Alþjóðlegur baráttudagur hinna vinnandi stétta er að renna upp. Þann 1. maí ber verkafólk um heim allan fram kröfur um aukin jöfnuð og jafnrétti um leið og mótmælt er þeirri miklu misskiptingu sem þrífst víða um heim. Horfir jafnframt um öxl og minnist þeirra sigra sem áunnist hafa, en það sem mestu máli skiptir er að líta til framtíðar. Saga verkalýðsbaráttunnar er orðin löng, en sagt er að hún hafi þróast samhliða fyrstu iðnbyltingunni á síðari hluta átjándu aldar og verið andsvar verkalýðsins við verksmiðjuþrælkun og uppgangi kapítalisma í Evrópu. Fyrstu stéttarfélögin voru stofnuð af iðnaðarmönnum á Bretlandi er verkafólk var án nokkurra réttinda á vinnumarkaði og algjörlega háð framboði á markaði og eftirspurn atvinnurekenda. Hugmyndin um starfsemi stéttarfélaga féll í grýttan jarðveg hjá atvinnurekendum, enda braut hún í bága við grundvallarkenningar frjálsrar samkeppni og stóð í vegi fyrir frjálsri verðmyndun. Starfsemi verkalýðshreyfingarinnar þróaðist síðan sem sjálfstætt afl sem gætir réttinda launafólks um heim allan og hafa aðgerðir hreyfingarinnar frá fyrstu tíð haft mikið að segja um þróun og mótun samfélaga.
Mikilvægi stéttarfélaga
Undir lok 19. aldar voru fyrstu stéttarfélögin stofnuð hér á landi. Sum þeirra entust stutt, en önnur döfnuðu og með vaxandi meðvitund íslenskrar alþýðu um sín bágu kjör efldist hreyfingin. Stéttarfélög eru einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs og hafa í gegnum tíðina barist fyrir bættum kjörum og aðbúnaði launafólks. Í blámóðu fortíðar getum við greint sárafátækt fólk reyna að létta af sér þrældómsokinu og heygja baráttu gegn arðráni og kúgun. Þeirra barátta var knúin áfram af neyð. Við sem á eftir komum njótum afraksturs fórna þeirra, en erum kannski ekkert sérstaklega að velta okkur upp úr því hvernig þessi réttindi eru til komin, eða með hvaða hætti þau hafa ávaxtað sig. Aðstæður á vinnumarkaði hafa tekið miklum breytingum frá upphafsárum hreyfingarinnar, en fyrstu áratugi tuttugustu aldarinnar litaðist íslensk verkalýðsbarátta af átökum á vinnumarkaði og róstusömum aðgerðum, þar sem kné var gjarnan látið fylgja kviði. Nokkur annar háttur er hafður á samningaviðræðum í dag. Segja má að viðræður aðila vinnumarkaðarins einkennist í stórum dráttum af faglegum vinnubrögðum, reyndar með undantekingum þar sem leitað er málamiðlana. Hlutverk stéttarfélaga hefur því breyst í samræmi við þróun samfélagsins, en mikilvægi þeirra fyrir réttindagæslu og hagsmunabaráttu félagsmanna er og verður hið sama og áður. Kannski hefur einmitt aldrei verið mikilvægara en nú að launafólk eigi sér sterka málsvara.
Fjórða iðnbyltingin mál málanna
Flestir telja fjórðu iðnbyltinguna muni færa okkur nýja veröld. Rauði þráðurinn í gegnum fyrri þrjár iðnbyltingar hefur verið sjálfvirknivæðing. Þar sem vélarafl hefur leyst vöðvaafl manna og dýra af hólmi, eða allt frá því að gufuvélin markaði þáttaskil í fyrstu iðnbyltingunni og var upphafið af iðnaði eins og við þekkjum í dag. Það má segja að þriðja iðnbyltingin hafi kortlagt líf okkar á nýjan hátt. Farsímar, tölvur og upplýsingatækni hafa breytt öllum siðum okkar og venjum á undra skömmum tíma. Fjórða iðnbyltingin sem þegar hefur umvafið líf okkar viðheldur þeirri þróun áfram, en gengur mikið lengra. Hennar helstu einkenni munu verða gervigreind, róbótatækni, Internet hlutanna og sjálfvirknivæðing. Þó við séum almennt ekki farin að sjá sjálfkeyrandi bíla á þjóðvegum landsins, þá er áhrifa byltingarinnar þegar farið að gæta í vinnu og framleiðslu á mörgum sviðum atvinnulífsins. Tækniframfarir hafa kollvarpað og stóreflt alla vinnslu í sjávarútveginum og margfaldað þar með útflutningsverðmæti afurða, í verslunum hafa sjálfsafgreiðslukassar rutt sér til rúms á örfáum árum, hraðbankar hafa komið í stað þjónustufulltrúa bankana og róbótar sjá um mjaltir á mörgum kúabúum á landsbyggðinni. Og hér er einungis fátt eitt talið.
