Forsvarsmenn Framsýnar funduðu í morgun með fulltrúum PCC um málefni framleiðslustarfsmanna og annarra starfsmanna fyrirtækisins í hliðarstörfum. Unnið er að því að gera breytingar á vinnutíma starfsmanna, það er að áfram verði unnið á 12 tíma vöktum við framleiðsluna á sólahringsvöktum þegar framleiðslan fer aftur á stað í apríl, það er ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir. Jafnframt verði starfsmönnum boðið að ráða sig á dagvaktir og/eða í dagvinnu sem yrði mikið framfaraspor og auðveldaði um leið fleirum að sækja vinnu á Bakka, ekki síst heimamönnum.
Reiknað er með að ráða þurfi um 50 til 60 starfsmenn til starfa á næstu mánuðum. Framsýn hefur allt frá upphafi lagt mikið upp úr því að starfsmenn PCC hefðu val um það að ráða sig á sólahringsvaktir, dagvaktir og/eða í dagvinnu. PCC hefur tekið þeim hugmyndum afar vel og hafa unnið að því fylgja þeim eftir enda gæti það einnig hentað starfsemi fyrirtækis vel. Fundurinn í morgun snerist meðal annars um það að hrinda þessum breytingum í framkvæmt enda stjórnendur fyrirtækisins opnir fyrir breytingum á núverandi vinnutíma starfsmanna. Til viðbótar má geta þess að áhugi er meðal aðila að gera breytingar á núverandi bónuskerfi og ákvæðum um hæfniramma sem varðar framgang starfsmanna í starfi. Þeirri vinnu verður framhaldið á næstu vikum. Að venju var fundurinn í morgun vinsamlegur enda markmið beggja aðila að eiga gott samstarf um málefni starfsmanna og fyrirtækisins.
Það var vetrarlegt út á Bakka í morgun þegar viðræður Framsýnar og forsvarsmanna PCC fóru fram.