Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er mikill efnahagssamdráttur á Íslandi sem tengist heimsfaraldrinum. Reyndar er talað um einn mesta efnahagssamdrátt í heila öld. Almennt atvinnuleysi á Íslandi er um 11,6% um þessar mundir og jókst úr 10,7% milli mánaða, það er milli desember og janúar. Almennt er atvinnuleysið mest á Suðurnesjunum eða um 24,5%. Á Norðurlandi eystra, þar á meðal á félagssvæði Framsýnar, er það um 10%. Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík fylgist stöðugt með gangi mála á vinnumarkaði og fjölda félagsmanna. Athygli vekur að greiðandi félagsmönnum fækkaði verulega milli ára eða úr 3.079 í 2.648 félagsmenn árið 2020. Ástæðan er einföld, verulegur samdráttur í atvinnulífinu, sérstaklega í ferðaþjónustu, hefur leitt til þess að félagsmönnum hefur fækkað umtalsvert. Samhliða þessu hafa tekjur Framsýnar farið niður enda mun færi sem greiða félagsgjald til félagsins milli ára. Ekki er ólíklegt að tekjuskerðingin milli ára 2019/20 verði um 12 til 15% þegar tekið er tillit til félagsgjalda og kjaratengdra gjalda s.s. greiðslna atvinnurekenda í orlofs- og sjúkrasjóð félagsins