Formaður fundaði með stjórnendum Húsasmiðjunnar

Athygli vakti á dögunum þegar fréttir bárust af því að Húsasmiðjan hefði sagt upp leigu á verslunarhúsnæði fyrirtækisins á Húsavík. Viðbrögð heimamanna létu ekki á sér standa enda afar mikilvægt að Húsasmiðjan haldi úti öflugri verslun á Húsavík. Mikill uppgangur hefur verið á svæðinu á undanförnum árum sem ekki er séð fyrir endann á. Hér er ekki síst verið að vísa til uppbyggingarinnar á Bakka og Þeistareykjum. Samhliða hafa verið töluverðar framkvæmdir í byggingariðnaði á svæðinu auk þess sem milljarða framkvæmdir standa nú yfir í Kelduhverfi og Öxarfriði er tengjast uppbyggingu í fiskeldi á landi. Þá eru stórar framkvæmdir á teikniborðinu s.s. uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, Þörungaverksmiðja auk annarra smærri verkefna.  Óhætt er að segja að það sé bjart framundan í byggingariðnaði í Þingeyjarsýslum og því ekki síst mikil þörf fyrir öfluga byggingarvöruverslun. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að síðasta ár hefði verið eitt það besta í sögu Húsasmiðjunnar, byggingarvöruverslunin hefði velt um 20 milljöðrum og hagnaður fyrir skatt hefði verið um 900 milljónir og þá hafi veltan aukist um 7% milli ára sem eru afar jákvæðar fréttir.

Með þessar upplýsingar í bakpokanum gekk formaður Framsýnar á fund yfirmanna Húsasmiðjunnar í Reykjavík og hvatti þá til þess að efla starfsemi verslunarinnar á Húsavík. Fundurinn fór fram síðasta fimmtudag. Áður hafði málið verið til umræðu innan stjórna Framsýnar og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum auk þess sem formaður Framsýnar fundaði með starfsmönnum Húsasmiðjunnar á Húsavík. Einnig náðist að funda með nokkrum verktökum í Þingeyjarsýslum um stöðuna. Alls staðar kom fram mikill velvilji í garð Húsasmiðjunnar. Að sjálfsögðu höfðu menn skoðanir á vöruúrvalinu og þjónustu við viðskiptavini. Það mætti alltaf bæta þann þátt.

Fundur formanns Framsýnar með forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar var vinsamlegur í alla staði. Skilaboðunum var vel tekið. Fram kom að Húsasmiðjan væri með verslunarreksturinn til skoðunar og ekkert hefði verið ákveðið endanlega varðandi starfsemina á Húsavík en staðbundni reksturinn hafi reynst þungur undanfarin ár í harðri verðsamkeppni við stærri verslanir, pantanir afgreiddar annars staðar frá og aukna netverslun. Stéttarfélögin óskuðu eftir því að fá að fylgjast með framvindu mála og starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík yrðu upplýstir um stöðuna á hverjum tíma.