Kalla eftir frekari upplýsingum frá Norðurþingi – sveitarfélagið boðar verulegar kjaraskerðingar

Félagsmenn Framsýnar, STH og Félags leikskólakennara sem starfa á Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík hafa leitað til félaganna vegna breytinga sem Norðurþing hefur boðað á kjörum og réttindum starfsmanna. Norðurþing hefur ákveðið að segja upp fastri yfirvinnu sem starfsmenn hafa fengið fram að þessu og tengist sveigjanlegum neysluhléum á vinnutíma. Um er að ræða umtalsverðar kjaraskerðingar eða sem nema rúmlega mánaðarlaunum hjá hverjum og einum starfsmanni á ársgrundvelli. Eðlilega eru starfsmenn afar óhressir og hafa boðað til starfsmannafundar í samráði við aðildarfélög starfsmanna í dag kl. 16:30 til að ræða viðbrögð við þessum harkalegu aðgerðum Norðurþings sem eru fordæmalausar.

Málefni starfsmanna Norðurþings voru til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar þann 30. september. Samþykkt var að bregðast við þessum aðstæðum með því að kalla eftir upplýsingum frá Norðurþingi um stefnu þeirra í þessum málum er varðar kjör starfsmanna sveitarfélagsins. Það er, óskað er eftir upplýsingum frá Norðurþingi um hvort skerðingar á kjörum og kjarasamningsbundnum réttindum nái til allra starfsmanna sveitarfélagsins? Ef svo er ekki, til hvaða hópa/deilda innan sveitarfélagsins þær nái til?