Ef marka má boðaðar komur skemmtiferðaskipa til Húsavíkur næsta sumar er að lifna verulega yfir ferðaþjónustunni eftir erfiða tíma á árinu sem er að líða. Samkvæmt heimildum heimasíðu stéttarfélaganna hafa aldrei fleiri komur skemmtiferðaskipa verið bókaðar til Húsavíkur eins og sumarið 2021 eða 54 komur skemmtiferðaskipa. Til samanburðar má geta þess að 46 komur skemmtiferðaskipa voru skráðar til Húsavíkur sumarið 2020. Ekkert varð hins vegar úr því að þau kæmu vegna heimsfaraldursins. Eins og fram kemur í fréttinni eru 54 komur skemmtiferðaskipa bókaðar til Húsavíkur í sumar og þegar hafa verið bókaðar 33 komur skipa til Húsavíkur sumarið 2022 sem án efa á eftir að fjölga umtalsvert þegar fram líða stundir. Að sjálfsögðu eru heimsóknir skemmtiferðaskipa háðar því að takist að vinna á kórónuveikinni og menn geti farið að ferðast aftur frjálsir um heiminn eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Vissulega eru þetta góðar fréttir enda gangi þessar áætlanir eftir og mönnum takist að vinna á kórónuveikinni öllum til hagsbóta með aðgæslu og nýja bóluefninu við veirunni sem þegar er komið í umferð, þar á meðal á Íslandi. Í það minnsta skulum við vera jákvæð fyrir því að þetta raungerist.
Þórir Örn Gunnarsson hafnarvörður á Húsavík er klár að taka á móti skemmtiferðaskipum næsta sumar enda verði ástandið í heiminum orðið eins og það var fyrir Covid-19.