Launafólk þarf sterka málsvara
Þær gríðarlegu breytingar sem áunnist hafa með tækniþróun síðustu 250 ára og ítrekað hafa umbylt samfélögum um víða veröld, hafa sannarlega átt sinn þátt í því að leggja grunn að betri lífskjörum manna. Það er engum manni fært að spá fyrir um það á þessari stundu hvort tækniframfarir fjórðu iðnbyltingarinnar muni koma til með fækka störfum og ógna þar með lífsafkomu fólks, eða hvort þær muni skapa ný og betri störf. Við vitum þó nú þegar, að með aukinni sjálfvirknivæðingu minnkar þörfin fyrir vinnandi hendur og æ fleiri starfsstéttir eru að úreldast. Sífellt fækkar störfum sem ekki krefjast einhverskonar sérþekkingar, þjálfunar eða menntunar. Þeir sem missa störfin við þessar aðstæður hlaupa ekki svo auðveldlega í aðra vinnu. Má þar sérstaklega nefna fólk með litla formlega menntun, en sá hópur er um fjórðungur fólks á vinnumarkaði. Vel þarf að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þessar breytingar með aukinni fræðslu og menntun.
Kapitalískt umhverfi
En þá erum við kannski að komast að kjarna málsins. Kapítalískt hugmyndakerfi hefur frá fyrstu tíð beint fólki í þá átt að græða sem mest af peningum án tillits til annara þátta. Það hefur ekkert breyst. Ástæður tækniþróunar fyrirtækja eru því ekki hvað síst tilkomnar af viðleitni eigenda þeirra til að auka hagnað sinn og arðsemi með því að lækka framleiðslukostnað. Afrakstur vinnunnar skilar sér áfram í fárra manna hendur með tilheyrandi misskiptingu. Fyrir það mun verkafólk framtíðarinnar þurfa að verja sinn rétt, eins og forverar þeirra gerðu í árdaga hreyfingarinnar. Samhliða öðrum breytingum á vinnumarkaði hefur það gerst víða erlendis að verkalýðshreyfingin hefur veikst og laun ekki þróast í samræmi við aukna framleiðni og verðmætasköpun. Verði þróunin hér á landi sú sama mun það umhverfi sem blasir við kynslóðinni sem er að hefja störf á vinnumarkaði í dag verða allt annað en það sem kynslóðin sem á undan tókst á við. Hætt er við að aukin áhersla verði á ýmis form skammtímaráðninga, lausamennsku eða jafnvel í formi verktakaráðninga þar sem fyrirtæki koma sér undan því að axla ábyrgð á viðkomandi launamanni. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu, framtíð verkalýðshreyfingarinnar byggir á því að hún haldi vöku sinni. Að hún sé sífellt á varðbergi og reiðubúin að ganga í takt við komandi breytingar í atvinnulífinu. Stærsta áskorun hreyfingarinnar um þessar mundir er að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þær miklu breytingar sem eru í vændum á vinnumarkaði. Horfa þarf til þess hver staða stéttarfélaga er og verður gagnvart aukinni tækniþróun og hvaða áhrif framvinda tækninnar mun hafa á störf og samfélagið allt í nánustu framtíð. Stéttarfélögin þurfa því ekki einungis að gæta hagsmuna og mæta væntingum núverandi félagsmanna, heldur þurfa þau einnig að horfa til framtíðar með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.
Samtakamátturinn skiptir máli
Hér á landi er aðild fólks að stéttarfélögum sú mesta sem þekkist, sem styrkir stöðu launafólks og þar með kjarasamningsumhverfið. Stéttarfélög hafa líklega aldrei haft mikilvægari hlutverki að gegna en einmitt í dag, þar sem sífellt eru gerðar auknar kröfur um þjónustu og öflugt starf að kjara- og réttindamálum. Breyttir atvinnuhættir kalla á nýjar áherslur og vinnubrögð til framtíðar og fela í sér áskoranir, en einnig tækifæri til að brjóta niður múra og tileinka sér nýja hugsun. Sagan segir okkur að stéttarfélögin sem áður voru litlar einingar í öllum landsfjórðungum hafi sameinist í stærri fylkingar. Með sameiningu félaganna hafa þau eflst og sjóðir þeirra styrkst, s.s. sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóðir. Haldi þessi þróun áfram munu félögin fá aukna burði til að auka hagræðingu í rekstri og öðlast meiri slagkraft, félagsmönnum til hagsbóta. Stærð félagsins má samt aldrei verða til þess að félagsmaðurinn fjarlægist sitt stéttarfélag.
Góðir félagar. Stéttarfélögin munu hér eftir sem hingað til byggja á samtakamætti fólksins sem í þeim er á hverjum tíma. Höfum það í huga nú þegar við höldum hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag launafólks. Gleymum okkur samt ekki í gleðinni og verum minnug þess að „allir dagar eru baráttudagar.”
Ósk Helgadóttir,
varaformaður Framsýnar
Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar