Tímamót í sögu ASÍ – 44 þingið rafrænt og forsetum fjölgað

Þing Alþýðusambands Íslands sem fram fór í síðustu viku var að þessu sinni haldið rafrænt í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Á þinginu voru  kjarnaatriðin, samkvæmt lögum ASÍ afgreidd, en nefndarstörfum og  málefnavinnu frestað fram á vorið 2021. Eins og fram kemur í 24. grein laga Alþýðusambandsins ber að senda aðildarfélögunum þau gögn sem leggja á fyrir þingið með ákveðnum fyrirvara. Skal það gert eigi síðar en þremur mánuðum áður svo félögin geti tekið gögnin til efnislegrar meðferðar og undirbúið þingfulltrúa sem í umboði stéttarfélaganna sitja þingið. Ályktanir og álit sem miðstjórn hyggst leggja fyrir þingið þurfa sömuleiðis að berast aðildarfélögunum  þremur mánuðum fyrir þingið. Þá skulu jafnan fara fram tvær umræður um lagabreytingar. Því miður var þessum reglum ekki fylgt eftir í öllum tilfellum og því gætir óánægju með ákveðin atriði varðandi þinghaldið.

Skipulag þingsins hefði þurft að vera miklu betra. Aðildarfélögin fengu ekki tækifæri til að kynna sér málefni þingsins s.s. tillögu um að fjölga varaforsetum um einn. Tillögu sem menn fréttu fyrst af örfáum dögum fyrir þingið í fjölmiðlum að til stæði að leggja fyrir þingið með því að breyta þingsköpum. Tillagan fékk enga efnislega umræðu hjá aðildarfélögum ASÍ og slapp naumlega í gegnum þingið enda megn óánægja með svona vinnubrögð. Alþýðusamband Íslands er ekki og á ekki að vera eignarhaldsfélag nokkurra formanna innan sambandsins, formanna sem maður hélt að stunduðu ekki svona vinnubrögð.

Athygli vakti að þingfulltrúar gátu tjáð sig rafrænt á þinginu, en þurftu að hafa 15 meðmælendur ætluðu þeir sér að leggja fram tillögu eða breytingatillögu við tillögur miðstjórnar og kjörnefndar um félaga í trúnaðarstöður fyrir sambandið. Þetta var einfaldlega óframkvæmanlegt fyrir flest félögin, enda hvert og eitt þeirra með fáa þingfulltrúa. Enda fór það svo að engar tillögur komu fram frá þingfulltrúum með rafrænum hætti á þinginu sem væntanlega er sögulegt í starfi Alþýðusambands Íslands, það er að ekki hafi komið fram tillögur frá almennum þingfulltrúum á þinginu.

Fram að þessu hefur mikið verið lagt upp úr því að forysta sambandsins endurspeglaði á hverjum tíma mismunandi viðhorf hreyfingarinnar auk þess sem tekið væri tillit til sjónarmiða landsbyggðar og höfuðborgar við uppstillingu í forsetateymið. Nú bar svo við að „nýja forystan“ taldi ekki ástæðu til að virða þau gildi lengur. Það er miður fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að allir forsetarnir fjórir skuli koma af höfuðborgarsvæðinu til að gulltryggja ákveðnum aðilum völd innan sambandsins. Sjónarmið landsbyggðar og unga fólksins innan hreyfingarinnar voru virt að vettugi, það er þrátt fyrir að þess hafi verið getið að mark­miðið með fjölg­un varaforseta væri að stærstu sam­bönd og fylk­ing­ar ættu full­trúa í æðstu for­ystusveit sam­bands­ins. Þetta sjónarmið náði ekki út fyrir 101 Reykjavík sem er mikið áhyggjuefni.

Hér með er skorað á ráðandi menn innan Alþýðusambands Íslands að bæta úr þessu ójafnvægi milli sjónarmiða landsbyggðar og höfuðborgar. Sama á við um þær nýju áherslurnar  í starfi ASÍ að auglýsa ekki laus störf til umsóknar á skrifstofu sambandsins. Þess í stað er handvalið í störfin af ákveðnum aðilum, það er vini og vandamenn. Spurt er, er þetta eðlilegt í hreyfingu sem kennir sig við jafnræði, kynjajafnrétti og lýðræði að svona vinnubrögð séu viðhöfð?

Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar er hér þungt hugsi yfir þingstöfunum enda full ástæða til þess. Það var margt þar sem mátti fara betur.

Elva Héðinsdóttir formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sat þingið ásamt ungu barni sínu sem án efa er verðandi leiðtogi. Hún er jafnframt í stjórn Framsýnar-ung.

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar ákváðu að hittast í fundarsal stéttarfélaganna og taka saman þátt í þinginu sem var rafrænt. Á myndina vantar formann Framsýnar sem tók myndina.