Alls greiddu 3.320 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2019 en greiðandi félagar voru 3.446 árið 2018. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fækkaði aðeins milli ára sem á sínar skýringar þar sem stórframkvæmdum á svæðinu er lokið. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.080 karlar og 1.240 konur sem skiptast þannig, konur eru 37% og karlar 63%. Skýringin á kynjahlutfallinu liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu á síðustu árum og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf. Flest bendir til þess að kynjahlutfallið muni jafnast frekar á næstu árum.
Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.
Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 332, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 8 til 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu.