Forsvarsmenn Framsýnar fóru í góða ferð á dögunum í fiskeldi Samherja í Öxarfirði. Fundað var með starfsmönnum um starfsemi Framsýnar og tekið við fyrirspurnum frá þeim sem voru almennt áhugasamir um félagið sitt. Auk þess gafst fulltrúum Framsýnar tækifæri á að fræðast um starfsemi fyrirtækisins en Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri gaf þeim góða innsýn inn í rekstur fyrirtækisins sem er eitt stærsta landeldisframleiðandi á laxi í heiminum. Árið 2020 var eitt besta árið í sögu fyrirtækisins er framleiðslu varðar, en þá var slátrað um 1700 tonnum af laxi. Stefnt er að því auka framleiðsluna á næstu árum. Eldisstöðin í Öxarfirði hefur nokkra sérstöðu þar sem töluverður jarðhiti er á svæðinu og hægt er að ala laxinn í 10-11 gráðu heitu ísöltu vatni. Laxinn er alinn á hágæða fóðri og fer öll framleiðslan fram í samræmi við ströngustu kröfur kaupenda. Mest af framleiðslunni fer til Bandaríkjanna. Þess má geta að fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á laxi en er með eldi á klakfiski í klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði. Þaðan fara bleikjuhrognin í frekara eldi í stöðvar Samherja á Reykjanesi. Tæplega 30 starfsmenn starfa hjá Samherja – Fiskeldi ehf. í Öxarfirði sem flestir eru í Framsýn stéttarfélagi. Verði af frekari framkvæmdum á vegum fyrirtækisins á næstu árum mun þeim fjölga enn frekar.
Olga Gísladóttir hefur langa starfsreynslu hjá fiskieldi Samherja í Öxarfirði. Öflugt lið starfsmanna starfar hjá fyrirtækinu við framleiðslu á hágæða afurðum úr laxi.