Ánægja með starfsemi Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar var haldinn miðvikudaginn 26. ágúst. Jónas Kristjánsson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann spurði hvort fundarmenn hefðu athugasemdir við boðun fundarins sem hefði verið auglýstur með góðum fyrirvara á heimasíðu félagsins og síðar í Skránni. Ekki komu fram athugasemdir við boðun fundarins. Því næst gerði hann tillögu um að Aðalsteinn Árni stjórnaði fundi og ritaði fundargerð. Tillaga formanns var samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  • Skýrsla stjórnar
  • Ársreikningar
  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  • Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
  • Lagabreytingar
  • Ákvörðun árgjalda
  • Laun stjórnar
  • Kosning löggilts endurskoðanda
  1. Önnur mál

Niðurstöður fundarins:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. a) Skýrsla stjórnar

Formaður flutti skýrslu stjórnar:

Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 1. júlí 2019 voru 23. Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s. á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins á síðasta kjörtímabili 2018-2020: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.

Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2019 voru 123, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi félagsmenn voru 113 á árinu 2019; 111 karlar og 2 konur. Þess utan voru gjaldfrjálsir félagsmenn 10 á síðasta ár. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á Bakka og á Þeistareykjum. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á svæðinu undanfarið sem hefur tryggt gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 15.233.547 sem er 23,3% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2019 námu kr. 7.027.788 þar af úr sjúkrasjóði kr. 5.833.032 sem er umtalsverð hækkun frá fyrra ári sem skýrist að mestu af greiðslu sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2019 fengu samtals 67 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 43 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 7.170.794 og eigið fé í árslok 2019 nam kr. 240.561.201 og hefur það aukist um 3,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.107.228 sem er þó nokkur lækkun milli ára. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

Orlofsmál
Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið í sumar með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands eftir ekki síst erfiða tíma er tengjast veðurfari í vetur og heimsfaraldri sem takmarkar að menn geti ferðast erlendis í frí vegna ferðatakmarkana milli landa. Þingiðn hvetur því til þess að félagsmenn ferðist innanlands í sumar. Liður í því er að stórauka framboð varðandi gistimöguleika og þá samþykktu stéttarfélögin að lækka leiguverð á orlofshúsum og íbúðum í sumar úr kr. 28.000,- í kr. 20.000,-. Til stóð að hækka það í kr. 29.000,- sumarið 2020. Þannig vildu félögin jafnframt koma til móts við félagsmenn sem margir hverjir hafa orðið fyrir verulegum tekjuskerðingum vegna Covid-19. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi og gengur rekstur hennar mjög vel. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 16 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 323.845,-. Stéttarfélögin stóðu fyrir dagsferð í Flateyjardal haustið 2019 sem Ósk Helgadóttir skipulagði með formanni Þingiðnar og starfsfólki stéttarfélaganna. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og tóku tæplega 30 manns þátt í ferðinni. Vegna heimsfaraldursins sem við Íslendingar höfum orðið að takast á við var ákveðið að hætta við ferð í sumar. Til stóð að bjóða upp á dagsferð um Demantshringinn. Vonandi verður hægt að bjóða upp á góða ferð sumarið 2021. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 10.300,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Reikna má með því að verðið á flugmiðum til félagsmanna hækki í kr. 10.900,- í vetur.

Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018.  Á síðasta ári fengu 6 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 311.711.

Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 5.833.032 á árinu 2019 sem er veruleg hækkun milli ára. Árið 2018 voru greiddar kr. 3.922.164 í styrki til félagsmanna.

Greiðslur til 67 félagsmanna árið 2019 skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir                                  kr. 1.808.028,-
Sjúkradagpeningar                                       kr. 4.025.004,-.

