Afar ánægjulegar fréttir – PCC fjölgar starfsmönnum

PCC Bakki mun ráða til sín fleiri starfsmenn að nýju upp úr áramótunum, gangi áætlanir eftir, en vonir standa til að verksmiðjan verði ræst á nýjan leik að vori.

PCC greip til tímabundinnar stöðvunar á ofnum verksmiðjunnar í ágúst sl. til að gera nauðsynlegar endurbætur á reykhreinsivirki hennar. Vegna erfiðra heimsmarkaðsaðstæðna sem sköpuðust í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins var ákveðið að endurræsa verksmiðjuna ekki að svo stöddu.

Í kjölfarið þurfti óhjákvæmilega að grípa til hópuppsagna, en enn starfa þó ríflega 50 manns hjá fyrirtækinu sem vinna markvisst að frekari endurbótum á búnaði og undirbúningi endurræsingar.

Undanfarna mánuði hafa markaðir aðeins rétt úr kútnum, þó ekki svo að verð geti enn talist viðunandi. Vonir standa þó til að með vorinu munum við bæði sjá fram á lægri framleiðslukostnað sem og betri markaðsaðstæður og miðast nú vinnan á Bakka við að endurræsing verksmiðjunnar hefjist næsta vor.

Gangi þessar áætlanir eftir er ljóst að upp úr áramótum mun ráðningaferli starfsmanna hefjast. Jafnframt eru nú í gangi viðræður við birgja verksmiðjunnar varðandi endurræsinguna, það er ljóst að til að verksmiðjan geti talist samkeppnishæf á heimsmarkaði þá er gott samstarf við birgja lykilatriði segir í tilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Forstjóri PCC hefur þegar gert formanni Framsýnar grein fyrir áformum fyrirtækisins sem eru mikil gleðitíðindi fyrir atvinnulífið á svæðinu en um þessar mundir eru tæplega 200 manns án atvinnu í Þingeyjarsýslum.