Fjárhagsleg afkoma Framsýnar var góð á árinu 2020 þrátt fyrir erfitt rekstrarár og fækkun félagsmanna milli ára úr 3.320 iðgjaldagreiðendum í 2.644. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins. Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 255 milljónum sem er lækkun um 8,4% milli ára. Þessi lækkun skýrist fyrst og fremst af lægri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 215 milljónum 2020 á móti kr. 233 milljónum á árinu 2019 sem er lækkun upp á um 7,8%. Rekstrargjöld lækka að sama skapi um 8% á milli ára en þau námu kr. 198 milljónum. Þessi lækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði og minni umsvifa við fundi, ráðstefnur og námskeið. Greiðslur úr sjúkrasjóði lækkuðu um 9 milljónir samanborið við 2019 en hlutfallslega minna en tekjur sjóðsins. Greiðslurnar eru enn töluvert hærri en árin þar á undan og eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 58 milljónir. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu rúmar kr. 5 milljónir til rekstursins. Í árslok 2020 var tekjuafgangur félagsins kr. 111 milljónir en var kr. 114 milljónir árið 2019. Heildareignir félagsins námu kr. 2.269 milljónum í árslok 2020 samanborið við kr. 2.146 milljónir í árslok 2019. Í lok síðasta árs var samið við Motus um að sjá um innheimtu gagnvart þeim sem ekki standa í skilum við félagið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að stéttarfélög sýni aðhald í rekstri til að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum úr sjúkra,- orlofs- og starfsmenntasjóðum.