Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur gefið út nýja reglugerð um vinnustaðanám sem tekur gildi 1. ágúst næstkomandi. Reglugerðin felur í sér grundvallarbreytingu í þjónustu við nemendur, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
Þar kemur fram að með nýju reglugerðinni færist ábyrgðin á vinnustaðanáminu yfir á skólana sjálfa. Fram til þessa hafa nemendur verið sjálfir ábyrgir fyrir því að komsat á námssamning.
Skólarnir munu bera ábyrgð á því að finna vinnustað þar sem neminn fær leiðsögn og æfingu við raunaðstæður. Ef ekki tekst að koma nemanda á samning tekur við svokölluð skólaleið, þar sem skólinn þarf að sjá til þess að nemandinn fái þá þjálfun sem hann þarf. Það getur verið þjálfun á fleiri en einum vinnustað.
Loks felur reglugerðin í sér að horft verður til hæfni nemandans við ákvörðun um lengd vinnustaðanáms. Hæfnisþættir hafa verið skilgreindir fyrir hverja námsgrein og þarf nemandinn að ná tökum á þeim handbrögðum. Á vefnum segir að fyrir vikið verði vinnustaðanámið markvissara en verið hefur – og nemendur hafi tök á því að útskrifast fyrr.
Fram kemur að ráðuneytið muni vinna náið með hagsmunaaðilum að frekari þróun verkferla í tengslum við reglugerðina, sem og skipulagi náms.