Fréttir af ársfundi Ljs. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn miðvikudaginn 5. maí. Vegna gildandi sóttvarnarreglna var fundurinn haldinn rafrænt en honum var einnig streymt á vefsíðu sjóðsins. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf og var þátttaka góð.

Í ávarpi stjórnarformanns, Erlu Jónsdóttur, kom fram að árið 2020 verði vafalaust lengi í minnum enda atburðarrás þess nokkuð sem enginn sá fyrir. Á fyrsta ársfjórðungi varð ljóst að skæður heimsfaraldur hafði brotist út og vegna áhrifa hans var ávöxtun eigna sjóðsins mjög sveiflukennd innan ársins.

Á fyrsta ársfjórðungi lækkuðu hlutabréf í eignasafni sjóðsins töluvert en lágt áhættustig og dreifð eignasamsetning drógu úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild.

Í kjölfar vaxtalækkana og annarra örvandi aðgerða opinberra aðila til að stemma stigu við áhrifum Covid-19 tóku verðbréfamarkaðir við sér á ný og nam raunávöxtun eigna Stapa árið 2020 ríflega 9%. Sú góða ávöxtun kemur í kjölfarið á tæplega 10% raunávöxtun ársins 2019 og hafa undanfarin ár því verið meðal bestu ára sjóðsins hvað varðar ávöxtun. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,5%.

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris vex áfram hröðum skrefum, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2020 nam hún 295.868 milljónum króna og hækkaði um 39.735 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 288.345 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 7.523 milljónum.

Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 7.140 milljónum króna og hækkuðu um 11,4% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.966 og fjölgaði um 705 frá fyrra ári. 

Stjórnarformaður fór einnig yfir áherslur Stapa í eignastýringu þar sem meðal annars kom fram að á undanförnum misserum hafa svokölluð UFS málefni (umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir) fengið meira vægi í eignastýringu sjóðins. Á árinu 2020 undirritaði sjóðurinn „Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar“. Þá hefur stjórn sett sjóðnum það markmið til lengri tíma að hlutfall erlendra eigna í eignasafni verði allt að 40%. 

Stjórnarformaður gerði jafnframt að umtalsefni vilja stjórnvalda til að framkvæma heildarendurskoðun á lífeyrismálum hér á landi með útgáfu svokallaðrar grænbókar. Hún telur að framsækið réttindakerfi Stapa sem sjóðurinn tók upp árið 2016 gæti verið sniðmát fyrir einfaldað lífeyriskerfi og aukið gagnsæi og mun sjóðurinn koma því á framfæri við vinnslu grænbókarinnar.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, fór því næst yfir ársreikning sjóðsins og helstu lykiltölur deilda sjóðsins. Hann gerði einnig grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sem er jákvæð um 1,5%, en var neikvæð um 0,4% í lok árs 2019. Jákvæða tryggingafræðilega afkomu má rekja til góðrar ávöxtunar á sl. ári auk þess sem samþykktabreytingar sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins 2020 bættu stöðuna um 2.777 millj.kr. Jóhann Steínar fór einnig yfir áhrif og viðbrögð sjóðsins við Covid-19.

Þá fór Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri, yfir fjárfestingarstefnu sjóðsins og ávöxtun það sem af er árinu 2021. Hann fór einnig yfir hluthafastefnu Stapa.

Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins. Einar Ingimundarson og Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttndasviðs, gerðu grein fyrir þeim breytingum og voru þær allar samþykktar. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins.

Stjórnarformaður gerði því næst grein fyrir starfskjarastefnu og var hún samþykkt. Þá var tillaga nefndar um laun stjórnar einnig samþykkt en í henni felst að laun stjórnarmanna hækki í takti við breytingar launavísitölu sl. 12 mánaða og að launin verði tvískipt, annars vegar greidd föst laun og hins vegar greitt fyrir mætingu á hvern fund.

Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 30. mars sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson (formaður), Jónína Hermannsdóttir, Oddný María Gunnarsdóttir og Sverrir Mar Albertsson.

Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (varaformaður), Kristín Halldórsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.

Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.

Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Borghildur Freyja Rúnarsdóttir, Jens Garðar Helgason og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 

Gögn frá ársfundinum: