Fundað með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Formaður Framsýnar átti fund með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í gær ásamt þremur öðrum úr ráðuneytinu sem sátu fundinn.  

Framsýn hafði áður óskað eftir fundi með ráðherra um framtíð áætlunarflugs til Húsavíkur, ekki síst í ljósi þess að allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar nema flugið til Húsavíkur. Að mati Framsýnar stefnir allt í einokun á flugi á Íslandi í boði stjórnvalda nema brugðist verði við þegar í stað. Framsýn treystir því að núverandi stjórnvöld bregðist við og forði stórslysi í þessum málum. Á fundinum í gær skiptust ráðherra og formaður Framsýnar á skoðunum um málið. Í máli ráðherra kom meðal annars fram, sem styður fullyrðingar Framsýnar, að hann hafi verulegar áhyggjur af fákeppni á markaðinum.

Formaður mun gera stjórn Framsýnar grein fyrir fundum sínum með forsætisráðherra, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forstjóra Samkeppniseftirlitsins á stjórnarfundi síðar í dag.