Kolefnisjöfnun Framsýnar vekur athygli – Bændablaðið fjallar um málið

Í nýjasta Bændablaðinu er góð umfjöllun um ákvörðun Framsýnar að kolefnisjafna starf félagsins. Sagt er frá því að fundarmenn á aðalfundi félagsins hafi fengið að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Þá er tekið fram að með þessum táknræna hætti kolefnisjafni Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum hafi þurft 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín segir í fréttinni. Ljóst er að þetta er góð viðurkenning fyrir starf Framsýnar sem enn og aftur sýnir ákveðið frumkvæði er snýr að verkalýðsmálum og velferð félagsmanna.