisábyrgðar nema áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Húsavíkur. https://www.ruv.is/frett/2021/08/30/hver-flugmidi-nidurgreiddur-um-106-thusund-kronur?fbclid=IwAR09lSxfUh6M2K22y4hAOLdBL30kH9E8Mykt1hrgw0HTwmUpkKF_mBSHL8w

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp sem voru samþykkt á Alþingi haustið 2020 og varða ríkisaðstoð til handa Icelandair er skýrt tekið fram að á þeim mörkuðum sem félagið og dótturfélög þess starfa, hafi eftirlitið verulegar áhyggjur af áhrifum ríkisaðstoðarinnar á samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Þar kemur einnig fram að Air Iceland Connect(nú Icelandair) njóti mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Það er á stærstu flugleiðum innanlands frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugfélagið hafi nánast haft einokunarstöðu á flugi innanlands allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Ljóst sé að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect/Icelandair myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni í innanlandsflugi segir jafnframt í umsögninni.

Ljóst er að Þingeyingar hafa miklar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, ekki síst frá stéttarfélögum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni útaf markaðinum með ýmsum brögðum sem Framsýn hefur þegar komið á framfæri við stjórnvöld og nú við Samkeppniseftirlitið þar sem stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi. Vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeim mikla mótbyr sem flugfélagið býr við um þessar mundir þar sem flugfélagið situr ekki við sama borð og Icelandair er viðkemur styrkjum eða annarri fyrirgreiðslu frá ríkinu.

Á fundinum með Samkeppniseftirlitinu var þessum skoðunum komið vel á framfæri. Í kjölfarið urðu góðar umræður um málið og umsögn eftirlitsins við ríkisaðstoðina til handa Icelandair. Samkeppniseftirlitið þakkaði sérstaklega fyrir þær upplýsingar sem lagðar voru fram á fundinum og fulltrúar þess sögðust taka þær til skoðunar innanhúss.