Kjaramál
Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 3. maí 2019 með gildistíma til 1. nóvember 2022. Megin áherslur iðnaðarmanna í samningunum var að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna. Frá undirskrift kjarasamningsins hefur verið lögð vinna í á vegum Samiðnar að útfæra launakerfið. Þá hefur einnig verið unnið í því að útfæra styttingu vinnuvikunnar. Í fyrsta lagi var tekinn upp virkur vinnutími frá 1. apríl 2020 sem þýðir að virkur vinnutími verður 37 vinnustundir sem hækkar tímavinnu einingu í dagvinnu um 8,33% en heildarlaun verða óbreytt miðað við 40 vinnustundir. Frá sama tíma varð breyting á yfirvinnu og verður hún frá þeim tíma tvískipt. Yfirvinna eitt, sem er fyrir 16 yfirvinnustundir á fjögra vikna launatímabili, og yfirvinna tvö, sem greiðist fyrir vinnutíma umfram 41 virka klst. á viku að meðaltali á launatímabili /mánuði. Yfirvinna tvö er einnig greidd fyrir vinnu á nóttu á tímabilinu frá kl. 00.00-06.00. Þann 1. janúar 2021 er gert ráð fyrir að stigið verði skref tvö en þá opnast möguleiki á að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Takist ekki að útfæra vinnutímastyttingu í fyrirtækjasamningum styttist vinnuvikan 1. janúar 2022 í 36 stundir og 15 mínútur. Vitað er að hluti fyrirtækja á félagssvæði Þingiðnar hafa tekið nýja kerfið upp meðan önnur fyrirtæki hafa haldið í gamla kerfið. Þá hefur tvískipt yfirvinna flækt málið hjá verktökum sem selja út starfsmenn í vinnu þar sem gera þarf ráð fyrir mismunandi yfirvinnukaupi hjá starfsmönnum við útreikninginn á útseldri vinnu.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu. Það sama verður því miður ekki sagt um aðrar atvinnugreinar á svæðinu þar sem Covid- 19 hefur haft veruleg áhrif á starfsemi s.s. ferðaþjónustuaðila. Þá hefur PCC á Bakka boðað uppsagnir á næstu vikum vegna markaðsmála og Covid- 19. Það mun hafa áhrif á einhverja félagsmenn Þingiðnar. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu viðunandi er varðar iðnaðarmenn. Vitaskuld koma annað slagið upp mál sem krefjast viðbragða, við það verður ekki sloppið. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Það sést til dæmis á því að forsvarsmenn fyrirtækja sem koma með starfsemi inn á svæðið leita mikið eftir aðstoð og þjónustu stéttarfélaganna. Í dag eru stéttarfélögin með starfsmann í hálfu starfi við vinnustaðaeftirlit.

Hátíðarhöldin 1. maí
Í fyrsta skiptið síðan 1923 hafði íslenskt launafólk ekki tækifæri á að safnast saman 1. maí 2020 til að leggja áherslur á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Árið 1923 fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Eðlilega urðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum að fella niður hefðbundna dagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík í ár. Hátíðarhöldin voru því með óhefðbundnu sniði vegna þessara sérstöku aðstæðna. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna slógust í hóp heildarsamtaka launafólks sem voru með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu sem fram fór í Hörpu að kvöldi 1. maí. Viðburðinum var sjónvarpað í gegnum Ríkissjónvarpið. Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum stóðu: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. 

Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:

  • Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Íslandsbanki hefur nú óskað eftir endurskoðun á vaxtakjörum stéttarfélaganna í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Viðræður eru framundan en sex mánaða uppsagnarfrestur er á núverandi samningi.
  • Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.
  • Félagið kom að því að styðja aðeins við bakið á íþróttastarfi Völsungs með auglýsingu.
  • Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningu á vegum Leikfélags Húsavíkur.
  • Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi.
  • Félagið kom að því að styrkja kaup Slökkviliðs Norðurþings á búnaði til nota til björgunar á fólki sem lent hefur t.d. í rútuslysum eða óhöppum annarra stærri farartækja. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lögðu verkefninu til kr. 250.000,-.
  • Félagið kom að því að styrkja Sjúkraþjálfun Húsavíkur til kaupa á nýjum búnaði fyrir sjúkraþjálfun í Hvammi. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lögðu verkefninu til kr. 750.000,-, þar af Þingiðn kr. 300.000,-.
  • Félagið kom að því að styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga um kr. 50.000,- enda sjóðurinn mikilvægur í samfélaginu.
  • Samþykkt var að styrkja Björgunarsveitina Garðar um kr. 250.000,-. 

Samkomulag við Flugfélagið Erni
Í desember 2019 endurnýjuðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn sína  þegar horft er til þess að stéttarfélögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan þau hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið í lok síðasta árs hafa stéttarfélögin tryggt félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2020. Verð til félagsmanna hefur verið kr. 10.300,- per flugmiða/kóða en mun hækka síðar á árinu upp í kr. 10.900,- samkvæmt samkomulaginu.

Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf. Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll leigurými í notkun. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26 sem áður var í eigu félagsmanna.

Covid- 19
Óhætt er að segja að heimsfaraldurinn Covid- 19 hafi haft veruleg áhrif á heimsbyggðina og þar með Ísland, sem ekki er séð fyrir endann á.  Vegna tilmæla frá heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi um að allir legðust á eitt með að sporna gegn útbreiðslu veikinnar var ákveðið að loka Skrifstofu stéttarfélaganna frá 25. mars til  4. maí í varúðarskyni. Það er að verja starfsmenn og félagsmenn gegn hugsanlegu smiti. Þrátt fyrir að skrifstofan væri formlega lokuð mætu starfsmenn stéttarfélaganna til starfa með hefðbundnum hætti. Félagsmenn stéttarfélaganna tóku þessari ákvörðun vel. Í stað þess að koma í heimsókn á skrifstofuna höfðu þeir samband í gegnum síma eða með því að vera í tölvusambandi. Nokkrir komu reyndar á gluggann á skrifstofunni í leit að upplýsingum og þá var póstkassa komið fyrir við úthurðina fyrir gögn frá félagsmönnum.  Meðan lokað var fyrir aðgengi að skrifstofunni var mikið leitað eftir þjónustu. Fjölmargir félagsmenn stéttarfélaganna leituðu til félagsins á tímabilinu sem og atvinnurekendur á félagssvæðinu. Gerðu starfsmenn sitt besta til að þjónusta viðskiptavini og segja má að staðin hafi verið nánast 24/7 vakt. Það er félagsmenn gátu nálgast upplýsingar hjá starfsmönnum skrifstofunnar nánast hvenær sem er. Vissulega var álagið á starfsmönnum mikið enda að takast á við heimsfaraldur og með fjölmarga félagsmenn í óvissu sem voru meðal annars að missa vinnuna eða fara á hlutabætur á móti skertu starfhlutfalli hjá fyrirtækjum sem urðu að bregðast við heimsfaraldrinum. Stéttarfélögin ákváðu að koma til móts við félagsmenn með ýmsum hætti í ljósi ástandsins sem skapast vegna Covid- 19. Meðal annars með auknum framlögum í formi styrkja og þjónustu við félagsmenn. Tekin var ákvörðun um að lækka leiguverð í orlofshúsum sumarið 2020, það er úr kr. 28.000,- í kr. 20.000,-. Til stóð að hækka það í kr. 29.000,- sumarið 2020.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson hefur annast þá þjónustu. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur, fyrirtæki og stofnanir sem eru virk og tilbúin í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest og gefa nýjum starfsmönnum tækifæri. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur. Formleg þjónusta við einstaklinga á vettvangi Virk hefst með tilvísun frá lækni (oftast heimilislækni/lækni heilsugæslu). Þingiðn og samstarfsstéttarfélög í Þingeyjarsýslum eiga virkt samstarf við Virk – starfsendurhæfingarsjóð um skipulag og stuðning við þjónustuna. Á síðustu misserum hefur byggst upp gott samstarf um miðlun verkefna og samstarf ráðgjafa við Eflingu – stéttarfélag. Starfsmaður Virk á Húsavík hefur að hluta starfað sem ráðgjafi á félagssvæði Eflingar. Á heimasíðu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er mikið af fræðslu- og stuðningsefni um starfsendurhæfingu, forvarnarstarf á vinnustöðum og jákvæða virkni, sjá www.virk.is og www.velvirk.is. Þar er einnig að finna Ársrit Virk sem inniheldur yfirlit um starfsemi hvers árs og gagnlegt efni á sviði starfsendurhæfingar.  Ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum er Ágúst Sigurður Óskarsson og er hann til staðar á Skrifstofu Framsýnar á Húsavík, sími 464-6600 og netfang virk@framsyn.is. 

Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 7 starfsmenn í 5,9 stöðugildum. Vegna veikinda á skrifstofunni var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin tímabundið til starfa sem fjármálastjóri. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórnir félaganna, starfsmenn og félögin í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Vinnustaðaheimsóknir voru fjölmargar á síðasta ári. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Til skoðunar er að skipta út núverandi bifreið stéttarfélaganna og kaupa þess í stað nýjan/nýlegri bíl til nota fyrir félögin. Þá má geta þess að ákveðið var að semja við Sjóvá um tryggingar fyrir stéttarfélögin á síðasta ári. Þar áður voru stéttarfélögin með tryggingarnar hjá VÍS.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. Full ástæða er til að þakka Kristni Bjartmari Gunnlaugssyni, sem nú hverfur úr stjórn félagsins, sérstaklega fyrir störf hans í þágu félagsins í gegnum tíðina. Kiddi hefur verið virkur í starfinu og mætt á nánast alla stjórnarfundi á vegum Þingiðnar.

b) Ársreikningar
Fundarstjóri, Aðalsteinn Árni, gerði grein fyrir ársreikningum félagsins.

Fram kom að reksturinn hefur gengið mjög vel, ekki síst þar sem aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna vinna náið saman að verkalýðsmálum. Meðal annars með því að reka sameiginlega skrifstofu. Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 15.233.547 sem er 23,3% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2019 námu kr. 7.027.788 þar af úr sjúkrasjóði kr. 5.833.032 sem er umtalsverð hækkun frá fyrra ári sem skýrist að mestu af greiðslu sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2019 fengu samtals 67 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 43 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 7.170.794 og eigið fé í árslok 2019 nam kr. 240.561.201 og hefur það aukist um 3,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.107.228 sem er þó nokkur lækkun milli ára. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

c) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Almennar umræður urðu um skýrslu stjórnar og ársreikninga. Í máli fundarmanna kom fram almenn ánægja með reksturinn. Fram kom hjá fundarstjóra að Íslandsbanki hefði á dögunum boðað uppsögn á vaxtakjörum sem félagið hefði haft undanfarin ár. Uppsögnin væri gerð með sex mánaða fyrirvara. Framundan væru viðræður við bankann um áframhaldandi viðskipti og vaxtakjör. Eftir umræður var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða.

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt samhljóða.

d) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu

Tillaga Kjörnefndar um félagsmenn í trúnaðarstöður fyrir félagið næsta kjörtímabil 2020-2022 skoðast samþykkt þar sem ekki hafa borist aðrar tillögur um félagsmenn í trúnaðarstöður innan félagsins.

Tillaga um að starfsmenn félagsins sjái áfram um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar milli aðalfunda var samþykkt samhljóða.

e) Lagabreytingar

Engar lagabreytingar voru lagðar fram á fundinum.

f) Ákvörðun árgjalda

Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum var samþykkt samhljóða.

Tillaga stjórnar um að iðgjald félagsmanna í fræðslusjóð félagsins verði óbreytt milli ára, það er 0,3% af launum var samþykkt samhljóða.

g) Laun stjórnar

Tillaga um að laun stjórnar verði óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á hærri yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins var samþykkt samhljóða.

h) Kosning löggilts endurskoðanda

Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjái um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2020 var samþykkt samhljóða.

2. Önnur mál
Fundarstjóri gerði fundarmönnum grein fyrir því að ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, væri væntanlegur í heimsókn til Húsavíkur á föstudaginn. Tilgangur heimsóknarinnar væri að heilsa upp á stéttarfélögin og atvinnurekendur á svæðinu. Lagt fram til kynningar.

Formaður kallaði Kristinn B. Gunnlaugsson upp og þakkaði honum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Hann sagði Kidda hafa verið lengi í stjórn og nánast komið á alla stjórnarfundi í gegnum tíðina, fyrir það bæri að þakka um leið og hann afhendi honum smá glaðning frá félaginu. Kristinn þakkaði fyrir sig og sagði það hafa verið afar ánægjulegt að starfa fyrir félagið en hann er nú kominn á eftirlaun.

Í lok fundar fengu fundarmenn smá glaðning frá félaginu, boli og handklæði um leið og formaður sleit fundi og þakkaði fundum sem og fundarstjóra fyrir góðan fund.

Kiddi hefur lengi starfað fyrir Þingiðn, hann fékk smá glaðing frá félaginu fyrir vel unninn störf í þágu félagsins. Með honum á myndinni er formaður Þingiðnar, Jónas Kristjánsson.