Það var öflugt lið sem kom til móts við stjórnir Framsýnar og Þingiðnar á fundi á Húsavík í gær. Stjórn Framsýnar-ung tók einnig þátt í fundinum. Forsetateymi ASÍ ásamt framkvæmdastjóra sambandsins Höllu Gunnarsdóttur litu við en þau eru á hringferð um landið. Tilgangur ferðarinnar er að funda með stjórnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og heyra í þeim hljóðið og hvað brennur helst á þeim varðandi það sem betur má fara í starfi sambandsins. Á fundinum í gær skiptumst fundarmenn á skoðunum um málefni Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar almennt auk þess sem starfsemi stéttarfélaga var til umræðu sem og atvinnuástandið sem er verulega slæmt um þessar mundir.
Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar kölluðu eftir meiri skilningi á stöðu félagsmanna innan stéttarfélaga á landsbyggðinni. Eðlilegt væri að ASÍ beitti sér fyrir meiri jöfnuði burt séð frá búsetu. Meðal annars var komið inn á þann mikla kostnað fólks sem fylgir því að sækja sér læknishjálp eða menntun fjarri heimabyggð, ekki síst fyrir láglaunafólk á landsbyggðinni.
Þá kom fram gagnrýni á Bjarg sem er íbúðafélag stofnað af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma. Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar komu þeim skilaboðum á framfæri að þeir vildu sjá Bjarg koma til móts við þarfir fólks sem víðast um landið, ekki bara nánast á höfuðborgarsvæðinu. Meðan svo væri stæði Bjarg ekki undir nafni sem kostur fyrir tekjulágar fjölskyldur að eignast öruggt húsaskjól.
Kallað var eftir því að öll störf á vegum ASÍ væru auglýst laus til umsóknar en óánægju hefur gætt innan hreyfingarinnar með að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum.
Umræður urðu um síðasta þing ASÍ þar sem sú breyting varð á að ekki var lengur pláss fyrir forseta af landsbyggðinni eins og sátt hefur verið um fram að þessu. Núverandi forsetar ASÍ koma allir af höfuðborgarsvæðinu en þeim var fjölgað um einn á síðasta þingi sambandsins, það er varaforsetum sem eftir samþykktar breytingar eru þrír. Framsýn hefur haldið því fram að það sé óásættanlegt með öllu, sjónarmmið launþega á landsbyggðinni verði þar með undir í umræðunni, ekki síst varðandi stefnumótun ASÍ í stórum og þýðingarmiklum málum.
Þá töldu fulltrúar Framsýnar rétt að taka upp umræðu um launakjör annars vegar hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga og hins vegar á almenna vinnumarkaðinum. Fyrir liggur að launakjör fólks á almenna vinnumarkaðinum hafa dregist verulega aftur úr launakjörum starfsmanna hjá hinu opinbera. Fulltrúar Framsýnar komu þeim ábendingum á framfæri við forsetateymið að þetta væri varhugaverð þróun. Mikilvægt væri að gera átak í að bæta kjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum.
Fulltrúar Framsýnar komu því skýrt á framfæri við forsetateymið að félagið legðist alfarið gegn því að endurvekja SALEK-samkomulagið í formi Grænbókar sem stjórnvöld hafa lagt mikið upp úr að nái fram að ganga. Nefnd um gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál var sett á laggirnar í nóvember í fyrra og ætlað að skila tillögum sínum til forsætisráðherra í apríl. Framsýn hefur verið afar gagnrýnin á SALEK-samkomulagið. SALEK er norrænt vinnumarkaðsmódel og er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Verði SALEK að veruleika dregur það úr vægi félagsmanna stéttarfélaga að hafa áhrif á sín mál er viðkemur kjarabaráttu sem er andstætt þeim reglum sem hafa gilt á íslenskum vinnumarkaði fram að þessu. Eðlilega hugnast Framsýn ekki þess vegferð í nafni SALEK að draga úr vægi launamanna að hafa áhrif á sín mál, reyndar eru skiptar skoðanir um málið innan hreyfingarinnar.
Í heildina var fundurinn góður og þess er vænst að forsetateymið fylgi eftir þeim áherslum sem fram komu á fundinum.
Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ er hér með forsetunum; Kristján Þórður Snæbjarnarson, Drífa Snædal, Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson.
Forsetateymi ASÍ fundaði með stjórnum Þingiðnar, Framsýnar og Framsýnar-ung í gærkvöldi. Fundurinn fór vel fram og skiptust menn á skoðunum um málefni verkalýðshreyfingarinnar.
Guðmunda formaður Framsýnar-ung og Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ hugsandi yfir ræðu formanns Framsýnar sem væntanlega hefur ekki verið gáfuleg.