Fjölgum hlutastörfum og aukum sveigjanleika á vinnumarkaði

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður sinnir því mikilvæga hlutverki að styðja og efla starfsgetu einstaklinga sem hafa vilja og getu til þess að komast aftur á vinnumarkað eftir veikindi eða slys.

VIRK leggur áherslu á að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir einstaklinga í þjónustu og styðja þá til endurkomu inn á vinnumarkaðinn. Á hverju ári útskrifast fjöldi einstaklinga úr starfsendurhæfingu frá VIRK og er tæplega 80% þeirra virk á vinnumarkaðinum við útskrift; fer í vinnu, nám eða virka atvinnuleit. Árið 2020 útskrifuðust 1.601 einstaklingur frá VIRK og voru 1.265 þeirra, eða 79% af þeim, virkir á vinnumarkaði við útskrift.

Umtalsverður hluti þeirra sem útskrifast úr starfsendurhæfingu fara aftur til sinna fyrri starfa eða í ný störf með aðstoð ráðgjafa VIRK í starfsendurhæfingu. Þó er ávallt ákveðinn hluti einstaklinga sem ljúka þjónustu hjá VIRK en eru enn með skerta starfsgetu við útskrift. Þessi hópur þarf oft aukna aðstoð við að komast inn á vinnumarkaðinn á farsælan hátt og því stendur þeim til boða að þiggja þjónustu frá sérstökum atvinnulífstenglum sem starfa hjá VIRK.

VIRK Atvinnutenging

Þegar ráðgjafar VIRK telja að einstaklingar í starfsendurhæfingu gætu nýtt sér frekari aðstoð við endurkomu á vinnumarkað geta þeir vísað þeim til atvinnulífstengla VIRK. Þjónustan sem atvinnulífstenglar veita er meðal annars aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs, undirbúningur fyrir atvinnuviðtöl og aðstoð við atvinnuleitina sjálfa. Meginmarkmiðið er að undirbúa þessa einstaklinga sem best fyrir atvinnuleit og fylgja þeim síðan eftir, jafnvel eftir að í starf er komið eða eins og þörf er á, en ferlið er sniðið eftir þörfum hvers og eins.

Lögð er áhersla á að þeir þjónustuþegar sem þess þurfa fái tækifæri til að koma inn á vinnumarkaðinn með stigvaxandi hætti og í þeim tilfellum er oft unnin sérstök virkniáætlun í samvinnu við einstaklingana sjálfa og yfirmenn þeirra. Í slíkum áætlunum er tekið mið af verkefnum, vinnuferlum, aðstæðum og vinnutíma á viðkomandi vinnustað.

Lögð er áhersla á að styðja bæði einstaklinginn og ekki síður vinnustaðinn. Meðan á eftirfylgni stendur aðstoða atvinnulífstenglar við úrlausn vandamála sem upp geta komið í endurkomuferlinu í samráði við starfsmanninn og vinnustaðinn.

Gott samstarf við fyrirtæki

Markmiðið með atvinnutengingunni er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að tengja einstaklinga við störf við hæfi og útvega fyrirtækjum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi.

Gott samstarf við fyrirtæki er því grundvöllur farsællar atvinnutengingar. Atvinnulífstenglar VIRK gegna lykilhlutverki í því að tengja einstaklinga við fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja og aðstoða einstaklinginn, en ekki síður vinnustaðinn, við aðlögun og endurkomu til vinnu.

Samstarf við fyrirtæki og stofnanir hefur gengið vel og viðtökur verið góðar. Yfir 1.300 fyrirtæki eru skráð inni í upplýsingakerfi VIRK og er stór hluti þeirra með skráða tengiliði, en það auðveldar öll samskipti við fyrirtækin þegar leitað er að störfum hjá þeim. Af þessum fyrirtækjum eru yfir 300 fyrirtæki búin að undirrita sérstakan samstarfssamning við VIRK. Í gegnum allt þetta ferli hafa hundruð einstaklinga fengið vinnu með aðstoð atvinnulífstengla VIRK.

Könnunin kallaði fram samfélagslegt mikilvægi þess að skapa rými á vinnumarkaðinum fyrir einstaklinga með mismunandi starfsgetu með því m.a. að fjölga hlutastörfum.

Mikilvægi hlutastarfa

Þátttaka á vinnumarkaði á Íslandi er mismunandi milli hinna ýmsu þjóðfélagshópa, t.d. er atvinnuþátttaka einstaklinga með skerta starfsgetu minni en hjá einstaklingum með fulla starfsgetu. Einstaklingar með skerta starfsgetu sem eru á vinnumarkaðinum eru einnig mun líklegri til að vera í hlutastörfum í samanburði við þá sem eru með fulla starfsgetu.

