Útskrift úr Félagsliðabrú

Þekkingarnet Þingeyinga útskrifaði nýlega 12 nemendur úr Félagsliðabrú við hátíðlega athöfn á Fosshótel Húsavík. Athöfnin var aðeins minni í sniðum en upphaflega var áætlað til að tryggja að farið yrði eftir fjöldatakmörkunum. Hver nemandi mátti því aðeins bjóða einum gesti með sér. Úr varð mjög skemmtileg og þægileg stund þar sem nemendur, fjölskyldumeðlimir, starfsfólk Þekkingarnetsins og nokkrir af kennurum komu saman og fögnuðu þessum flotta áfanga. Flestir sem luku náminu eru félagsmenn í Framsýn og Starfsmannafélagi Húsavíkur.

Félagsliðabrúar námið er sniðið að þörfum fólks sem starfar við umönnun aldraðra, sjúkra, fatlaðra og/eða við heimaþjónustu. Það er einingabært og kennt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið skiptist niður á fjórar annir og stendur því yfir í tvö ár.

Stéttarfélögin óska útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann um leið og þau hvetja félagsmenn til að kynna sér námsframboðið sem er í boði hjá Þekkingarneti Þingeyinga á hverjum tíma. Þá minna stéttarfélögin félagsmenn á námsstyrki sem eru í boði hjá stéttarfélögunum. Um er að ræða veglega styrki. Frétt þessi byggir á heimildum sem fram koma á heimasíðu Þekkingarnets Þingeyinga sem jafnframt lánaði okkur meðfylgjandi mynd af útskriftarhópnum.

Glæsilegur útskriftarhópur. Standandi f.h. Kristín Ragnarsdóttir, Svanhvít Jóhannesdóttir, Anita Hólm Sigurðardóttir, Einar Víðir Einarsson, Erla Rögnvaldsdóttir. Sitjandi f.h. Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir, Ásta Petrína Benediktsdóttir, Bergljót Friðbjarnardóttir, Lilja Sigurðardóttir, Rannveig Þórðardóttir. Á myndina vantar Valgerði Friðriksdóttur og Anítu Dröfn Reimarsdóttir.