Aðalfundur Fiskifélags Íslands var haldinn síðasta föstudag. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu var fundurinn rafrænn. Aðilar að Fiskifélaginu eru hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, það er sjómanna, landverkafólks, útgerðar og fiskvinnslu. Það eru alls sex heildarsamtök innan FÍ. Seturétt á fundinum höfðu 39 fulltrúar. Fundurinn fór vel fram og umræður málefnalegar. Í lok fundar var gengið frá kjöri á nýrri stjórn. Meðal stjórnarmanna er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Hann er tilnefndur af Starfsgreinasambandi Íslands ásamt einum öðrum en sambandið á rétt á tveimur fulltrúum í stjórn FÍ. Aðalsteinn Árni hefur verið fundarstjóri á þessum aðalfundum síðustu ár sem yfirleit hafa verið haldnir á Grand Hótel Reykjavík. Eins og fram kemur í fréttinni var fundurinn í ár rafrænn og var formaður Framsýnar beðinn um að stjórna aðalfundinum frá Húsavík í gegnum tölvu sem gekk afar vel. Ljóst er að tæknin hefur komið að góðum notum á tímum heimsfaraldurs.