Rannsóknir sýna að það að vera með vinnu er mikilvægt fyrir bæði heilsu og velferð einstaklingsins og því er mikilvægt að fjölga tækifærum einstaklinga með skerta starfsgetu til þátttöku á vinnumarkaði. Fjölgun hlutastarfa á íslenskum vinnumarkaði væri ein leið til þess en samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru einungis um 23% af öllum störfum í landinu skilgreind sem hlutastörf.

Telja mögulegt að fjölga hlutastörfum

Skráning fyrirtækja hjá VIRK hófst árið 2016 í tengslum við þróunarverkefnið Aukin atvinnutenging í starfsendurhæfingu, sem við lok verkefnis var innleitt inn í ferli starfsendurhæfingar sem VIRK Atvinnutenging. Árið 2018 fékk VIRK gott tækifæri til að skoða afstöðu fyrirtækja sem skráð voru í upplýsingagrunn VIRK. Það ár tók VIRK þátt í undirbúningi og útfærslu á rannsókn sem velferðarráðuneytið stýrði, þar sem kanna átti styðjandi og hindrandi þætti fyrir atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu út frá sjónarmiðum atvinnurekenda.

Spurningakönnunin var framkvæmd af Gallup og var um að ræða þversniðskönnun meðal íslenskra fyrirtækja, fyrsta könnunin sem gerð hefur verið á viðhorfum vinnuveitenda á Íslandi gagnvart því að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu í vinnu.

Niðurstöður könnunarinnar, sem kynntar voru í ársriti VIRK 2019 og sjá má hér, sýna m.a. að nær helmingur fyrirtækjanna (45%) sem tóku þátt í rannsókninni töldu mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum þeirra.

Niðurstöðurnar sýndu einnig að vinnuveitendur með fyrri reynslu af því að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu voru marktækt líklegri til að vilja ráða aftur slíka starfsmenn á næstu tveimur árum og þeir voru líka líklegri til að telja mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum. Tæp 60% fyrirtækjanna sem höfðu reynslu af því að ráða starfsmenn með skerta starfsgetu sögðu reynsluna hafa verið frekar eða mjög góða. Einungis 4% fyrirtækjanna sögðu reynsluna hafa verið frekar eða mjög slæma. Fyrirtækin með góða reynslu af slíkum ráðningum voru líka marktækt líklegri til að svara játandi að hægt væri að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum þeirra.

VIRK leitar stöðugt eftir samstarfi við ný fyrirtæki og stofnanir sem eru hvött til þess að afla sér nánari upplýsinga á virk.is eða hafa samband við atvinnulífstengla VIRK með því að senda póst á atvinnutenging@virk.is.

Fjölbreytileiki á vinnumarkaði mikilvægur

Í könnuninni kom einnig skýrt fram mikilvægi þess að vera í góðu sambandi við vinnuveitendur, þar sem þátttakendur frá fyrirtækjum sem voru úr upplýsingagrunni VIRK en þau höfðu fengið sérstaka kynningu á starfsemi VIRK og atvinnutengingu fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, sýndu jákvæðari viðhorf en önnur fyrirtæki í rannsókninni gagnvart þessum hópi starfsmanna hvað varðar t.d. fjarveru frá vinnu og sveigjanleika í vinnu. Þeir töldu enn fremur að fjölbreytileikinn sem skapaðist við að ráða starfsmenn með skerta starfsgetu væri mikilvægur fyrir vinnustaðinn.

Könnunin kallaði fram samfélagslegt mikilvægi þess að skapa rými á vinnumarkaðinum fyrir einstaklinga með mismunandi starfsgetu með því m.a. að fjölga hlutastörfum.

Hafðu samband!

Mikilvægur þáttur í starfi atvinnulífstengla VIRK er að vera í góðu sambandi við vinnustaði og veita bæði almenna fræðslu og stuðning sem og meira sérhæfða ráðgjöf þegar einstaklingar sem eru að ljúka starfsendurhæfingu eru að koma til baka inn á vinnustaðinn.

VIRK leitar stöðugt eftir samstarfi við ný fyrirtæki og stofnanir sem eru hvött til þess að afla sér nánari upplýsinga á virk.is eða hafa samband við atvinnulífstengla VIRK með því að senda póst á atvinnutenging@virk.is.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar.