Ráðherra spurður út í innanlandsflugið

Sú ágæta þingkona, Anna Kolbrún Árnadóttir, sem situr á þingi fyrir Miðflokkinn hefur óskað eftir skriflegu svari frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi innanlandsflugið. Fyrirspurnin kemur í kjölfar þess að Framsýn hefur gert alvarlegar athugasemdir við stöðu mála. Hvað það varðar, hafa fulltrúar félagsins fundað með forsætisráðherra, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk þess að eiga símafund með forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þá var þingmönnum kjördæmisins skrifað bréf um málið varðandi áhyggjur Framsýnar um að áætlunarflug til Húsavíkur væri í mikilli hættu þar sem verulega vantaði upp á eðlilega samkeppni í innanlandsfluginu. Því miður eigum við Norðlendingar heldur dapra þingmenn, þar sem þeir virðast ekki hafa neinn áhuga fyrir því að flugi verði fram haldið til Húsavíkur þar sem flestir þeirra hafa ekki orðið við beiðni Framsýnar um fund eða samtal um málið.  Reyndar verður það ekki sagt um Önnu Kolbrúnu sem hefur ákveðið að taka málið upp á Alþingi, fyrr það ber að þakka sérstaklega. Greinilegt er að Anna Kolbrún er að vinna vinnuna sína. Meðfylgjandi er fyrirspurn hennar  til ráðherra.

Fyrirspurn

til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um innanlandsflug.

Frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur.

     1.      Til hvaða áfangastaða innan lands er áætlunarflug rekið á markaðslegum forsendum? Hver er lágmarksfjöldi farþega, á ársgrundvelli, til að flugleið falli ekki undir áætlunarflug á markaðsforsendum?
     2.      Hvaða áfangastaðir falla undir skilgreiningu á áætlunarflugi innan lands og hvaða flugfélög fljúga til viðkomandi áfangastaða, sundurliðað eftir áfangastað og flugfélagi?
     3.      Hvaða áfangastaðir innan lands hafa notið ríkisstyrkja á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum og fjárhæð styrks? Hver er fjöldi farþega á þessum flugleiðum á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum?
     4.      Hvaða tæknilegu kröfur eru gerðar um flugvélar sem fljúga til þeirra áfangastaða sem njóta ríkisstyrkja, svo sem hvað varðar farþegafjölda, flutningsgetu fyrir frakt og jafnþrýstibúnað?
     5.      Ef áætlunarflug til Húsavíkur leggst af er þá ætlunin að Þingeyingar og aðrir þeir sem notast við Húsavíkurflugvöll fari um Akureyrarflugvöll? Hverjar eru forsendurnar fyrir því að áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur er ekki ríkisstyrkt með sambærilegum hætti og þekkist um flesta aðra áfangastaði?

Sjá frekar:
https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=151&mnr=819