Góður andi í viðræðum PCC og Framsýnar

Fulltrúar frá PCC á Bakka og fulltrúar Framsýnar komu saman til fundar í gær til að ræða framvindu sérmála í gildandi sérkjarasamningi aðila. Ákveðið hefur verið að fara í vinnutímastyttingar um næstu mánaðamót sem gefur starfsmönnum aukafrí án launaskerðingar í  6 daga, eða 48 stundir á ári. Næstu vikurnar verða notaðar til að þróa vinnutímabreytingarnar svo þær verði klárar um næstu mánaðamót. Þá verður ráðist í að þróa bónuskerfi innan fyrirtækisins sem ætlað er að færa fyrirtækinu  og starfsmönnum ábata með betri vöru og skilvirkari störfum. Samhliða þróun á bónuskerfi verður unnið að því að þróa hæfnirama/álag sem ætlað er að gefa starfsmönnum allt að 5% launahækkun til viðbótar umsömdum launahækkunum á hverjum tíma. Markmið kerfisins er að hvetja starfsfólk og stjórnendur til að setja þjálfun og starfsþróun í öndvegi og vinna gegn stöðnun og einhæfni. Til viðbótar er áhugi fyrir því að þróa námskeiðahald sem gagnist starfsmönnum við dagleg störf í verksmiðjunni. Á fundinum gær urðu einnig umræður um hvernig staðið verður að nýráðningum/endurráðningum þegar verksmiðjan fer aftur á stað. Samningsaðilar reikna með að funda nokkuð stíft á næstu vikum og mánuðum um sérmál starfsmanna.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var um 80 starfsmönnum sagt upp í sumar. Uppsagnirnar koma að fullu til framkvæmda í lok september. Þegar uppsagnirnar verða gegnar yfir má reikna með að um 50 starfsmenn verði við störf hjá fyrirtækinu. Fullur vilji er til þess hjá stjórnendum fyrirtækisins að hefja starfsemi á ný þegar markaðsaðstæður lagast og áhrifa Covid hætta að gæta.