Fréttir af aðalfundi – Mannauðurinn hjarta hvers fyrirtækis

Varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, kvaddi sér hljóðs undir liðnum, önnur mál á aðalfundi Framsýnar. Sagði hún ástæðu til að þakka starfsfólki Skrifstofu stéttarfélaganna sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu félagsmanna. Það ætti ekki síst við síðustu mánuði, síðan heimsfaraldur Covid skall á með fullum þunga. Það hefði sýnt sig og sannað á þessum álagstímum, það sem oft hefði verið sagt, að mannauðurinn væri hjarta hvers fyrirtækis. Fundarmenn svöruðu orðum Óskar með lófaklappi. Linda Margrét þakkaði fyrir hlý orð í garð starfsmanna félagsins og sagði þau mikils virði fyrir starfsmenn.