Gunnar Gíslason framkvæmdarstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins GPG Seafood á Húsavík, heilsaði upp á formann Framsýnar fyrir jólahátíðina. Hann tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins 1. september af Páli Kristjánssyni.
Gunnar starfaði áður á fjármálamarkaði við fjármögnun sjávarútvegsfyrirtækja bæði á Íslandi og erlendis. Þá hefur hann einnig starfað fyrir Samskip í Bremen og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, einnig þekkt sem Icelandic Group, við sölu sjávarafurða.
Gunnar er með MBA gráðu frá Háskóla Reykjavíkur, BSc í útflutningsmarkaðsfræði frá Tækniskóla Íslands og er löggiltur verðbréfamiðlari.
GPG Seafood hefur höfuðstöðvar á Húsavík en jafnframt starfsemi á Raufarhöfn og Bakkafirði. Félagið gerir út fjóra báta og eru áherslunar í framleiðslunni saltfiskvinnsla, fiskþurrkun, hrognavinnsla og frysting uppsjávarfisks. Félagið er í eigu Gunnlaugs Karls Hreinssonar sem jafnframt er stjórnarformaður félagsins.
GPG Seafood/GPG-Fiskverkun er með öflugri fyrirtækjum á félagssvæði Framsýnar. Eins og áður hefur komið fram hefur fyrirtækið nýlega fjárfest í tveimur nýjum og öflugum fiskiskipum sem eru væntanleg norður til Húsavíkur/Raufarhafnar á nýju ári. Gunnar lagði áherslu á að fyrirtækið vildi eiga gott samstarf við Framsýn auk þess sem hann fór yfir helstu áherslur fyrirtækisins í rekstri og starfsmannamálum. Þess má geta að Framsýn hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við stjórnendur GPG á hverjum tíma.